Jens Jörgensen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jens Jörgensen (f. um 1653) var danskur maður sem gegndi störfum landfógeta á Íslandi frá 1695-1702 en var þó ekki eiginlegur landfógeti. Hann var síðar lengi bóndi í Brautarholti á Kjalarnesi.

Hann hafði verið aðstoðarmaður Andrésar Iversen, sem gegndi landfógetastörfum frá 1693. Þegar Iversen dó 1695 var Jens Jörgensen gerður að umboðsmanni eða forpaktara en starfið fólst á þeim árum fyrst og fremst í að hafa umsjón með eignum konungs á Íslandi og veita dönskum kaupmönnum þjónustu.

Árið 1698 giftist hann Soffíu Mauritzdóttur, systurdóttur Lárusar Gottrup lögmanns, og fór brúðkaup þeirra fram á Þingeyrum, þar sem Gottrup bjó. Óvild var á milli Gottrups og Kristjáns Müller amtmanns og er sagt að hún hafi orðið til þess að Jens Jörgensen var sviptur umboðsmennskunni 1702. Hann var þó enn talinn til heimilis á Bessastöðum í manntalinu 1703 en fluttist skömmu síðar að Brautarholti á Kjalarnesi og bjó þar embættislaus eftir það. Hann er sagður hafa verið friðsamur hæglætismaður.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Ásælni konungsvaldsins fyrr á tímum. Lesbók Morgunblaðsins, 15. apríl 1945“.