Jóhannesarjurt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jóhannesarjurt

Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
(óraðað) Malpighiales
Ættbálkur: Rósabálkur (Rosales)
Ætt: Hypericaceae
Ættkvísl: Hypericum
Tegund:
H. perforatum

Tvínefni
Hypericum perforatum
L.

Jóhannesarjurt er fjölær jurt af ættkvíslinni Hypericum. Jurtin blómstrar í kringum hátíð Jóhannesar skírara og er nafn plöntunnar dregið af því. Latneska heiti jurtarinnar er Hypericum perforatum, en Hypericum er komið frá grísku orðunum hyper, sem þýðir „fyrir ofan“, og eikon, sem þýðir „mynd“. Perforatum vísar til smárra olíukirtla á laufum plöntunnar, ef krónublaðið er kramið kemur dökkrauð olía úr þessum kirtlum.

Jóhannesarjurt vex villt víða um heim, þar með talið í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku en hún vex best í ljósum, heitum og sendnum jarðvegi. Jurtin hefur verið notuð í læknisfræðilegum tilgangi allt frá miðöldum við ýmsum kvillum en í dag er hún helst notuð við vægu þunglyndi.

Mikilvægt er að hafa í huga að þó að jóhannesarjurt sé náttúrulyf getur það milliverkað við önnur lyf og náttúruvörur. Ávallt skal ráðfæra sig við lækni eða annan heilbrigðisstarfsmann áður en byrjað er að nota jóhannesarjurt.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Jóhannesarjurt er jurt af ættkvíslinni Hypericum, hún þekkist einnig á Íslandi sem jónsmessurunni og doppugullrunni. Latneska heiti hennar er Hypericum perforatum. Jurtin hefur mikið verið notuð í meðferð í fjölmörgum hjátrúum og við taugaröskunum. Þeir hlutar plöntunnar sem eru notaðir í náttúru- og jurtalyf eru blómin og blöðin, blöðin eru þó notuð í minna mæli.[1]

Jóhannesarjurt er ein af elstu og best rannsökuðu lyfjajurtunum og á hún sér langa sögu um notkun í meðferð geðrænna vandamála. Hypericum kemur frá grísku orðunum hyper (fyrir ofan) og eikon (mynd) sem gefur til kynna notkun hennar á miðöldunum en þá var hún látin hanga fyrir ofan myndir af guðum til þess að halda eigandanum frá illum öflum. Nafnið á tegundinni, perforatum, vísar til smárra olíukirtla sem finnast á laufum plöntunnar sem sjást þegar laufunum er haldið að sólinni. Ef gult krónublaðið er kramið kemur dökkrauð olía úr þessum kirtlum. Enska og íslenska heiti hennar er svo dregið af því að jurtin blómstrar í kringum hátíð Jóhannesar skírara. Í kringum 1800 var jóhannesarjurt skilgreind sem meðferð við taugakvilla og hefur hún einnig verið notuð við þunglyndi en þegar þróun þunglyndislyfja fór af stað byrjuðu þýskir vísindamenn að leita að svipuðum eiginleikum í jóhannesarjurt. [2][3]

Miðað við langa sögu eru mörg mismunandi preparöt notuð. Gæði hráefnanna í plöntunni er grundvallaratriði þess að preparat innihaldi mikil og stöðug gæði. Utanaðkomandi áhrif, svo sem loftslag, aðstæður og tímasetning uppskeru og þurrkunar, leiða til mismunandi gæða hráefnisins. Af þeirri ástæðu blanda framleiðendur yfirleitt plöntuefnum saman frá góðum og slæmum uppsprettum, frá mismunandi stöðum og árum. Meirihluti preparatanna sem notuð eru við þunglyndi eru þurrkaðir útdrættir sem hafa gengist undir flókið og mjög háþróað undirbúningsferli. Þurrkað plöntuefni er frekar unnið í olíur, fljótandi útdrætti eða te.[2] [3] Talað er um jóhannesarjurt í mónógrafíu German Commission E og í mörgum lyfjaskrám í sambandi við verkun þess gegn þunglyndi og veiruhamlandi eignleikum í mönnum. [4]

Gæðalýsingu er að finna í evrópsku lyfjaskránni (Ph. Eur.) og mónógrafíur er að finna hjá evrópsku lyfjamálastofnuninni (EMA).

