Oddaverjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Oddaverjar voru íslensk höfðingjaætt á 12. og 13. öld, kenndir við bæinn Odda á Rangárvöllum og var veldi þeirra mest í Rangárvallasýslu. Ættfaðir þeirra var Sæmundur fróði, sem gerði Odda að fræðasetri og hóf staðinn til mikillar virðingar. Sú virðing jókst enn þegar Loftur sonur hans giftist Þóru, laundóttur Magnúsar berfætts. Sonur þeirra var Jón Loftsson. Hann var mesti höfðingi landsins um sína daga og stóð á móti tilraunum Þorláks biskups helga til að ná valdi á kirkjustöðum. Eftir dauða hans tók Sæmundur sonur hans við goðorðum ættarinnar en Páll, launsonur Jóns, varð biskup í Skálholti.

Eftir að Páll biskup lést 1211 fór veldi Oddaverja hnignandi. Þeir eru jafnan taldir með helstu valdaættum Sturlungaaldar en áttu þó fremur lítinn þátt í erjum og styrjöldum tímabilsins. Þórður Andrésson, sonarsonur Sæmundar Jónssonar, sem Gissur Þorvaldsson lét taka af lífi 1264, hefur verið kallaður síðasti Oddaverjinn.

Ýmsar greinar ættarinnar voru áberandi í röðum stórbænda og höfðingja eftir lok þjóðveldisins.