Krónborgarhöll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Krúnuborgarhöll)
Krúnuborgarhöll
Krónborgarhöll

Krónborgarhöll eða Krúnuborgarhöll (danska: Kronborg Slot) er höll sem stendur við Eyrarsund 1 km norðan við Helsingjaeyri í Danmörku, þar sem sundið er mjóst milli Helsingjaeyrar og Helsingjaborgar Svíþjóðarmegin. Höllin er ferhyrnd í endurreisnarstíl, byggð á árunum 1574 til 1585.

Friðrik II Danakonungur lét byggja höllina á grunni miðaldavirkisins Króksins sem Eiríkur af Pommern hafði látið reisa á þessum stað til að framfylgja innheimtu Eyrarsundstolls af öllum skipum sem áttu leið um sundið.

Margir ferðamenn líta á höllina sem Elsinore sem er höll konungs í Hamlet eftir William Shakespeare. Shakespeare hefur hugsanlega fengið hugmyndina að nafninu úr sögum enskra sjómanna sem séð höfðu höllina þegar þeir biðu þess að greiða tollinn á Helsingjaeyri.

Árið 2000 var Krúnuborgarhöll tekin á heimsminjaskrá UNESCO.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]