Lundarbókin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lundarbókin er skinnhandrit (lögbók) í Háskólabókasafninu í Lundi í Svíþjóð, öðru nafni Miðaldahandrit nr. 15 — (Mh 15). Hún hefur að geyma norsk lög og réttarbætur, og Sauðabréfið færeyska. Aftast í bókinni er messudagatal, þar sem skráð er ártíð Erlends biskups, sem dó í Björgvin 13. júní 1308, eftir að hafa verið Færeyjabiskup frá 1269.

Lundarbókin er í stóru broti, tvídálka með fallegri rithendi. Upphasstafir kapítula eru skrautlegir, oft með smámyndum. Bókin er heil að öðru leyti en því að fremsta blað messudagatalsins er glatað, með mánuðunum janúar – apríl. Þetta er með glæsilegustu og best varðveittu lögbókum frá sinni tíð, og telur Stefán Karlsson handritafræðingur mjög líklegt að hún hafi verið ætluð biskupsstólnum í Kirkjubæ, eins og Gustav Storm hélt fram 1885. Færir hann fyrir því ýmis rök.

Lengi var því haldið fram að Árni Sigurðsson (d. 1314), sem var biskup í Björgvin frá 1304, hafi látið gera Lundarbók og að hún hafi verið í bókasafni hans, en Stefán Karlsson telur það ekki geta staðist. Í bókinni er hluti réttarbótar frá 19. júlí 1320, og endar hún í miðri málsgrein. Telur Stefán að handritið hafi verið í vinnslu sumarið 1320, eða 1321, og giskar á að Signar munkur, sem var vígður Færeyjabiskup sumarið 1320, hafi tekið handritið með sér til Færeyja áður en því var að fullu lokið.

Skipta má efni Lundarbókar í þrjá meginhluta:

Fyrsti hluti, blöð 1–44, viðbætur á blöðum 45–51:

Annar hluti, blöð 52–58, viðbætur á blöðum 59–60:

  • Gulaþingsgerð Kristinréttar yngri.

Þriðji hluti, blöð 61–141:

Hugsanlegt er að þriðji hlutinn hafi átt að verða sérstök bók, því að fremsta síðan er auð, eins og oftast í upphafi bókar. Efni bókarinnar hefur sérstök tengsl við Björgvin, og er líklegt að bókin hafi verið skrifuð þar. Hins vegar voru tengsl Færeyinga við Björgvin það náin, að vel hefur hentað að hafa þetta efni í færeyskri lögbók, auk þess sem biskupinn í Kirkjubæ átti sæti í ríkisráði Noregs.

Flestir fræðimenn hafa talið að aðalskrifarinn hafi verið færeyskur, en sumir þó nefnt íslenskan eða norskan skrifara. Stefán Karlsson telur erfitt að skera úr um þjóðernið, en íslenskur hafi hann þó ekki verið. Annar skrifari hefur leiðrétt handritið, og telur Stefán ekkert mæla gegn því að hann hafi verið færeyskur. M.a. notar hann orðið røfil (ræfil) um stert á hrossi, sem kemur heim við færeyska orðið røvil. „Má vera að leiðréttandi Lundarbókar hafi þjóðmerkt bókina með þessu orði“, segir Stefán.

Stefán Karlsson telur líklegt að Lundarbókin hafi verið í Kirkjubæ í Færeyjum fram til siðaskipta. Seinna barst hún til Svíþjóðar og var gefin Háskólabókasafninu í Lundi á 18. öld. Lundarbókin er einnig kölluð Codex Reenhielmianus, eftir sænskum fræðimanni, Jacob Reenhielm, sem um tíma átti bókina.

Lundarbókin – Myndir af Sauðabréfinu[breyta | breyta frumkóða]

Sauðabréfið er á sex síðum í Lundarbókinni. Textinn er þar nokkru fyllri en í Kóngsbókinni (16 greinar í stað 12), og fyrirsögnum bætt við. Sum efnisatriði eru færð til. Færeyski fræðimaðurinn Jakob Jakobsen setti fram þá tilgátu árið 1907, að Erlendur Færeyjabiskup hafi ekki aðeins átt hlut að upphaflegri gerð Sauðabréfsins, heldur einnig þeirri endurskoðuðu gerð sem birtist í Lundarbók.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Fårebrevet“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. maí 2008.
  • Stefán Karlsson: Lítið eitt um Lundarbók. Eivindarmál. Heiðursrit til Eivind Weyhe. Tórshavn 2002, bls. 219–228.