Már Guðmundsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Már Guðmundsson (fæddur 21. júní 1954) er íslenskur hagfræðingur og fyrrverandi seðlabankastjóri Seðlabanka Íslands frá 2009-2019. Hann var áður aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss.

Már er fæddur í Reykjavík og foreldrar hans eru Margrét Tómadóttir (1927-2017) skrifstofumaður hjá Alþýðubandalaginu og Guðmundur Magnússon (1927-1987) verkfræðingur. Maki Más er Elsa S. Þorkelsdóttir lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastýra Jafnréttisráðs og eiga þau þrjú börn.[1]

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Már lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1974 og brautskráðist með BA-gráðu í hagfræði frá Essex-háskóla í Essex á Englandi, en hafði auk þess stundað nám í hagfræði og stærðfræði við Gautarborgarháskóla í Gautaborg í Svíþjóð. Hann lauk M.Phil.-prófi í hagfræði frá Cambridge-háskóla í Cambridge á Englandi og stundaði þar einnig doktorsnám.

Már starfaði við hagfræðideild Seðlabanka Íslands á árunum 1980 til 1987, var forstöðumaður hagfræðisviðs bankans á árunum 1991 til 1994 og aðalhagfræðingur bankans frá 1994 til 2004. Hann var efnahagsráðgjafi Ólafs Ragnars Grímssonar fjármálaráðherra 1988 til 1989.

Már var einn af framámönnum í vinstrisamtökunum Fylking byltingarsinnaðra kommúnista frá miðjum áttunda áratugnum fram til 1984[2] og einnig ritstjóri Neista tímarits samtakanna á árunum 1984 og 1985, en þá var blaðið lagt niður.

Þann 17. júní árið 2021 var Már sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í opinbera þágu.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn J-Ö bls. 590-591, (Reykjavík, 2003)
  2. Fréttaskýring: Seðlabankastjóri með pólitískt nef. Morgunblaðið 21.8.2009
  3. Visir.is, „Fyrrverandi seðlabankastjóri meðal 14 fálkaorðuhafa“ (skoðað 18. júní 2021)