Lögmannshlíðarkirkja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lögmannshlíðarkirkja

Lögmannshlíðarkirkja var vígð á aðventu árið 1860. Hún tilheyrir Glerárprestakalli (Lögmannshlíðarsókn) í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Lögmannshlíðarkirkja var sóknarkirkja þar til að Glerárkirkja tók við því hlutverki fyrir Lögmannshlíðarsókn árið 2002.

Ágrip af sögu Lögmannshlíðarkirkju[breyta | breyta frumkóða]

Þó svo að Lögmannshlíð hafi aldrei verið eiginlegt prestssetur hefur staðið kirkja þar frá fornu fari. Núverandi kirkja er arftaki torfkirkju sem hafði verið reist 1792. Það var Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni (1796-1882) sem hafði frumkvæði að kirkjubyggingunni, útvegaði efni og réði smið. Yfirsmiður var Jóhann Einarsson frá Syðri-Haga á Árskógsströnd. Endanlegur reikningur vegna kirkjusmíðarinnar sem var gerður 31. ágúst 1866 sýnir að bygging kirkjunnar kostaði 1.157 ríkisdali og 11 skildinga.

Í vísitasíubók Eyjafjarðarprófastsdæmis er að finna lýsingu Daníels prófasts Halldórssonar frá 1862. Þar er kirkjan sögð 15 og 1/2 al að lengd, byggð á fótstykkjum með bindingsverki allt um kring, klædd að utan með slagborðum og alþiljuð að innan með slagborðum. Smíði á húsinu er sögð vönduð og tekið fram að máttarviðir kirkjunnar séu sterkir.

Með nýrri prestakalla- og sóknaskipan árið 1880 varð Lögmannshlíðarsókn hluti af Akureyrarprestakalli og tilheyrði þá ekki lengur Glæsibæjarprestakalli. Árið 1981 var prestakallinu skipt og nýtt prestakall varð til á Akureyri, Glerárprestakall. Lögmannshlíðarsókn og þar með Lögmannshlíðarkirkja tilheyrðu hinu nýja prestakalli. Lögmannshlíðarkirkju er vel við haldið í dag og fara þar fram stöku sinnum kirkjulegar athafnir og helgihald.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]