Magnús Ólafsson (lögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Magnús Ólafsson (172814. janúar 1800) var íslenskur lögmaður og varalögmaður á 18. öld og síðasti lögmaðurinn sem dó í embætti.

Magnús var sonur Ólafs Gunnlaugssonar (168916. júlí 1784) bónda í Svefneyjum á Breiðafirði og konu hans Ragnhildar Sigurðardóttur (169522. apríl 1768) frá Brjánslæk. Magnús var næstelstur systkina sinna en á meðal þeirra má nefna Eggert Ólafsson, Jón Ólafsson lærða (1731-1811) og Rannveigu konu Björns Halldórssonar prests í Sauðlauksdal. Magnús fór til Kaupmannahafnar til náms og var skráður í Kaupmannahafnarháskóla 1754. Á námsárunum vann hann meðal annars að því með Agli Þórhallasyni að þýða Jónsbók á dönsku.

Magnús var skipaður varalögmaður sunnan og austan með konungsbréfi 10. mars 1769, eftir að fréttist af drukknun Eggerts bróður hans, sem hafði gegnt því embætti skamma hríð. Hann fór þá til Íslands og hafði fyrstu árin aðsetur í Sauðlauksdal hjá systur sinni og Birni mági sínum. Árið 1776 fór hann að Skálholti og tók árið eftir við forstöðu fyrir búum stólsins. Það reyndist honum þó mjög erfitt því að þetta voru hallæris- og fjárkláðaár en hann hélt starfinu þó til 1785, þegar stólseignirnar voru seldar. Þá flutti hann sig að Meðalfelli í Kjós og bjó þar til dauðadags.

Björn Markússon lögmaður dó snemma árs 1791 og tók Magnús þá við lögmannsembættinu sunnan og austan. Benedikt Jónsson Gröndal var skipaður varalögmaður hans seinna sama ár og gegndi stundum lögmannsstörfum fyrir hann en Magnús kom þó til Alþingis hvert ár meðan það var haldið á Þingvöllum. Árið 1799 var þingið haldið í Reykjavík í fyrsta sinn og kom Magnús þá ekki. Hann dó svo um veturinn.

Magnús kvæntist árið 1779 Ragnheiði, dóttur Finns Jónssonar biskups, og áttu þau saman 12 börn en aðeins þrjú komust til fullorðinsára. Sonur þeirra var Finnur Magnússon fræðimaður í Kaupmannahöfn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Björn Markússon
Lögmaður sunnan og austan
(17911800)
Eftirmaður:
Benedikt Jónsson Gröndal