Júlíus Caesar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
„Sesar“ vísar hingað, sjá Sesar (mannsnafn) fyrir karlmannsnafnið.
Brjóstmynd af Caesari

Júlíus Caesar, stundum ritað Júlíus Sesar, 12. eða 13. júlí um 100 f.Kr.[1]15. mars 44 f.Kr.) var rómverskur herforingi, sagnaritari, stjórnmálamaður og síðar einvaldur í Róm.

Yfirlit[breyta]

Gaius Júlíus Caesar var fæddur í Róm um 100 f.Kr. og var myrtur 44 f.Kr. Hann var af júlíönsku ættinni sem var ein tignasta og elsta patríseaættin í Róm til forna. Caesar var upphaflega auknefni manna af júlíönsku ættinni. Síðan hefur nafnbótin Caesar verið höfð um alla Rómarkeisara. Caesar var stjórnmálamaður, herforingi og rithöfundur. Hann var leiðtogi alþýðunnar þrátt fyrir að vera af höfðingjaættum. Caesar klifraði metorðastigann í Róm. Hann varð árið 68 f.Kr. kvestor, árið 62 f.Kr. pretóri og ári seinna landsstjóri á Spáni. Árið 59. f.Kr. var Caesar kjörinn ræðismaður. Caesar fetaði í fórspor Gracchusarbræðra og lét afhenda ríkisjarðir til fátækra og hermanna og lækka tollheimtu í skattlöndum um þriðjung.[2] Til að almenningur gæti fylgst með gerðum öldungaráðsins lét Caesar gefa út blöð sem voru fest á veggi borgarinnar.

Þrístjórnarbandalag[breyta]

Árið 59 f.Kr. myndaði Caesar þrístjórnarbandalag með Pompeiusi og Crassusi þar sem að eðlilegu fulltrúalýðræði var vikið til hliðar og bandalagið varð allsráðandi. Bandalagið var treyst með því að Pompeius giftist Júlíu dóttur Caesars. Andstæðingar þrístjórnarinnar áttu á hættu að missa líf sitt. Crassus var mesti auðjöfur í Rómaborg og lagði hann fram hið pólitíska auðvald til að múta og var hann mjög óvinsæll maður vegna ríkidæmis síns. Crassus fékk skattlandið Sýrland, Pompeius Spán og Caesar varð landsstjóri í Gallíu árið 58 f.Kr. að afloknu ræðismannsári sínu.

Hernám Gallíu[breyta]

Vercingetórix gefst upp fyrir Caesari

Caesar hélt til Gallíu í hernað og lagði hann þar grundvöll að Evrópu. Rómverjar höfðu náð fótfestu í Narbónsku Gallíu og stefndu að því að hafa þar hernaðar- og menningalega bækistöð og skattland sem var nauðsynlegur stökkpallur til frekari útþennslu norður á bóginn og austur fyrir Rín. Caesar gersigraði Gallíu handan Alpa, núverandi Frakkland, á sjö árum 58-52 f.Kr. Tiltölulega auðveldur sigur Caesars yfir Göllum átti sér langan aðdraganda. Gallastríðið var einskonar innbyrðis borgarstyrjöld þar sem tekist var á um samskipti við menningarsvið Miðjarðarhafsins en hluti gallísku þjóðarinnar var þegar orðinn þátttakandi í viðskiptakerfi Miðjarðarhafsins og aðlagaður rómverskri menningu. Því átti Caesar öfluga bandamenn í Gallíu. Gallar voru sundurskiptir í nokkra þjóðahópa og óteljandi smáþjóðir sem vildu halda sjálfstæði sínu.

Þegar Caesar tók við stjórn Gallíu var vaxandi ólga þar vegna ásóknar germannskra þjóða vestur um Rín. Lagði Caesar áherslu á verndarhlutverk sitt fyrir Galla en með því var hann líka að hindra að Gallar og Germanar færu að vinna saman. Borgarsamfélög voru farin að myndast í Gallíu og réðu höfðingjar þar sem voru undir rómverskum áhrifum og kom Caesar sér vel við þá. Þannig söfnuðu höfðingjar liði á hættutímum og út frá borgunum byggði Caesar upp valdakerfi. Þegar Caesar réðst inn í Belgíu fór hann með menn sína norður með Rín og lék grátt germanskar þjóðir til að hræða þá svo að þeir kæmu Belgum ekki til hjálpar. Þegar að kom að Ermasundi í baráttunni við Belga fór hann með flokk yfir til Bretlands og vann sigur yfir Britonum, var það líka gert svo að þeir skiptu sér ekki að því sem var að gerast á meginlandinu. Þegar Caesar hafði náð stuðningi mikils hluta gallísku þjóðarinnar og ákvað hann að kalla saman þjóðþing og koma á fót ríkisstofnun sem gæti framkvæmt pólitískar skipanir hans. En hernaður Caesars og liðs hans hafði verið miskunnarlaus og fjöldi manns tekinn af lífi og aðrir færðir í þrælkun. Því áttu margir harma að hefna og brátt gaus upp uppreisn gegn Rómverjum í Gallíu. Uppreisnarmenn með Vercingetórix, sem var höfðingjasonur, í broddi fylkingar, börðust út í sveitunum og skildu eftir sig sviðna jörð svo að Rómverjar gátu ekki aflað sér vista. En Caesari, með aðstoð germansks riddaraliðs, tókst að bæla uppreisnina niður.