Grasafræði[breyta | breyta frumkóða]

Jóhannesarjurt er fjölær jurt með mörgum greinum og gulum blómum. Hún vex villt víða um heim, um mest alla Evrópu, Asíu, og Norður Ameríku. Gróðursetningartíminn er snemma vors þegar öll hætta á frosti er yfirstaðin. Best er að byrja á því að setja hana niður innandyra í heitu umhverfi með sól og setja hana svo aftur niður seint um vorið. Umpottun á sér stað þegar plönturnar eru um 5cm. Passa verður að hafa um 30cm á milli plantnanna þegar þær eru settar niður vegna þess að rætur þeirra breiða mikið úr sér. Það getur tekið fræin allt að þrjá mánuði að spíra. Hæð plöntunnar getur verið frá 1 feti (um 30,5cm) upp í 3 fet (um 91,5cm). [1]

Jurtin vex best í ljósum, heitum og sönduðum jarðvegi. Blóm plöntunnar geta vaxið ef jurtin er að hluta til í skugga en betra er fyrir blómin að vera í einhverri sól. Blómin blómstra seint í júlí og ágúst annað árið eftir fyrstu gróðursetningu. Uppskeran er þegar blómin eru í fullum blóma og þá er ⅓ af efri hluta plöntunnar skorinn. [3][1]

Ábendingar og notkun[breyta | breyta frumkóða]

Jóhannesarjurt hefur verið notuð í læknisfræðilegum tilgangi allt frá miðöldum, en þá var plantan helst notuð vegna bólgueyðandi og græðandi eiginleika hennar. Jóhannesarjurt var einnig þekkt fyrir þvagræsandi eiginleika og sáragræðslu ásamt því að hafa áhrif á taugatengda verki eins og bakverki. Árið 1633 var plantan skráð sem smyrsli fyrir bruna og á þeim tíma var olían úr plöntunni einnig vinsæl. Rauðleitur ólívuolíu útdráttur sem búinn var til úr ferskum blómum plöntunnar var tekinn inn notaður til að meðhöndla kvíða og einnig borinn á útvortis sem bólgueyðandi, útvortis notkun var einnig talin vera mjög gagnleg við gyllinæð. Jóhannesarjurt féll í vannot en áhugi manna á plöntunni jókst síðar meir og er plantan nú í dag frumþáttur í fjölda preparata til meðhöndlunar á kvíða og þunglyndi.[5]

Alþýðunotkun[breyta | breyta frumkóða]

Alþýðunotkun (hefð fyrir notkun) jóhannesarjurtar er sú notkun sem fólk hefur notað plöntuna frá upphafi. Jóhannesarjurt hefur verið notuð til inntöku við eftirfarandi kvillum út frá hefð: Þunglyndi, vægt þunglyndi/depurð, kvíði, hjartsláttarónot, geðsveiflur tengdar tíðahvörfum, ofvirkni og athyglisbrest (ADHD), áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD), skammdegisþunglyndi (SAD), vöðvaverkir, settaugabólga, svefnleysi, skjallblettir, lifrarbólgu C, þvagræsandi, meltingartruflanir, þreyta, til að hætta að reykja, vefjagigt/vöðvagigt, einkenni tíðarhvarfa, síþreyta (CFS), höfuðverkur, mígreni, taugapína, lystarleysi, krabbamein, HIV/alnæmi, þyngdartap, iðrabólga (IBS).

Fólk hefur notað plöntuna útvortis, sem olíukenndar efnablöndur til að meðhöndla: Marbletti, skordýrabit, bólgu, gyllinæð, taugapínu, vöðvaverki, 1.gráðu bruna, sáragræðslu og skjallbletti.

Einnig eru seyði gerð úr jóhannesarjurt sem innihalda ekki hypericin og hafa þau verið notuð við gerð áfengis.[6]

Hefðbundin notkun[breyta | breyta frumkóða]

Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hefur gefið út mónógrafíu um jóhannesarjurt. Þar koma fram ábendingar, þegar plantan var skráð hér á landi, bæði út frá hefðbundinni notkun jurtarinnar og ábendingar sem byggðar eru á vísindalegum grunni. Þegar efni hefur verið notað í 30 ár eða meira, við ákveðinni ábendingu, getur það fengið skráningu sem náttúrulyf byggt á hefð.

