Pólýfónkórinn og kammersveit - Tónleikar á Spáni í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1982

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pólýfónkórinn og kammersveit - Tónleikar á Spáni í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1982
POL.013
FlytjandiPólýfónkórinn, kammersveit, Rut Ingólfsdóttir, konsertmeistari, Kristinn Sigmundsson, Jón Þorsteinsson, Nancy Argenta, stjórnandi Ingólfur Guðbrandsson
Gefin út2007
StefnaKlassík
ÚtgefandiPólýfónkórinn - Pólýfónfélagið

Pólýfónkórinn og kammersveit - Tónleikar á Spáni í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1982 er geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum[1] árið 2007. Um er að ræða upptöku af tónleikum úr ferð Pólýfónkórsins, einsöngvara og kammersveitar til Spánar í júlí 1982. Konsertmeistari var Rut Ingólfsdóttir og stjórnandi var Ingólfur Guðbrandsson. Einsöngvarar voru Kristinn Sigmundsson, Jón Þorsteinsson og Nancy Argenta.

Kórfélagar voru 90 talsins í ferðinni og hljómsveitina skipuðu 50 hljóðfæraleikarar. Í hefti með útgáfunni má finna lista yfir alla þátttakendur.

Ferðin var farin að tilhlutan spænskra ferðamálayfirvalda í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Kórinn söng á fimm stöðum í Andalúsíu; í Malaga, Marbella, Nerja, Granada og Sevilla. Áður hafði kórinn flutt sömu efnisskrá í Háskólabíói 29. júní. Þar bar til tíðinda að frumfluttir voru hlutar úr Óratóríunni Eddu eftir Jón Leifs. Kaflarnir úr Eddu vöktu sérstaka athygli tónleikagesti á Spáni en á verkefnaskránni voru auk þeirra Gloria eftir Poulenc, Vatnamúsík eftir Händel, verk eftir Buxtehude, tveir fiðlukonsertar þar sem Unnur María Ingólfsdóttir og Þórhallur Birgisson léku einleik og kórar úr Messíasi.

Lagalisti[breyta | breyta frumkóða]

Á geisladiskinum eru þessi verk:

„Úr Ýmis holdi
var jörð of sköpuð,
en ór sveita sær,
björg ór beinum,
baðmr ór hári,
en ór hausi himinn.. “

Söngferðin til Spánar[breyta | breyta frumkóða]

Ingólfur Guðbrandsson og sópransöngkonan Nancy Argenta kölluð upp í lok tónleikanna í Sevilla 1982.

Arnaldur Indriðason fylgdi kórnum á ferðalaginu og skrifar ferðalýsingu í Morgunblaðið.[2] Hann skrifar einnig grein að afloknum síðustu tónleikum kórsins í ferðinni: „Ég er afar glaður og þakklátur yfir sigursælum endi þessa hljómleikaferðalags. Það er stórkostlegt að hafa fengið húsfylli á öllum þessum fimm tónleikum, sem við höfum haldið. Tónlistin hefur verið flutt af mikilli gleði og innlifun og hver konsert hefur verið tilhlökkunarefni fyrir okkur,“ sagði Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi Pólýfónkórsins, í samtali við Morgunblaðið eftir mjög vel heppnaða lokatónleika Pólýfónkórsins í Sevilla á Spáni í kvöld.

Með tónleikunum í Sevilla lauk fimm daga söngferðalagi kórsins og hljómsveitar um Spán, þar sem haldnir voru jafnmargir tónleikar, ávallt fyrir fullu húsi. Spænska sjónvarpið tók upp þessa tónleika í Sevilla, sem haldnir voru í Kirkju Frelsarans, gullfallegri og risastórri 18. aldar barokk-kirkju. Hún rúmar um 1.000 manns í sæti og var hvert sæti skipað og ríflega það. Að tónleikunum loknum voru Ingólfur, kórinn, hljómsveit, einleikarar og einsöngvarar hylltir með dynjandi lófataki og voru Ingólfi og Nancy Argenta afhentir blómvendir að hljómleikunum loknum.

Veggspjald með dagskrá tónleikanna á Spáni. Teikninguna gerði Baltasar.

Aðaltónlistargagnrýnandi stærsta dagblaðsins í Sevilla sagði í samtali við Mbl., að hér hefði verið um að ræða einhvern mesta tónlistarviðburð í borginni það sem af væri árinu. „Það er synd fyrir heiminn,“ sagði hann, „að kórinn skuli ekki fara víðar, sérstaklega með verk Jóns Leifs, Eddu-óratóríuna.“ Hann hældi einsöngvurunum, Kristni Sigmundssyni og Jóni Þorsteinssyni og sérstaklega Nancy Argenta, kanadíska einsöngvaranum.

Söngskrá sem gefin var út á spænsku í tilefni söngferðarinnar 1982.