„Talið er að þriðjungi Galla hafi verið útrýmt. Caesar skildi eftir sig blóðuga slóð, hann barði niður þá siðmenningu sem var fyrir á staðnum með því hreinlega að fremja þjóðarmorð og hugsun hans var ekki sú að breiða út latneska menningu, heldur að fullnægja eigin framagirnd.“[3]

Caesar boðaði til friðarfundar með germönsku höfðingjunum, handtók þá og sendi svo hersveitir sínar til að brytja karla, konur og börn í spað. Þessi hryllingur varð til þess að Cató mótmælti í Róm – ekki af mannúðarástæðum, heldur af pólitístkum ástæðum. „Það var á þennan hátt, með ofbeldi og þjóðarmorðum, sem Gallía og keltneski heimurinn voru innlimuð í rómverska menningarheiminn“.

Caesar skrifaði bók um Gallastríðið sem stóð í 7 ár. Þar réttlætir hann gerðir sínar og er bókin varnarit vegna ásakana frá Róm um að hann hafi farið út fyrir verksvið sitt og verið með óþarfa hernað. Hann segir að sóknir hans og innlimun hafi verið varnarstríð til að bæla niður vandamál í landinu. „Bókin er áróðursrit, full af dulbúnu sjálfhóli til að sanna eigið ágæti, göfugmennsku, hógværð, ráðdeild og kænsku.“[4] Í Rómaveldi eftir Will Durant segir „Gallastríð Sesars er ekki einungis varnarrit: Skýrleiki frásagnarinna og hinn fágaði einfaldleiki hefur skipað því á tignarsess í latneskum bókmenntum“.

Þrístjórnarbandalagi slitið[breyta]

Gosbrunnur með styttu af Caesari

Á meðan dvöl Caesars í Gallíu stóð gliðnaði þrístjórnarbandalagið í sundur. Crassus, sem hafði verð skipaður landssjóri í Sýrlandi, vildi ná frama og vinna lönd sem herforingi eins og Caesar og Pompeius. Parþía lá austan við Sýrland og þangað hélt Crassus með her en féll í orrustunni við Carrhae 53. f.Kr.

Pompeius, sem var landsstjóri á Spáni, sat í Róm og hafði snúist á sveif með höfðingjum þar sem lýðssinnar voru farnir að verða uppvöðslusamir. Pompeius studdi öldungaráðið í því að Caesar skyldi leysa upp her sinn er landsstjóratíma hans í Gallíu lyki. Caesar neitaði þessu og árið 49 f.Kr. hélt hann með her sinn í heimildarleysi yfir Rubicon-fljót, sem skilur að Gallíu Císalpínu og Ítalíu. Við þessa ákvörðun sína mælti Caesar hin fleygu orð: „teningunum er kastað“ [ālea iacta est] og átti við að nú skyldi hann gera upp við Pompeius. Caesar hélt til Rómar með her sinn en Pompeius hörfaði til Balkanskaga þar sem hann kom sér upp herliði. 48. f.Kr. Hélt Caesar á eftir honum og háðu þeir orrustu við Farsalos á Grikklandi og hafði Caesar sigur. Pompeius flúði til Egyptalands þar sem hann var veginn af mönnum faraós þegar hann gekk þar á land; það gerðu þeir til að reyna að tryggja sér stuðning Caesars.

