Nímenningarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nímenningarnir (eða mál nímenninganna) er hugtak sem notað er um dómsmál ríkissaksóknara gegn níu manns sem freistuðu þess, ásamt rúmlega 20 öðrum, að komast á palla Alþingis þann 8. desember 2008. Atburðurinn var hluti af mótmælaöldu veturinn 20082009 sem gjarnan hefur verið nefnd Búsáhaldabyltingin. Nímenningarnir voru sýknaðir þann 16. febrúar 2011 í Héraðsdómi Reykjavíkur.[1]

Heimsókn stöðvuð[breyta | breyta frumkóða]

Þingverðir og lögregla meinuðu fólkinu að komast á þingpalla og í þvögunni sem myndaðist urðu einhverjir pústrar sem leiddu meðal annars til þess að einn úr hóp nímenninganna féll aftur fyrir sig á þingvörð, sem varð til þess að sá féll á miðstöðvarofn og hlaut af því áverka.[2]

Tveir mótmælendanna komust upp á áhorfendapalla Alþingis, Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson og óþekkt kona. Áður en hann var dreginn niður náði Snorri að hrópa af pöllunum:

„Þetta hús þjónar ekki tilgangi sínum lengur, drullið ykkur út.“[3]

Í viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins 20. maí 2010 lýstu tvö nímenninganna, Sólveig Anna Jónsdóttir og Snorri Páll, því að ásakanir um að þau hefðu „ráðist á Alþingi“ væru „fráleitar“ og að þau hafi hvorki beitt ofbeldi eða hótað ofbeldi.[4]

Ákærur[breyta | breyta frumkóða]

Níu úr þessum hóp voru síðar ákærð fyrir árás á sjálfræði Alþingis. Í ákæru sem nímenningunum var birt 1. mars segir að fólkið sé ákært fyrir:

„...brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu og húsbrot með því að hafa, þann 8. desember 2008, ásamt hópi óþekktra manna, í heimildarleysi ruðst inn í Alþingishúsið við Austurvöll meðan á þingfundi stóð. ... Með háttsemi sinni rufu ákærðu friðhelgi Alþingis og starfsfrið auk þess sem öryggi Alþingis var hætta búin.“[5]

Nímenningarnir voru ákærðir fyrir brot á 1. mgr. 100. gr., 1. mgr. 106. gr., 107. gr., 1. og 2. mgr. 122. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Hámarksrefsing fyrir „árás á sjálfræði Alþingis“ varðar að lágmarki eins árs fangelsi. 1. málsgrein 100 greinar almennra hegningarlaga segir:

„Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“[6]

Vanhæfi ríkissaksóknara[breyta | breyta frumkóða]

Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari lýsti sig vanhæfan til að fara með málið, eftir að bent var á ættartengls hans við einn brotaþola, sem er mágkona Valtýs. Í framhaldinu var Lára V. Júlíusdóttir hrl sett ríkissaksóknari í máli nímenninganna.

Sögulegt fordæmi[breyta | breyta frumkóða]

Aðeins einu sinni hefur verið ákært undir 100 grein hegningarlaga, í kjölfar óeirða á Austurvelli 1949. Einn þeirra sem þá var ákærður var Jón Múli Árnason, faðir Sólveigar, eins nímenninganna.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sýknuð af ákæru fyrir brot gegn alþingi.
  2. Upptaka úr öryggismyndavél úr Alþingishúsinu sýnd í Kastljósi Sjónvarpsins 20. maí 2010. Sótt 29. september 2010
  3. „attac.is, Ég ákæri ykkur. Ræða Sólveigar Jónsdóttur á Austurvelli 15. maí 2010. Sótt 29. september 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2016. Sótt 1. október 2010.
  4. Upptaka úr öryggismyndavél úr Alþingishúsinu sýnd í Kastljósi Sjónvarpsins 20. maí 2010. Sótt 29. september 2010
  5. „rvk9.org, stuðningssíða nímenninganna. Sótt 29. september 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. febrúar 2011. Sótt 1. október 2010.
  6. Alþingi, Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2005., Almenn hegningarlög 1940 nr. 19 12. febrúar. Sótt 29. september 2010

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]