  • Draga úr tímabundinni andlegri þreytu
  • Minniháttar bólgur í húð (t.d. sólbruni)
  • Sáragræðsla[6]

Notkun byggð á vísindalegum grunni[breyta | breyta frumkóða]

  • Væg þunglyndisköst[6]

Markaðssetning[breyta | breyta frumkóða]

Jóhannesarjurt kom á markað á Íslandi undir nafninu Modigen® í október árið 2000 og var til hér á landi um nokkurt skeið. Modigen er náttúrulyf og er til í hylkjum sem inniheldur 300mg af virka innihaldsefninu, staðlað innihald er 900mcg hypericin. Modigen hefur nú verið afskráð hér á landi en það er vegna þess að ekki hefur verið sótt um endurskráningu þegar leyfið rann út, það getur verið vegna þess að jóhannesarjurt milliverkar við fjölda lyfja og því nauðsynlegt að leita sér ráðgjafar hjá fagaðila áður en byrjað er á náttúrulyfinu. Jóhannesarjurt milliverkar einnig mikið við önnur lyf, t.d. eykur það virkni blóðþynnandi lyfja og dregur úr virkni getnaðarvarnartölfunnar.[7][8]

Innihaldsefni[breyta | breyta frumkóða]

Hypericin
Hyperforin

Innihaldsefni jóhannesarjurtar safnast aðallega saman í blómi plöntunnar. Yfir 150 innihaldsefni hafa fundist í plöntunni en þeim hefur verið skipt niður í nokkra flokka. Þeir efnaflokkar sem taldir eru hafa mesta virkni í jóhannesarjurt eru naptódíantrónar, flavonóíðar og flóróglúkínólar. Bygging 30-50% efnanna hefur ekki verið skilgreind en talið er að sum þeirra stuðli að klínískum áhrifum.[2][9]

Eftirfarandi efnaflokka og efni má finna í jóhannesarjurt:

  • Naptódíantrónar: hypericin, pseudohypericin, isohypericin, protohypericin, protopseudohypericin
  • Flavonóíðar: t.d. hyperosíð, isoquercitrin, quercitrin, rútín
  • Flóróglúkínólar: t.d. hyperfórin, adhyperfórin
  • Fenóliksýra: t.d. ferulik sýra, p-kúmarín sýra, caffeic sýra
  • Rokfimar olíur: t.d. 2-metýloktan, nonan, 2-metýldekan

Auk þessara flokka má finna tannín, xantón, mettaðar fitusýrur, vítamín og fleira í plöntunni.[10][2]

Naptódíantrónar finnast í jóhannesarjurt í minni styrk en 0,1-0,15%. Antrakínón afleiður hypericins og pseudohypericins eru best þekktu hlutar plöntunnar. Ísóhypericin og protohypericin eru einnig til staðar. Magn hypericins í plöntunum er mismunandi eftir því hvar plantan vex og styrkur hypericins er háð plöntuhluta. Mesta magn hypericins má finna í blóminu, blómhnappinum, efstu laufunum og efri hluta stilksins. Hypericin er talið valda ljósnæmi sem er ein af aukaverkunum jóhannesarjurtar. [10][5][11]

Styrkur flavonóíða í jóhannesarjurt er undir 12% í blóminu og um það bil 7% í laufum og stilkum. Flavonóíðar innihalda meðal annars hyperosíða, rutin, kaempferol, quercetin og quercitrin svo eitthvað sé nefnt.[5]

Hyperforin og adhyperforin, sem tilheyra flokki flóróglúkínóla, finnast í plöntunni í styrknum 2-4%. Hyperforin er óstöðugt og getur orðið fyrir niðurbroti af völdum oxunar en í plöntunni er hyperforin verndað með andoxunareiginleikum flavonóíðanna.[5]

Hypericin og hyperforin eru tvö helstu virku efni jóhannesarjurtar. Hyperforin er talið vera mikilvægara í virkninni gegn þunglyndi heldur en hypericin. Droginn og alkahól útdráttur hans inniheldur um það bil 10 sinnum meira af hyperforin (2-4%) heldur en hypericin. Styrkur hypericins og pseudohypericins í droga fer eftir þroskastigi plöntunnar og getur hann verið milli 0,03-0,3%.[2][9]

