Málmey (Skagafirði)

Hnit: 66°00′50″N 19°32′00″V / 66.01389°N 19.53333°V / 66.01389; -19.53333
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

66°00′50″N 19°32′00″V / 66.01389°N 19.53333°V / 66.01389; -19.53333

Málmey á Skagafirði.

Málmey er eyja á Skagafirði, og skilur Málmeyjarsund á milli hennar og Þórðarhöfða. Hún er 4 km löng og 1 km á breidd en mjókkar til endanna. Hún er fremur láglend, einkum að sunnan, en hækkar því meir, sem norðar dregur og er hæst 156 m. Þar heitir Kaldbakur. Suðurendi hennar er klettastapi sem heitir Kringla.

Eyjan kemur við sögu í Sturlungu því þangað fór Guðmundur Arason biskup með mönnum sínum þegar Tumi Sighvatsson hrakti hann frá Hólum og þaðan fóru svo menn hans til Hóla í janúar 1222 og drápu Tuma. Eyjan var lengst af í byggð, enda ágæt bújörð og örstutt á góð fiskimið. Helsta vandamálið var vatnsleysi en engin uppspretta er ofanjarðar en vatn fékkst úr brunni. Bærinn brann á Þorláksmessu 1950 ofan af 14 manns, þar af 10 börnum, og hefur Málmey verið í eyði síðan.

Sagt er að álög séu á Málmey. Þar má enginn búa lengur en 20 ár. Aldrei má hestur koma þangð, því þá verður húsfreyjan brjáluð, segja sumir, en oftar er þó sagt að hún hverfi og þannig var um húsfreyjuna sem Hálfdan Narfason prestur á Felli reyndi að sækja í Hvanndalabjarg; hún hvarf tuttugustu jólanóttina sem hún bjó í eynni. Mýs þrífast þar ekki, hvað sem til þess kemur, og hestar hafa aldrei mátt vera þar. [1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Lesbók Morgunblaðsins 1948

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]