Lumière-bræður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lumière-bræður.

Lumière-bræður voru Auguste Marie Louis Nicolas (19. október 186210. apríl 1954) og Louis Jean (5. október 18646. júní 1948) Lumière. Þeir voru fyrstu kvikmyndagerðarmenn sögunnar.

Þeir fæddust báðir í Besançon í Franche-Comté í Frakklandi en fjölskyldan flutti árið 1870 til Lyon. Faðir þeirra, Antoine Lumière (1840–1911), rak ljósmyndastofu og þeir unnu báðir fyrir hann, Louis sem efnafræðingur og Auguste sem framkvæmdastjóri. Louis hóf að beita þurrplötuaðferð við ljósmyndir sem var mikilvægt skref í átt að kvikmyndatöku.

Þegar faðir þeirra fór á eftirlaun 1892 hófu bræðurnir að gera tilraunir með kvikmyndatöku. Þeir fengu einkaleyfi á fjölda uppfinninga sem tengdust gerð fyrstu kvikmyndatökuvélarinnar, svo sem filmugötum, og síðan kvikmyndavélinni sjálfri 13. febrúar 1895. Fyrsta upptakan var gerð með vélinni 19. mars sama ár og sýnir verkamenn ganga út úr verksmiðju Lumière-bræðra: Sortie des Usines Lumière à Lyon. Þeir sýndu nokkrar örstuttar kvikmyndir þetta ár á Salon Indien du Grand Café í París og fóru árið eftir í heimsreisu með vélina. Þeir gerðu þó lítið með þessa uppfinningu sína, neituðu til að mynda að selja Georges Méliès vélina 1895 og réðu honum frá því að fara út í kvikmyndagerð. Næstu ár þróuðu þeir nýja aðferð við litljósmyndun, Autochrome Lumière, sem kom á markað 1907.

Á millistríðsárunum varð Louis fylgjandi fasismans og báðir bræður studdu Vichy-stjórnina og Philippe Pétain og studdu myndun Frönsku sjálfboðaliðasveitarinnar sem barðist með þýska hernum í Sovétríkjunum.

Fyrirtæki þeirra framleiddi ljósmyndavörur fram á 7. áratug 20. aldar þegar það sameinaðist breska fyrirtækinu Ilford Photo undir merkjum þess síðarnefnda.