Egyptland[breyta]

Caesar sigldi til Alexandríu á eftir Pompeiusi. Þar reyndi hann að miðla málum systkinanna Ptólemajosar og Kleópötru sem gerðu bæði tilkall til krúnunar. Caesar kom Ptólemajosi konungnum frá og setti Kleópötru í hásætið. Kleópatra og Caesar eignuðust sonin Ptólemajos Caesar og gekk hann undir heitinu Caesaríon (Litli Caesar). Caesar sneri aftur til Rómar ásamt Kleópötru og Litla Caesari eftir að hafa sigrað í orrustu í Litlu Asíu þar sem hann „kom, sá og sigraði“. Þegar að Caesar hafði sigrað alla stuðningsmenn Pompeiusar efndi hann til sigurgöngu um Róm og kom Kleópatra opinberlega fram við hlið hans. Caesar var giftur Calpúrníu og bjó með henni í Róm en hann var líka í sambandi við Kleópötru sem bjó í einkahöll handan Tíberfljóts. Kleópatra vildi að Caesar stofnaði konungsveldi Rómar og settist að í Alexandríu þar sem að hún yrði drottning.

Einvaldur[breyta]

Árið 46 f.Kr. hafði Caesar náð öllu Rómveldi á sitt vald og lét hann öldungaráði gefa sér alræðisvald til 10 ára. Tveimur árum síðar tók hann sér alræðisvald til æviloka sem urðu í mars sama ár. Caesar var snjall stjórnmálamaður og kom á ýmsum umbótum í stjórnkerfinu. Hann fjölgaði í öldungaráðinu upp í 900 og tilnefndi nýja öldunga sem voru honum hliðhollir úr ýmsum þjófélagshópum og úr ýmsum skattlöndum. Hann lækkaði skatta í skattlöndum, skipti löndum milli hermanna sinna og fátækra. Hann reyndi að stemma stigu við þrælahaldi með lögum. Hann sendi tugi þúsunda fátækra borgara í Róm, sem landnema til nýlendna sinna. Hinum fátæklingunum veitti hann vinnu við byggingaframkvæmdir. Hann tók upp tímatal með egypsku sniði sem var nefnt, júlíanska tímatalið og er dagatalið þar með fellt að gangi sólarinnar í stað tunglsins. 365 dagar eru í árinu og hlaupársdagur fjórða hvert ár. Hann tryggði gengi gjaldmiðils með því að slá mynt úr gulli og setti reglur um vexti og gjaldþrot. Hann kom á skipulagi og stjórn í Rómaveldi.

Fyrirsát og víg Caesars[breyta]

Nokkrir fyrrum félagar Caesars óttuðust að hann ætlaði sér að afnema lýðveldið og skipa sjálfan sig konung. Þeir lögðu því á ráðin með að ryðja honum úr vegi áður en að það yrði um seinan. Í mars 44 f.Kr., þegar Caesar var á leið inn í öldungaráðið, var honum veitt fyrirsát og hann stunginn til bana. Á meðal samsærismanna var Brútus sonur hjákonu Caesars. Sagan segir að þegar Caesar sá Brútus meðal samsærismanna hafi hann mælt á forngrísku „και συ τεκνον?“, sem útleggst á íslensku „einnig þú, barn?“.[5] en samkvæmt öðrum heimildum féll hann án þess að mæla orð.[6] Shakespeare leggur Caesari í munn lokaorðin ódauðlegu „Et tu, Brute?“, sem er latína og þýða má „þú líka, Brútus?“.

Tilvísanir[breyta]

 1. Í flestum sögu- og handbókum er fæðingarár Caesars sagt vera 100 f.Kr. en sumir fornfræðingar hafa leitt líkur að því að hann hafi verið fæddur árið 101 f.Kr. eða 102 f.Kr. Sjá Ward, Heichelheim og Yeo (2003): 189, nmgr. 2.
 2. Durant, Rómaveldi bls. 204.
 3. Rómarvefurinn.
 4. Veraldarsaga Fjölva bls: 149.
 5. Súetóníus, Divus Julius LXXXII.
 6. Plútarkos, Caesar 66.6-7.

Heimildir[breyta]

 • Durant, Will, Rómaveldi, fyrra bindi (Reykjavík: Mál og menning, 1993).
 • Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríðar Harðardóttir (ritstj.), Íslenska alfræðiorðabókin þriðja bindi. (Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1990).
 • Sigurður Ragnarsson, Heimsbyggðin, saga mannkyns frá öndverðu til nútíðar (Reykjavík: Mál og menning, 1995).
 • Þorsteinn Thorarensen, Veraldarsaga Fjölva, saga mannkyns frá steinöld til geimaldar, sjötta bindi. (Reykjavík: Fjölvaútgáfan, 1979).
 • Ward, Allen M., Fritz M. Heichelheim og Cedric A. Yeo, A History of the Roman People 4. útg. (Upper Saddle River, NJ: Prentice Hall, 2003).

Tengt efni[breyta]

Tenglar[breyta]

Einkennismerki Wikitilvitnunar
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni