Kristín Sverrisdóttir af Noregi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristín Sverrisdóttir (d. 1213) var einkadóttir Sverris Noregskonungs og Margrétar konu hans en hálfbræður hennar voru þeir Sigurður lávarður og Hákon Sverrisson harmdauði.

Eftir dauða Sverris konungs fór Margrét drottning til heimkynna sinna í Svíþjóð og ætlaði að taka dóttur sína með en það leist birkibeinum illa á; líklega hafa þeir takið hættu á að andstæðingar þeirra næðu tökum á henni. Þeir fluttu hana því til Hákonar konungs bróður hennar í Björgvin, þvert gegn vilja móðurinnar. Kristín er sögð hafa verið trygg móður sinni og stórlynd eins og hún.

Þegar friður var saminn milli bagla og birkibeina 1208 var meðal annars ákveðið að Kristín skyldi giftast konungsefni bagla, Filippusi Símonarsyni. Hann skyldi jafnframt stýra Upplöndum og hluta af Víkinni en fékk ekki konungsnafn. Samkvæmt Böglunga sögum var Kristín ósátt, hún vildi ekki mann sem hvorki var af konungsætt né mundi hljóta viðurkenningu sem konungur. Þau giftust þó 1209 og kom Margrét móðir hennar til brúðkaupsins en dó nokkrum vikum síðar. Filippus hélt reyndar áfram að kalla sig konung þrátt fyrir samkomulagið og hefur Kristín vafalaust ekki latt hann til þess og sjálfsagt litið á sig sem drottningu.

Sjálf dó Kristín af barnsförum árið 1213 og áttu þau Filippus ekki barn sem lifði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]