Olíufjallið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Olíufjallið er hæðarás sem áður fyrr var austur af Jerúsalem en er nú hluti af borginni. Það tekur nafn sitt af olívutrjám sem þar eru. Olíufjallið stendur í Jósafatsdal, öðru nafni Kedrondal, en þar rann áður Kedronlækur. Fjallið er oft nefnt í Gamla og Nýja testamentinu. Við rætur þess er olívugarðurinn Getsemane þar sem Kristur var handtekinn. Og samkvæmt Postulasögunni steig Kristur upp til himna af fjallinu 40 dögum eftir að hann reis upp frá dauðum.

Uppi á fjallinu er Uppstigningarkirkjan. Hún er nú ekki annað en hringreistur garður undir beru lofti, en inni í honum miðjum er lítið byrgi með hvolfþaki yfir sem nefnd er Uppstigningarkapellan (heb. קפלת העלייה‎). Í henni miðri er feld marmarahella og marmarasteinar í kring. Í helluna er markað spor eftir hægra fót en þar á Jesús að hafa spyrnt þegar hann steig upp til himins.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.