Norðurland vestra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þróun mannfjölda á Norðurlandi vestra.
ár mannfjöldi hlutfall af
heildarfjölda
1920 8.636 9,14%
1930 8.000 7,36%
1940 7.665 6,30%
1950 7.340 5,09%
1960 7.561 4,22%
1970 7.748 3,79%
1980 8.628 3,73%
1990 8.631 3,35%
2000 7.873 2,76%
2010 7.394 2,33%
Kort af Íslandi sem sýnir Norðurland vestra litað rautt.

Norðurland vestra er hérað sem nær yfir vesturhluta Norðurlands. Það var upphaflega skilgreint sem eitt af átta kjördæmum Íslands árið 1959 og náði yfir Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu ásamt með kaupstöðunum Sauðárkróki og Siglufirði. Sjá grein um Norðurlandskjördæmi vestra varðandi úrslit alþingiskosninga í kjördæminu. Með breyttri kjördæmaskipan sem fyrst var kosið eftir 2003 var Norðurlandskjördæmi vestra sameinað Vesturlandskjördæmi og Vestfjarðakjördæmi til að mynda Norðvesturkjördæmi.

1992 var Héraðsdómur Norðurlands vestra stofnaður með aðsetur á Sauðárkróki.

Norðurland vestra er eitt af átta héruðum sem Hagstofa Íslands notar við framsetningu á ýmsum talnagögnum, t.d. um íbúafjölda. Árið 2007 minnkaði héraðið þegar Siglufjörður sameinaðist Ólafsfirði. Sameinað sveitarfélag þeirra, Fjallabyggð, telst nú til Norðurlands eystra.

1. desember 2007 bjuggu 7.359 á Norðurlandi vestra, þar af 2.555 á Sauðárkróki. Aðrir stærri bæir eru Blönduós, Hvammstangi og Skagaströnd.