Kornelíus Wulf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kornelíus Wulf eða Cornelius Wulff (d. 1734) var danskur embættismaður sem var landfógeti á Íslandi frá 1717-1727.

Hann var upphaflega skipaður landfógeti til bráðabirgða 1717 og skyldi gegna starfinu á meðan Páll Beyer væri utanlands að ganga frá sínum málum en hann var stórskuldugur við konung. Kom Wulf til Íslands sumarið 1717 og tók við búi á Bessastöðum en þá hafði Beyer „rýrt og ruplað til sín hvað hann gat“ og skilið Bessastaði eftir í svo slæmu ástandi að Wulf þurfti um haustið að fá að láni fisk, smjör og aðrar vistir til vetrarins. Beyer dó á leiðinni til Danmerkur og tók Wulf því formlega við embættinu og tók til við að lagfæra ýmislegt sem farið hafið úrskeiðis í tíð Beyers.

Wulf lagði mikla áherslu á að koma konungsjörðum á Suðurnesjum í gott ástand og lét færa inn í Alþingisbækur 1720 að hann byði „fjáðum og dugandismönnum í öllum héruðum landsins að taka til ábýlis þær, sem þá girnti, og honum þótti ei vel setnar, og lofaði þeim nokkur ár fríun frá manns láni og annarri aðstoð, svo að það lata og óduganlega fólk mætti útrýmast af Gullbringusýslu, sem þaðan hefði safnast.“

Wulf var á fimmtugsaldri þegar hann kom til landsins, ættsmár og félítill en auðgaðist ágætlega þótt hann stundaði hvorki kaupmennsku eins og sumir forverar hans eða kúgaði fé af almenningi. Hann þótti fremur sanngjarn og réttlátur, kröfuharður en forsjáll.

Þeir Wulf og Niels Fuhrmann amtmaður bjuggu saman á Bessastöðum og var samkomulag þeirra stirt. Wulf dróst inn í málið sem spannst af láti Appollóníu Schwartzkopf, unnustu Fuhrmanns, því hún hafði sagt honum að sér væri byrlað eitur, og varð hann eitt helsta vitni ákærandans í málinu. Við það versnaði samkomulag þeirra embættismannanna enn. Sumarið 1727 fór Wulf utan með Stykkishólmsskipi og fékk svo lausn frá embætti en hélt þriðjungi launanna. Hann dó í Kaupmannahöfn 1734.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Appollonia Swartskopf. Sunnudagsblað Alþýðublaðsins, 9. tölublað 1938“.