Messías

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Messías er íslenskun af hebreska orðinu mashiach sem þýðir „smurður“. Í gyðingdómi, var messías (מָשִׁיח "hinn smurði") upphaflega notað um alla sem voru álitnir smurðir (valdir af Guði). Í trúarhefð gyðinga er messías afkomandi Davíðs konungs, hann mun endurreisa ríki Davíðs og skapa frið á jörðu. Þeir sem eru kristnir álíta Jesúm vera þennan messías en því trúa gyðingar ekki. Orðið Kristur (úr grísku Χριστός, Khristos, „hinn smurði“) er bókstafleg þýðing á „mashiach“.

Í Gamla testamentinu er hugtakið „messías“ upphaflega notað um konung Ísraela og æðsta prest. Úr þeim erfiðleikum sem gyðingar lentu í (við fall Norðurríkisins og þrældóminn í Babýlon) skapaðist spá um komandi konung og frelsara. Tími messíasar yrði Guðs ríki. Spádómurinn var ekki bundinn einni persónu heldur nýjum tíma, frelsi úr neyð og fullkomnu réttlæti. Spámenn gyðinga sáu margsinnis fyrir komu messíasar.

Samkvæmt kristinni trú hefur þessi spádómur ræst með Jesú frá Nasaret. Símon Pétur er sá fyrsti samkvæmt Nýja testamentinu sem vottar um að Jesús sé Messías (Markúsarguðspjallið 8:29).

Í íslam er Jesús (Isa) einnig álitinn vera maseeh, eða messías, og endurkomu hans til jarðar er beðið ásamt öðrum messíasi, Mahdi.