Kali Yuga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Yuga hringrásin. Samkvæmt almannaki hindúa stendur nútíma siðmenning á Kali Yuga: „öld hnignunar“

Kali Yuga (Devanāgarī: कलियुग, bókstaflega: „öld Kali“, einnig „öld lasta, ódyggða, hnignunar, spillingar“), er síðasta stigið af þeim fjórum sem heimurinn og siðmenning manna gengur í gegnum samkvæmt yuga hringrásinni sem lýst er í Indverskum helgiritum. Önnur stig eða aldir eru Satya Yuga, Treta Yuga og Dvapara Yuga. Samkvæmt stjarnfræðiritinu Surya Siddhanta, sem myndar grunninn af öllum almananökum hindúa og búddista, þá hófst Kali Yuga á miðnætti þann 18. febrúar 3102 f.Kr. Margir hindúar telja þessa dagsetningu einnig vera daginn sem Krishna lést eftir að hafa hlotið banvænt sár eftir örvarodd. Flestar túlkanir á helgiritum hindúismans staðhæfa að heimurinn og mannkynið sé að ganga í gegnum Kali Yuga núna á samtíma okkar. Margir líkt og Swami Sri Yukteswar, David Frawley og Paramhansa Yogananda trúa því aftur á móti að heimurinn sé aðeins að nálgast upphaf Dvapara Yuga. Kali Yuga í hefðbundnum skilningi stendur yfir í 432.000 ár.

Hindúar trúa því að siðmenning manna hnigni á meðan Kali Yuga stendur. Öldin er kölluð „myrka öldin“ eða „járnöldin“ því mannkynið er eins langt frá guðdómnum og það mögulega kemst. Siðferði og réttsýni (Dharma) innan hindúismans er oft sýnt á táknfræðilegan hátt sem tarfur eða naut. Á Satya Yuga, fyrsta stigi eða öld hringrásarinnar hefur nautið fjórar lappir en eftir því sem hvert nýtt yuga gengur í garð dregur úr siðferði og réttsýni, því sverfast fætur nautsins. Á öld Kali, sem á að vera okkar nútíma öld, er réttsýni og siðferðiskennd orðin aðeins fjórðungur af því sem það var á „gullöldinni“ (Satya Yuga), svo dharma-nautið er orðið einfætt.

Kali Yuga er kennd við djöfulinn Kali og varast ber að rugla honum saman við gyðjuna Kālī. Orðið Kali í tengslum við Kali Yuga þýðir „erfiði“, „misklíð“, „ágreiningur“ eða „rifrildi“.

Einkenni Kali Yuga[breyta]

Erindi í Markandeya innan Mahabharata gefur til kynna nokkur einkenni Kali Yuga:

Leiðtogar og þjóðhöfðingjar[breyta]

Þjóðhöfðingjar verða óskynsamir: þeir munu skattleggja ósanngjarnlega og þjóðir verða fjárkúgaðar. Leiðtogar munu ekki lengur álíta það skyldu sína að upphefja andlegan göfga eða verja göfuglyndi: þeir munu verða hættulegir heiminum. Fólksfluttningur milli landa verður yfirdrifin, fólk mun sækjast eftir því að komast til landa í leit að æti og betra lífi þar sem kornmeti og hveiti eru aðal fæðutegundin.

Mannleg samskipti[breyta]

Fégræðgi og heift taka völdin. Menn munu ekki skeyta um hvorn annan á götum úti og nafnleysi einkennir samskipti manna. Dharma (réttsýni) verður hunsað. Tilgangslaust ofbeldi, fólk mun myrða og misþyrma hvoru öðru án neinnar réttlætanlegrar ástæðu og það mun ekki sjá neitt rangt við að gera slíkt. Losti og hórdómur hljóta félagslega viðtekningu, kynferði og kynlíf verða séð sem miðpunkturinn í lífi fólks, sem leiðir að því að börn allt niður í 16 - 13 ára gömul munu verða þunguð og eignast afkvæmi. Syndir munu aukast veldislega á meðan dygðir og heiður hætta að þrífast og að lokum hverfa. Innantóm loforð, fólk mun lofa upp í ermina á sér aðeins til að svíkja loforð sín strax aftur. Fólk mun misnota vímugefandi drykki og efni. Lærimeistarar (kennarar) munu ekki lengur bera virðingu fyrir nemendum sínum né nemendur fyrir lærimeisturum, nemendur munu reyna að valda lærimeisturum sínum tjóni. Andleg leiðsögn mun verða smánuð og áhangendur karma munu taka vald yfir hugum allra manna.

Samfara ofbeldi og dauða verður fátækt áberandi alls staðar. Menn munu eyðileggja náttúru, drepa tré og engin virðing verður borin fyrir dýrum. Kjötát verður mjög áberandi. Menn munu fyrirlíta störf sín og nota hvert tækifæri til að komast undan skyldum sínum.

Veður og náttúra[breyta]

Þegar blóm vaxa innan blóma og ávextir innan ávaxta þá mun Kali Yuga líða undir lok. Úrhelli mun falla úr skýjum óháð árstíðum þegar dregur að endalokum Kali Yuga

Kali Yuga og Ragnarök[breyta]

Margir fræðimenn, líkt Julius Evola líta svo á að samsvörun sé hægt að finna á milli Kali Yuga hindúsimans og Ragnaraka sem Völuspá norrænnar goðafræði segir til um. Orðið „Ragnarök“ í norrænni goðafræði þýðir „örlög guðanna“ og oft skilgreint sem „dauði guðana/guðdómsins“, á öld Kali Yuga á mannkynið að hafa misst öll tengsl við guðdómlegan veruleika. Samkvæmt Mahabharata einkennist öldin af græðgi, ódyggðum, tilgangslausu ofbeldi, svikum og lauslæti og fleira. Svipaðar lýsingar má finna í Völuspá um afdrif mannlegs samfélags eftir að Ragnarök hafa gengið í garð:

Bræður munu berjast
og að bönum verðast,
munu systrungar
sifjum spilla;
hart er í heimi,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir eru klofnir,
vindöld, vargöld,
áður veröld steypist,
mun engi maður
öðrum þyrma.

Heimildir[breyta]