Levin og Munksgaard

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Levin og Munksgaard – (eða Levin & Munksgaard) – var bókaforlag sem var stofnað árið 1917 af Einari Munksgaard og Otto Levin, og var það fyrst til húsa á Åboulevarden í Kaupmannahöfn.

Ejnar Munksgaard var driffjöðrin í starfseminni, og eftir að Otto Levin dó (1933) varð Munksgaard einn eigandi forlagsins, sem þó hélt nafninu „Levin & Munksgaard“ til um 1940, að nafnið breyttist í „Ejnar Munksgaard“. Forlagið fluttist á Nørregade í Kaupmannahöfn árið 1925, og haslaði sér þar völl sem vísindalegt forlag og bókaverslun fast við Háskólann og dómkirkjuna. Seinna fluttist útgáfustarfsemin að Nørre Søgade 35.

Ejnar Munksgaard gerði forlagið með tímanum að stórfyrirtæki, sem gaf út fjölda alþjóðlegra tímarita, einkum á sviði læknisfræði og tannlækninga.

Árið 1964 var Munksgaards-forlagið selt enska útgáfurisanum Blackwell Science í Oxford. Eftir 1970 var forlagið með umtalsverða starfsemi í Danmörku, var t.d. kunnur útgefandi námsbóka, og eftir 1980 beindist starfsemin einnig að fræðiritum og fagurbókmenntum. Árið 1999 var sá hluti starfseminnar seldur.

Munksgaard er í dag eingöngu vísindalegt útgáfufyrirtæki, sem gefur út alþjóðleg vísindaleg tímarit, og er hluti af Wiley-útgáfusamsteypunni.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]