Medellínhringurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Medellínhringurinn var skipuleg samtök kólumbískra kókaínsala. Starfsemi hringsins hófst á árunum 1970 – 1980 en þegar hæst hóaði teygði hann anga sína um alla Ameríku að segja má og í smærri stíl til Evrópu. Þungamiðja þessarar athafnasemi var flutningur kókaíns til Bandaríkjanna. Segja má að dauði höfuðpaursins, Pablo Escobars, þann 2. desember 1993, marki endalok þessa glæpaveldis.

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Medellínhringurinn átti rætur sínar í borginni Medellín í Kólumbíu og dregur hann nafn sitt af borginni. Pablo Escobar og Carlos Lehder áttu drýgstan þátt í því að koma samtökunum á laggirnar en ýmsir fleiri lögðu hönd á plóginn. Félagar þessara samtaka skipulögðu framleiðslu, dreifingu og markaðssetningu kókaíns. Þeir fengust líka við aðra ólöglega starfsemi svo sem vopnasmygl en í mun smærri stíl. Foringjarnir urðu brátt vellríkir.

Vöxtur og viðgangur[breyta | breyta frumkóða]

Kókaínbarónar Medellínhringsins voru stórtækari og hugmyndaríkari en samtímamenn þeirra sem stunduðu kókaínsölu. Fram að þessu hafði mest verið notast við svokölluð burðardýr til að flytja kókaín til Bandaríkjanna en Medellínhrigurinn fór að nota flugvélar í þessu skyni. Flugvélar þessar voru litlar og flugu svo lágt að þær sáust ekki á raföldusjá. Vélarnar lentu á hentugum, afskekktum stöðum. Sú aðferð var líka viðhöfð að fleygja kókaíninu úr flugvélum yfir Everglades fenjunum í Florida þar sem prammar voru til taks. Margar flutningaleiðir voru notaðar meðal annars var flogið, siglt eða farið landveg með kókaín til Bahamaeyja, Nicaragua, Panama og fleiri viðkomustaða á leiðinni til áfangastaðar sem langoftast var Bandaríkin. Talið er að á velmektardögum sínum hafi Medellínhringurinn flutt kókaín til Bandaríkjanna fyrir um það bil 60 milljónir dollara á degi hverjum og hafi útvegað allt að 80% af öllu kókaíni sem var í boði í heiminum. Félagar samtakanna áttu víðlenda búgarða í Kólumbíu og þeir höfðu tök á fjölmörgum stjórnmálamönnum. Þeir komu á fót vopnuðum sveitum og hvers kyns ofbeldi varð daglegt brauð.

Straumhvörf[breyta | breyta frumkóða]

Morð dómsmálaráðherra Kólumbíu í apríl 1984 markaði upphafið að endi Medellínhringsins. Ráðherrann, Rodrígo Lara Bonilla, hafði beitt sér gegn kókaínsölu en morð hans ásamt þrýstingi frá stjórn Bandaríkjanna stuðluðu mjög að stefnubreytingu kólumbískra stjórnvalda gagnvart samtökum kókaínsala bæði Medellínmönnum og öðrum. Forseti Kólumbíu, Belisario Betancur, hafði fram til þessa ekkert viljað gera sem styggt gæti kókaínbarónana. Nú kúventi hann. Framsal eiturlyfjasala var boðað og farið var að handtaka þá samkvæmt ákærum útgefnum í Bandaríkjunum. Stjórnvöld Kólumbíu, sem áður voru Medellínhringnum auðsveip, fóru nú að beita sér gegn honum. Escobar og fleiri flúðu til Panama og dvöldust þar um hríð en flestir sneru fljótlega heim til Kólumbíu aftur. Allt fór í bál í brand. Escobar og félagar börðust gegn framsali með öllum tiltækum ráðum og stríðsástand ríkti í sumum héruðum Kólumbíu. Árið 1986 var svo komið að morð var algengasta dánarorsökin í Medellín. Mjög tók nú að halla undan fæti fyrir kólumbísku kókaínsölunum.

Endalok[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1987 var einn af stórlöxum Medellínhringsins, Carlos Lehder, handtekinn og framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann situr nú í fangelsi. Um svipað leyti fór samstaða annarra foringja samtakanna að gliðna og þeir reyndu að bjarga sér sem best þeir gátu af eigin rammleik. Samtökin liðuðust sundur og deildust niður í smærri einingar. Umfang kókaínviðskipta Medellínmanna minnkaði verulega enda ekki heiglum hent að standast atlögur andstæðinganna þar sem bandarísk stjórnvöld létu mjög til sín taka. Netið þrengdist um kókaínsalana og sumir voru handsamaðir eða felldir í skotbardögum. Kólumbísk yfirvöld brugðu á það ráð að bjóða höfuðpaurum kókaínviðskiptanna að afplána dóma í kólumbísku fangelsi ef þeir gæfu sig fram. Sumir þekktust þetta boð, þeirra á meðal Pablo Escobar, sem fór í fangelsi 1991 en flúði árið eftir þegar flytja átti hann í annað fangelsi. Han fór síðan huldu höfði og féll að lokum í skotbardaga í desember 1993. Telja má að sá atburður marki endalok Medellínhringsins.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Montefiore, Simon Sebag. Monsters: History's most evil Men and Women. London: Quercus, 2009.
  • Strong, Simon. Whitewash: Pablo Escobar and the Cocaine Wars. London: Pan Books, 1996.