Poul Stigsen Hvide

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Poul Stigsen Hvide eða Páll Stígsson (d. 3. maí 1566) var danskur aðalsmaður sem var höfuðsmaður (hirðstjóri) á Íslandi laust eftir miðja 16. öld og er helst minnst fyrir það að í hans tíð var Stóridómur lögtekinn.

Afabróðir Páls var Otti Stígsson, hirðstjóri á Íslandi 1542-1547 og aftur sumarið 1551, og hálfbróðir hans var Henrik Krag, sem tók við hirðstjórn af Páli. Páll virðist árið 1525 hafa verið í þjónustu danska aðalsmannsins Anders Bille og árið 1528 fylgdi hann Danakonungi í utanlandsferð. Árið 1529 var hann kominn í þjónustu Jørgen Friis biskups í Viborg.

Páll var orðinn fógeti á Bessastöðum 1554 og gegndi því starfi líklega allan tímann á meðan Knud Stensen var hirðstjóri og tók svo við hirðstjóraembættinu árið 1559, fékk skipunarbréf frá konungi 28. mars 1560 og gegndi embættinu til dauðadags en hafði raunar ári áður fengið embætti í Noregi sem hann var þó ekki búinn að taka við.

Hann var að mörgu leyti hæfur stjórnandi en harður, konunghollur og duglegur embættismaður, efldi mjög konungsvaldið á Íslandi og þótti röskur við að innheimta gjöld til konungs en virðist hafa komið vel saman við flesta valdamenn landsins. Hann var líka trúrækinn og siðavandur og er ekki síst minnst fyrir Stóradóm, sem leiddur var í lög í embættistíð hans, þótt hann sé varla einn ábyrgur fyrir honum.

Páll reið ofan í keldu (sumir sögðu fjóshaug eða hlandfor) skammt frá Bessastöðum vorið 1566 og drukknaði. Hann var grafinn fyrir framan altarið í Bessastaðakirkju. Á legsteini hans standa orðin „justus, castus, amans religionis“ eða „réttvís, hreinlífur og trúrækinn“. Hann var ókvæntur. Henrik Krag hálfbróðir hans, sem hafði verið hjá honum á Íslandi, tók við hirðstjórastarfinu eftir hann.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Menn og mentir. Ísafold, 7. júní 1924“.
  • „Legsteinn Páls Stígssonar og steinsmiðurinn Hans Maler. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 75. árgangur 1978“.


Fyrirrennari:
Knud Stensen
Hirðstjóri
(15591566)
Eftirmaður:
Henrik Krag