Kolbeinn ungi Arnórsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kolbeinn Arnórsson (120822. júlí 1245), sem ætíð var kallaður Kolbeinn ungi til aðgreiningar frá Kolbeini Tumasyni föðurbróður sínum, var skagfirskur höfðingi á 13. öld.

Hann var af ætt Ásbirninga, helstu valdaættar í Skagafirði á Sturlungaöld, sonur Arnórs Tumasonar goðorðsmanns á Víðimýri og konu hans, Ásdísar (eða Aldísar) Sigmundardóttur frá Valþjófsstað. Faðir hans lést í Noregi 1221 og varð Kolbeinn því mjög snemma höfðingi ættarinnar. Hann bjó í Ási, á Víðimýri og á Flugumýri.

Kolbeinn deildi við Guðmund Arason biskup eins og föðurbróðir hans og nafni hafði gert. Lét hann hneppa biskupinn í varðhald og sat hann þar uns hann dó 1237. Helstu óvinir Kolbeins voru þó Sturlungar. Eftir að Sturla Sighvatsson hóf valdabrölt sitt gengu þeir Kolbeinn og Gissur Þorvaldsson í bandalag gegn honum og Sighvati föður hans og mættu Sturlungar örlögum sínum í Örlygsstaðabardaga. Eftir bardagann var Kolbeinn allsráðandi norðanlands. En árið 1242 kom Þórður kakali, bróðir Sturlu, til landsins og sýndi brátt leiðtogahæfileika sína; þótt hann væri mjög fáliðaður fyrst í stað tókst Kolbeini ekki að vinna sigur á honum. Þeim laust saman í Flóabardaga 1244 og fór Þórður halloka, enda með meira en helmingi færri menn, en tókst þó að sleppa. Kolbeinn sigldi til Vestfjarða og tók eða eyðilagði öll skip sem hann fann þar. Hann náði þó ekki Þórði og lést sjálfur ári síðar, 22. júlí 1245. Sumarið eftir má segja að veldi Ásbirninga hafi lokið í Haugsnesbardaga. Þar féll foringi þeirra, Brandur Kolbeinsson, frændi Kolbeins unga.

Kolbeinn ungi var fyrst giftur Hallberu, dóttur Snorra Sturlusonar og síðar Helgu, dóttur Sæmundar Jónssonar í Odda. Þeir Gissur Þorvaldsson voru því báðir fyrrverandi tengdasynir Snorra. Kolbeinn var barnlaus.