Talið er að samlegðaráhrif gætu verið til staðar þar sem að hypericin var í upphafi talið vera mikilvægara í virkninni gegn þunglyndi heldur en hyperforin. Síðar hafa komið upp hugmyndir um að hyperforin væri virkara ásamt því að efnin væru jafn virk. Því virðist sem bæði efnin þurfi að vera til staðar til að fá fram verkunina. Flavonóíðarnir virðast einnig virka gegn þunglyndi en staðfest er að þeir virka með því að auka lyfjafræðilega eiginleika annarra innihaldsefna eins og hypericíns.[11][2]

Verkun[breyta | breyta frumkóða]

Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á jóhannesarjurt eru til þess gerðar að rannsaka virkni hennar gegn þunglyndi.

Klínískar rannsóknir hafa sýnt að jóhannesarjurt reynist vel við meðhöndlun á slæmu lundafari og svefnleysi en jurtin hefur margvísleg áhrif á miðtaugakerfið. Plantan getur því mögulega haft svipaða virkni og algeng þunglyndislyf. Þegar jóhannesarjurt hefur verið blandað saman við önnur náttúrulyf hefur sýnt sig í klíníkskum rannsóknum að það hjálpi við ýmsum geðrænum sjúkdómum eins og þunglyndi, kvíða og svefnleysi[12]

Virkni jóhannesarjurtar gegn þunglyndi var talin stafa af hyperforini, hypericini og pseudohypericini og nokkurra flavanóíða. Hlutverk og virkni þessara mismunandi efna er enn ekki þekkt að fullu.[13]

Mörg þunglyndislyf hindra endurupptöku mónóamína (noradrenalín, serótónín og dópamín) úr taugamótum í taugafrumu. Þessi lyf flokkast sem MAO hemlar, sértækir noradrenalín endurupptökuhemlar (NSRI) og sértækir serótónín endurupptökuhemlar (SSRI). In vitro rannsóknir gefa til kynna að aðal ástæða fyrir virkni Hypericum útdrátta við þunglyndi sé hindrun á MAO ensíminu. Þó að nokkrar rannsóknir hafi sýnt fram á að það finnist MAO hemlar í útdrætti jóhannesarjurtar þá er styrkur þeirra of lágur til að geta skýrt klíníska verkun jurtarinnar gegn geðdeyfð. Góðar upplýsingar hafa fengist úr in vitro rannsóknum um að Hypericum útdrættir, og þá sérstaklega hyperforín og adhyperforín, séu öflugir ósértækir hindrar á endurupptöku serótóníns, noradrenalíns og dópamíns úr taugamótum. Útdrættir sem innihalda ekki hyperforín geta líka hindrað endurupptökuna í litlu til meðal miklu magni og gæti það verið vegna fáliðuðu prócýanídanna. In vivo rannsóknir hafa sýnt fram á að Hypericum útdrættir leiði til fækkunar á beta adrenergum viðtökum og fjölgunar á serótónín viðtökum. Hypericum útdrættir hafa einnig sýnt fram á virkni í týpískum dýramódelum sem notuð eru til að kanna áhrif þunglyndislyfja.[2] Í langan tíma var haldið að hypericin væri aðal efnið í jóhannesarjurt sem virkaði gegn þunglyndi en nú er vitað að það hefur aðeins litla verkun gegn þunglyndi sem MAO hemill eitt og sér vegna þess að aðgengi þess er mjög lélegt. Ef hypercin var gefið með pólýfenól epicatechini, procýanídíni, hyperosíði eða rutíni, sem oftast finnst í útdrætti af jóhannesarjurt, jókst styrkur hypericins í plasma greinilega og fram komu mikil áhrif gegn þunglyndi í sundprófi sem gert var á músum.[14]

