La corne de rhinocéros

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

La corne de rhinocéros (íslenska: Horn nashyrningsins) er sjötta Svals og Vals-bókin. Höfundur hennar var Franquin. Sagan birtist í tveimur hlutum í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1952-53 og á bókarformi á frönsku árið 1955. Hún hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Svalur, Valur og Pési. Höggmynd í Charleroi.

Sagan hefst á að Valur fær óþægilegt símtal frá ritstjóra sínum, sem segir honum að nýjasta grein hans hafi verið drepleiðinleg og að blaðið hafi ráðið nýjan stjörnublaðamann. Valur er miður sín og leitar leiða til að sanna sig á ný. Hann grefur upp léttþyrluna úr Baráttunni um arfinn og sannfærir Sval um að sviðsetja innbrot í verslunarmiðstöð með hjálp tækisins, til að afla efnis í grein um slaka öryggisgæslu.

Þegar í verslunina er komið rekast félagarnir á keflaðan öryggisvörð og ökuþórinn Eldibrand úr Baráttunni um arfinn. Hann er særður og á flótta undan þrjótum sem reyndu að ræna teikningum af nýjum sportbíl frá Turbo-fyrirtækinu. Eldibrandur felur þeim sinn hluta teikninganna og segir þeim að hinn hlutinn sé í höndum Ófeigs, eins af yfirmönnum fyrirtækisins. Um leið kemur aðvífandi nýi stjörnublaðamaðurinn og keppinautur Vals, þar reynist vera ung stúlka: Bitla. Þrjótarnir koma aðvífandi en Svalur, Valur og Bitla sleppa eftir æsilegan eltingaleik.

Til að koma teikningunum dýrmætu í hendur Ófeigs (sem einnig kom við sögu í Baráttunni um arfinn) þurfa félagarnir að halda til Norður-Afríku. Þrjótarnir komast að ferðaáætluninni og elta í dulargervi. Svalur og Valur halda inn í myrkviði Afríku, með Bitlu á hælunum. Þeir finna Ófeig særðan eftir árás þrjótanna. Um það leyti sem þrjótarnir búa sig undir að skjóta þau öll kemur dularfullur lögregluforingi, sem áður hafði ráðið þeim Sval og Val heilt, aðvífandi og handtekur þá.

Ófeigur segist hafa komið sínum hluta teikninganna í hendur vinveitts höfðingja svertingjaættbálks. Svalur og Valur halda út á sléttuna og eru teknir höndum af villimönnunum. Viðtökurnar breytast þegar þeir segja á sér deili og höfðinginn segist hróðugur hafa falið teikningarnar í horni eins af nashyrningunum á sléttunni. Við tekur gríðarleg leit af rétta nashyrningnum. Félagarnir finna teikningarnar en hníga út af í sterkri sólinni. Þeir vakna á sjúkrabeði það sem Ófeigur fagnar þeim vel. Í Brussel kemur Eldibrandur færandi hendi með nýjustu útgáfu af nýja Túrbó-bílnum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Lögregluforinginn sem kemur nokkuð við sögu í bókinni er sláandi líkur Maigret, sem var fræg frönsk lögregluhetja í sjónvarpi og kvikmyndum á sjötta áratugnum.
  • Túrbó-bíllinn sem Svalur og Valur fá að gjöf í lok sögunnar átti eftir að fylgja þeim í allnokkrum ævintýrum.
  • Í eltingaleiknum við þrjótana í verslunarmiðstöðinni í upphafi bókarinnar sjást andstæðingar Svals og Vals hlaupa með byssur í hönd. Í fyrstu útgáfum bókarinnar voru skotvopnin máð út af teikningunum, en fengu að njóta sín í seinni útgáfum þegar slaknað hafði á ritskoðuninni í Belgíu.