Margrét af Skotlandi, Noregsdrottning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Margrét af Skotlandi (28. febrúar 12619. apríl 1283) var skosk konungsdóttir og drottning Noregs frá 1281 til dauðadags, fyrri kona Eiríks Magnússonar prestahatara.

Margrét var dóttir Alexanders 3. Skotakonungs og Margrétar af Englandi, dóttur Hinriks 3. Hún kom til Noregs 1281, tvítug að aldri, til að giftast Eiríki konungi, sem var aðeins tólf eða þrettán ára. Eitt helsta markmiðið með hjónabandinu mun hafa verið að bæta samkomulagið milli Norðmanna og Skota, sem hafði lengi verið stirt vegna deilna um Suðureyjar, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar. Margrét sjálf er sögð hafa verið á móti hjónabandinu, svo og margir vinir hennar og ættingjar, en Alexander konungur fékk sínu framgengt.

Ekki er hægt að segja að jafnræði hafi verið með konungshjónunum. Margrét var vel menntuð og háttvís, fullþroskuð kona en Eiríkur ungur stráklingur, ómenntaður, jafnvel illa læs og skrifandi, rustalegur og ósiðaður. Tengdamóðirin, Ingibjörg Eiríksdóttir ekkjudrottning, stýrði syni sínum og hafði engan áhuga á að gefa eftir eitthvað af völdum sínum; samkvæmt skoskum heimildum kom hún í veg fyrir að tengdadóttirin væri krýnd. Sagt er að Margrét hafi reynt að mennta mann sinn, kenna honum ensku og frönsku og leiðbeina honum um borðsiði og klæðnað, en orðið lítið ágengt.

Eiríkur átti hins vegar ekki í neinum vandræðum með að fullkomna hjónabandið þótt ungur væri. Margrét fæddi dóttur snemma í apríl 1283 og dó skömmu eftir fæðinguna. Eiríkur varð því ekkjumaður og faðir á fimmtánda ári. Dóttirin hlaut nafnið Margrét og þegar Alexander móðurbróðir hennar dó óvænt snemma árs 1284 stóð hún næst til erfða eftir afa sinn í Skotlandi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]