Olof Verelius

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Olof Verelius

Olof Verelius (12. febrúar 16183. janúar 1682), var sænskur rúnafræðingur, málfræðingur, fornfræðingur og sagnfræðingur, sem starfaði lengst í Uppsölum. Olof Verelius tók saman fyrstu íslensku orðabókina í Svíþjóð: Index linguo veterìs scytho-scandicæ sive gothico. Hann var einnig upphafsmaður þeirra hugmynda að Svíar væru „Hyperborear“. Aðstoðarmaður hans við íslenskunám og útgáfustörf var Íslendingurinn Jón Rúgmann.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Hann fæddist í Smálöndum, sonur Nils Petri prests þar og Botilda Olofsdotter. Strax sem ungur maður tók hann upp ættarnafnið Verelius.

Eftir nám í Tartu (eða Dorpat) í Eistlandi og Uppsölum hóf hann kennslu. Fór svo í námsferð til Leiden og Parísar 1648–1650. Eftir að hann kom heim samdi hann bókina: Epitomarum historio svio-gothico libri ... (1682), sem var á svo fagurri latínu að hún var síðar notuð sem kennslubók í þeirri grein. Þar koma fram háar hugmyndir um fortíð Svía.

Verelius fluttist til Uppsala 1653 og varð fjárhaldsmaður Uppsalaháskóla og gegndi því embætti til 1679. Honum bauðst kennarastaða í sagnfræði 1657, afþakkaði hana, en varð prófessor í fornfræði föðurlandsins 1662. Hann var þjóðminjavörður 1666–1675 og aðstoðarmaður við Sænska fornfræðaráðið (Antikvitetskollegiet). Síðast háskólabókavörður 1679.

Verelius hóf að rannsaka íslensk handrit og fékk þau send til Uppsala. Hann náði nokkuð góðum tökum á málinu og tók saman fyrstu íslensku orðabókina í Svíþjóð: Index linguo veterìs scytho-scandicæ sive gothico, sem Olof Rudbeck gaf út 1691. Einnig gaf hann út nokkrar íslenskar fornsögur á íslensku, með sænskri þýðingu, m.a. Gautreks sögu og Hrólfs sögu Gautrekssonar (Gothrici & Rolfi Westrogothiae regum historia, 1664), Bósa sögu og Herrauðs (1666) og Hervarar sögu (1672). Aðstoðarmaður hans við íslenskunám og útgáfustörf var Íslendingurinn Jón Jónsson (1636–1679) frá Rúgsstöðum í Eyjafirði, betur þekktur sem Jón Rúgmann eða Jonas Rugman. Þessar útgáfur eru með þeim fyrstu sem gerðar voru á íslenskum fornritum. Verelius samdi einnig rúnafræðirit á latínu og sænsku: Olai Vereli Manuductio compendiosa ad runographiam Scandicam antiquam, Uppsala 1675.

Hyperborear o.fl.[breyta | breyta frumkóða]

Olof Verelius var upphafsmaður þeirra hugmynda að Svíar væru „Hyperborear“ (gríska: Ὑπερβόρειοι / Hyperboreioi) sem nefndir eru í grískri goðafræði og áttu að búa lengst í norðri. Nemandi hans, Olof Rudbeck, varð síðar helsti talsmaður kenningarinnar. Verelius lenti í langvinnum deilum við prófessor Johannes Schefferus um það hvar hofið forna í Uppsölum stóð. Schefferus hélt því fram að það hefði verið í miðbæ Uppsala, en Verelius taldi það hafa verið þar sem kirkjan í Gömlu-Uppsölum er. Almennt er nú talið að kenning Vereliusar sé rétt. Þessar deilur leiddu til betri vinnubragða hjá sænskum sagnfræðingum.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Kona Olofs Vereliusar var Anna Gestricia, ekkja, sem átti af fyrra hjónabandi soninn Jacob Reenhielm, síðar þjóðminjavörð. Verelius eignaðist ekki börn, en gekk börnum konu sinnar í föðurstað. Hann dó í Uppsölum 1682.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]