Jean Charles de Menezes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minnisvarði um Jean Charles de Menzes, við Stockwell neðanjarðarbrautarstöðina.

Jean Charles de Menezes (7. janúar 197822. júlí 2005) var brasilískur rafvirki, upprunalega frá Minas Gerais í Brasilíu en hann bjó í Tulse Hill í Suður-London þegar hann var skotinn til bana af lögreglunni í Stockwell neðanjarðarbrautarstöðinni vegna gruns um að hann væri hryðjuverkamaður á leið að fremja sjálfsmorðsárás í lestinni en þetta gerðist rúmum tveimur vikum eftir að 4 sjálfsvígssprengingar urðu 56 að bana í London þann 7. júlí og degi eftir að tilraunir voru gerðar til álíka árása. Menezes reyndist ekki hafa nein sprengiefni á sér og hafði engin tengsl við hryðjuverkahópa.

Atburðarásin[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er enn fyllilega ljóst hvað gerðist en flest í upprunalegu lýsingu lögregluyfirvalda á atburðarrásinni hefur nú verið afsannað í kjölfar þess að skjölum og ljósmyndum frá innra eftirliti lögreglunar (Independent Police Complaints Commission) var lekið í fjölmiðla 16. ágúst.

Að morgni 22. júlí var lögreglan að fylgjast með íbúðablokk við Scotia Road vegna mögulegra tengsla hússins við árásirnar daginn áður en í bakpokunum sem árásarmönnunum tókst ekki að sprengja fannst meðal annars miði með heimilisfangi þessa húss. Húsið er þriggja hæða og í því eru níu íbúðir með sameiginlegan inngang og bjó Menezes í einni þeirra. Í kringum 9:30 hélt hann af stað til vinnu, lögreglumaður á vettvangi bar ranglega kennsl á hann sem einn af hryðjuverkamönnunum sem leit stóð yfir að en hafði einungis ljósmyndir til að styðjast við og náði ekki að taka upp myndband sem hann gæti sent stjórnstöð lögreglunnar sakir þess að hann var að „létta á sér“ þegar þetta gerðist. Engu að síður barst vopnuðum lögreglumönnum á Stockwell stöðinni „staðfesting“ á því að Menezes væri í raun hinn grunaði hryðjuverkamaður Hussain Osman þegar hann kom á stöðina u.þ.b. hálftíma eftir að hann yfirgaf heimili sitt. Á upptökum öryggismyndavéla sem lýst er í skjölum innra eftirlitisins sem lekið var í fjölmiðla sést að Menezes gekk rólega inn á stöðina, tók sér eintak af ókeypis dagblaði, borgaði fyrir farið í gjaldhliðinu og fór svo niður rúllustigann. Þegar hann kom niður hljóp hann síðasta spölinn að lestinni sem þá var við brautarpallinn og settist í sæti sem sneri að pallinum. Nánast samstundis og hann hljóp af stað barst lögreglumönnum á staðnum hin vitlausa greining á því hver þetta væri og héldu á eftir honum og hrópuðu eitthvað að honum þar sem eitthvað var minnst á lögreglu. Menezes stóð þá upp og gekk á móti þeim en einn lögreglumannannna tók þá utan um hann og ýtti honum aftur í sætið, sá lögreglumaður sagði í vitnisburði sínum að þá hafi hann heyrt byssuskot mjög nálægt vinstra eyra sínu og að hann hefði svo verið dreginn í gólfið. Tveir lögreglumenn skutu Menezes alls 11 skotum af stuttu færi, sjö þeirra lentu í höfði hans, eitt í öxl og þrjú hæfðu ekki.

Margt í þessari atburðarás stangast á við þá útgáfu af sögunni sem haldið var fram af lögreglunni frá því fljótlega eftir að þetta gerðist. Mestu munar um að samkvæmt henni áttu óeinkennisklæddir lögreglumenn að hafa nálgast Menezes fyrir utan stöðina og kynnt sig sem lögreglumenn og að þá hafi hann hlaupið af stað inn og m.a. stokkið yfir gjaldhliðið í leiðinni en nú er talið að maðurinn sem vitni sáu stökkva yfir hliðið hafi sennilega verið einn lögreglumannanna sem veittu Menezes eftirför. Einnig var því haldið fram að hann hafi verið í þykkri vetrarúlpu sem hafði vakið grunsemdir um að hann væri mögulega að fela sprengiefni innanklæða en ljóst er af frásögnum vitna og ljósmyndum að hann var í raun í bláum gallajakka og hafði að auki ekki með sér neina bakpoka eða töskur.

Viðbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Lögregluyfirvöld í London báðust afsökunar á atvikinu daginn eftir að það átti sér stað en réttlættu einnig aðgerðir sínar og sögðu þá stefnu að „skjóta til að drepa“ vera nauðsynlega í vissum tilfellum og að henni hafi verið rétt beitt í þessu tilviki. Aðrir lýstu yfir áhyggjum vegna þessarar stefnu, t.d. Múslimaráð Bretlands. Fjölskylda Menezes neitaði að taka við afsökunarbeiðnum og ítrekaði þá skoðun sína að dauði Menezes væri afleiðing af vanhæfni lögreglunnar og krafðist þess að Sir Ian Blair lögreglustjóri Lundúnalögreglunnar segði af sér. Yfirvöld í Brasilíu fylgdust með málinu og sendu fulltrúa til London til að fylgjast með rannsókninni.