Tónlistargagnrýnandi blaðsins Sur, stærsta blaðs í Malaga, sagði meðal annars í blaði sínu eftir að hafa hlýtt á tónleika Pólýfónkórsins og hljómsveitar í Malaga: „Kammerhljómsveitin var mjög samstillt og hinn stóri kór var vel æfður og agaður. Einleikarinn, María Ingólfsdóttir, stjórnaði konsert Bachs mjög vel og var leikur hennar á fiðluna hreint út sagt stórkostlegur og hafði hún fullkomið vald á hljóðfærinu. Í óratóríu Jóns Leifs voru einsöngvararnir Kristinn Sigmundsson og Jón Þorsteinsson mjög góðir. Það, sem var athyglisverðast og stórkostlegast á efnisskránni, var Gloría F. Poulencs og var söngur kanadíska einsöngvarans, Nancy Argenta, óaðfinnanlegur og var flutningur verksins í heild sinni mjög góður. Verkin voru flutt undir öruggri stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, sem ásamt kór og hljómsveit, einleikurum og einsöngvurum var klappað mikið lof í lófa af hinum stóra áheyrendahópi.“

Pólýfónkórinn og kammersveit að loknum tónleikum í Granada 1982.

Blaðið Granada, sem gefið er út í samnefndri borg, sagði eftir tónleika kórsins þar: „Það voru svolítið sérstakir tónleikar, sem Pólýfónkórinn og hljómsveit fluttu í dómkirkjunni í Granada undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, en konsertmeistari var Rut Ingólfsdóttir. Allur flutningur efnisskrárinnar var stórkostlegur og kom það á óvart hve vel og örugglega verkin voru flutt. Án erfiðleika fyllti kórinn þessa stóru kirkju með söng sínum, þannig að það var sama hvar fólk sat, alls staðar heyrðist tónlistin jafn vel.“[3]

Sigurdór Sigurdórsson, einn af fararstjórum kórsins í ferðinni skrifar: „Ég get fullyrt að þessi vika i júlí sumarið 1982 er sú eftirminnilegasta og ánægjulegasta sem ég lifði í 11 ára starfi mínu sem fararstjóri á Spáni. [..] Ég get líka bætt því við að aldrei hef ég verið stoltari af því að vera Íslendingur en þegar ég heyrði kórinn opna tónleika sína með þjóðsöngnum okkar Ó, guð vors lands í kirkjunni í Malaga. Við stóðum fararstjórarnir út við kirkjudyrnar, þegar söngurinn hófst. Fyrst stirðnaði maður upp og svo fór um mann einhver bylgja. Við horfðum síðan hvert á annað og hrifningartár stóðu í augum okkar allra og við viðurkenndum síðar hvert fyrir öðru að hrifning og stolt hefði hríslast um líkama okkar. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar upplifað slík hughrif. Þá var gaman að vera Íslendingur.

Malaga kirkjan er stór og hljómburður fallegur í henni. Tónarnir bárust út í hvert horn og hvern kima og þeir fylltu kirkjuna í orðsins fyllstu merkingu. Við gátum fylgst með hrifningu tónleikagestanna. Hún var ósvikin hjá hverjum manni. En það var líka tilkomumikið að hlýða á tónleikana í litlu kirkjunni í Nerja og Marbella. Þar var allt nær manni og einhvern veginn öðru vísi að hlýða á flutninginn, ef til vill allt persónulegra.

Tónleikarnir í Granada voru frábærir og ég er ekki frá því að þar hafi kröfuhörðustu gestirnir verið, vegna þess að í um þrjátíu ár hefur árlega verið haldin tónlistarhátíð í Granada, þar sem öll tegund tónlistar er flutt og Granadabúar vita hvað góð tónlist og tónlistarflutningur er. [..] Ég er heldur ekki frá því að Pólýfónkórinn hafi fengið innilegastar viðtökur á hljómleikunum i Granada. Hitt er svo annað mál að tónleikarnir i Sevilla voru þeir bestu frá hendi kórs og hljómsveitar.“[4]


Hljómleikastaðir[breyta | breyta frumkóða]

Efnisskráin var sungin í Háskólabíói og á fimm stöðum á Spáni; í Catedral de Málaga, í Iglesia de Marbella, í Iglesia de Nerja, í Catedral í Granada og í San Salvador kirkjunni í Sevilla.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Pólýfónfélagið gaf út plötur kórsins frá stofnun félagsins árið 2006.
  2. Sjá greinar Arnaldar í Morgunblaðinu 23. júlí og 24. júlí 1982.
  3. Morgunblaðið, 8. júlí 1982, bls. 2.
  4. Úr bókinni "Í ljósi líðandi stundar. Pólýfónkórinn 1957-1987." Reykjavík: Pólýfónkórinn, 1987, bls. 68.