Jón Tófason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jón Henriksson)

Jón Tófason eða Jón Henriksson var biskup á Hólum 14111423, eða í 12 ár.

Lítið er vitað um uppruna Jóns Tófasonar, t.d. ber heimildum ekki saman um föðurnafn hans og hvort hann var danskur eða sænskur. Hann var skipaður Hólabiskup 1411 af Jóhannesi 23. páfa, sem er ekki viðurkenndur lögmætur páfi. Árni Ólafsson Skálholtsbiskup gegndi lengstum biskupsembætti á Hólum í umboði Jóns biskups, sem dvaldist um tíma hjá Eiríki af Pommern Danakonungi. Jón Tófason kom fyrst til Íslands 1419, kom hann með Íslandsfari frá Björgvin með Hannesi Pálssyni hirðstjóra og mörgum öðrum dönskum mönnum. Meðal þeirra voru danskir og norskir prestar sem hann gaf forræði á kirkjustöðum. Jón er talinn hafa stutt vald konungs gegn Englendingum, sem þá voru að seilast til áhrifa hér. Hinum erlendu biskupum (páfabiskupum), sem oft voru langdvölum erlendis, reyndist mörgum erfitt að fá innlenda presta og leikmenn til að lúta boðum sem þeir töldu sér í óhag, sem leiddi til óstjórnar í kristnihaldi og fjármálum. Jón Tófason dó 1423.

Árið 1425 tilnefndi páfi eftirmann Jóns Tófasonar. Sá maður hét Trud og var af förumunkareglu. Um hann er nánast ekkert vitað. Hann kom ekki til Íslands og hefur e.t.v. andast skömmu eftir tilnefninguna. Er hann því ekki talinn meðal Hólabiskupa.




Fyrirrennari:
Pétur Nikulásson
Hólabiskup
(14111423)
Eftirmaður:
Jón Vilhjálmsson Craxton



Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands V.