Jóhannesarjurt virðist einnig virka sem serótónín 5-HT3 og 5-HT4 viðtaka antagónisti og fækka beta adrenergum og serótónín 5-HT1 og 5-HT2 viðtökum þegar hún er notuð að staðaldri í dýrum. Þessi áhrif á taugaboðefnin virðast valda skammtaháðri kortisól örvun. Hyperforin hindrar einnig upptöku GABA og L-glútamats í taugamótum. Áhrif jóhannesarjurtar á serótónín kann að vera aðal ástæðan fyrir virkni gegn þunglyndi. Mörg innihaldsefni jóhannesarjurtar virðast þó hafa virkni gegn þunglyndi. Hypericin hindrar katekól-O-metýl transferasa (COMT) og mónóamín oxídasa (MAO) in vitro. Hins vegar nær hypericin ekki fullnægjandi styrk í vefjum manna til þess að ná fram þessum áhrifum. Hypericin hefur einnig sækni í sigma viðtaka og virkar eins og antagónisti á viðtaka adenósíns, bensódíazepína, GABA-2, GABA-B og inostiol trífosfats. Forklínískar rannsóknir hafa bent til þess að 50% etanól útdráttur af jóhannesarjurt gæti haft kvíðastillandi verkun. [6] Langtímarannsóknir á notkun jóhannesarjurtar hafa sýnt fram á að jurtin er nokkuð örugg. Helst hefur verið kvartað yfir meltingarónotum og húðútbrotum við notkun hennar.[15]

Eðlisefnafræðilegir eiginleikar plöntunnar valda óstöðugleika í vatni sem hugsanlega leiðir til lélegs aðgengis. Margar aðferðir hafa verið reyndar til þess að auka leysanleika ýmissa plöntuútdrátta, til dæmis kúrkúmíns, í vatni og má þar nefna fleytingar, koma efnunum fyrir í cýklódextríni og búa til fleytu með efnum á föstu formi. Áhrif formúleringar á eðlisefnafræðilega eiginleika, lyfjahvörf og verkun jóhannesarjurtar við sársauka hafa ekki verið skýrðar.[4]

Skammtastærðir[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 voru 40 preparöt af Hypericum vörum, á lista sem meðferð gegn þunglyndi í Þýskalandi og voru flest preparötin þurrkaðir útdrættir sem voru fáanlegir í hylkjum eða töflum. Dagskammtur útdráttanna var á breiðu bili, eða 80-1700mg, en í flestum tilfellum var skammturinn á milli 500 og 1200mg. Etanól (50-80%) var notað í útdráttinn í flestum tilfellunum og metanól í minnihluta.[2]

Dæmigerður skammtur af jóhannesarjurt er 300mg þrisvar á dag ef útdrátturinn er staðlaður í að innihalda 0,3% hypericin. Sumar vörur eru staðlaðar að hyperforin innihaldinu, þá yfirleitt 2-3%, og eru sömu skammtar fyrir þá útdrætti og þann sem er staðlaður að 0,3% hypericin. Tvær rannsóknir hafa sýnt fram á ávinning þegar þetta er tekið í einum 900mg skammti á dag. Enn annað tilbrigði af jóhannesarjurt hefur sýnt fram á árangur í tvíblindum rannsóknum, en það inniheldur lítið hyperforin og er gefið í 250mg skömmtum tvisvar á dag. Vísbendingar benda til þess að minni líkur séu á að þetta tilbrigði milliverki við önnur lyf. Ef jurtin fer illa í magann er gott að taka hana með mat og gott er að hafa í huga að það getur tekið 4 vikur að fá fram fullum áhrifum.[3]

Aukaverkanir, milliverkanir og frábendingar[breyta | breyta frumkóða]

Aukaverkanir[breyta | breyta frumkóða]

Margar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á alvarlegar aukaverkanir og í yfirlitsgrein um klínískar rannsóknir var jóhannesarjurt tengd við færri og mildari aukaverkanir miðað við hefðbundin þunglyndislyf. Algengustu aukaverkanirnar í klínískum rannsóknum voru tengdar meltingarveginum (t.d. munnþurrkur, ógleði og breytingar á hægðum), kláði, ljósnæmi, þreyta, svimi, taugaspenningur, svefnleysi og höfuðverkur. Manía hefur einnig komið fram í einstaklingum sem notað hafa jóhannesarjurt.[6]

Milliverkanir[breyta | breyta frumkóða]

Notkun jurtalyfja er mög algeng og hefur aukning verið í sölu á milli ára. Ástæðan fyrir þessari miklu notkun er sú að einstaklingar halda að þar sem þetta er náttúrulegt þá eru öll jurtalyf örugg. Hins vegar geta jurtalyf valdið verulegum aukaverkunum og milliverkunum við lyf. [16]

Vitað er að jóhannesarjurt milliverki við ákveðin lyf og veldur því að virkni lyfjanna minnkar, séu þau tekin samhliða jóhannesarjurt. Dæmi um þessi lyf eru:

  • Ónæmisbælandi lyf: t.d ciclósporín, takrólímus
  • Hormónar: t.d. getnaðarvarnarhormónar, o.fl.
  • Krabbameinslyf: t.d. írinótekan
  • Uppsöluhemjandi lyf: t.d. aprepitant
  • Blóðþynningarlyf: t.d. warfarín, o.fl
  • Hjartalyf: t.d. dígoxín
  • Veiruhemjandi lyf: t.d. indínavír, o.fl
  • Astmalyf: t.d. teófyllín

Jóhannesarjurt getur milliverkað við lyf og haft þannig áhrif á styrk þeirra í blóði. Milliverkunin felur í sér að jóhannesarjurt getur örvað virkni CYP3A4 og P-glýkópróteins sem tekur þátt í umbroti og dreifingu margra lyfja. Gurley o.fl. sýndu fram á verulegan mun á millverkun jóhannesarjurtar við CYP3A4 milli kynja og var hún meiri hjá körlum en konum. [17]

Mikilvægar, og í sumum tilfellum lífshættulegar, milliverkanir hafa komið fram við notkun jóhannesarjurtar, sérstaklega við lyf sem eru hvarfefni cýtókróm P450 og/eða P-glýkópróteins. Vel þekktar milliverkanir eru; (1) minnkaður styrkur cýklósporíns sem komið hefur fram í mörgum skýrslum og klínískum rannsóknum, (2) serótónín heilkenni eða svefnhöfgi þegar jóhannesarjurt er gefin með serótónín endurupptökuhemlum, (3) óæskileg þungun hjá konum sem nota getnaðarvarnarpilluna samhliða jóhannesarjurt og (4) minnkuð plasmaþéttni retróveirulyfja (t.d. indinavir og nevirapine) og krabbameinslyfja (t.d. irinotecan og imatinib). Hyperforin, eitt af virku efnum jurtarinnar, er talið stuðla að flestum þessara milliverkana.[16]

Cýtókróm P450 (CYP) ensím eru algeng ástæða fyrir milliverkunum lyfja í mönnum. Lyf geta virkað hindrandi eða örvandi á CYP ensímin sem leiðir til breytinga á úthreinsun annarra lyfja. Sterkar vísbendingar úr dýrarannsóknum, forklínískum og klínískum rannsóknum benda til þess að jóhannesarjurt geti breytt virkni CYP ensímanna. Margar klínískar rannsóknir hafa sýnt fram á að jóhannesarjurt örvi CYP3A4, CYP2E1 og CYP2C19 en hafi engin áhrif á CYP1A2, CYP2D6 eða CYP2C9. Þessar niðurstöður voru fengnar með því að skoða lyfin alprazolam og miadazolam fyrir CYP3A4, koffín fyrir CYP1A2, klórzoxazón fyrir CYP2E1, dextrometorfan og debrísókín fyrir CYP2D6, tolbútamíð fyrir CYP2C9 og omeprazoll fyrir CYP2C19. Sumar rannsóknir hafa einnig bent til þess að jóhannesarjurt örvi CYP1A2 aðeins í konum. Hyperforin er efnið í jóhannesajurt sem er ábyrgt fyrir þessum milliverkunum en sýnt hefur verið fram á að hyperforin sé öflugur bindill fyrir kjarnaviðtaka sem stjórna tjáningu á CP3A4.[16]

P-glýkóprótein er talið taka virkan þátt í brotthvarfi og frásogi lyfja. Sýnt hefur verið fram á að jóhannesarjurt örvi tjáningu P-glýkópróteins í einangruðum þarmafrumum og í þörmum heilbrigðra manna. Útfrá því hefur verið sýnt fram á minni styrk ýmissa lyfja sem eru hvarfefni P-glýkópróteins í plasma, þar má nefna digoxin, fexófenandín og talinolol. Áhrif jóhannesarjurtar á P-glýkóprótein og CYP ensímin sjást almennt eftir langtímameðferð (10 eða fleiri daga). Upplýsingar um áhrif jóhannesajurtar á CYP og P-glýkóprótein eftir 4-9 daga notkun eru ekki til.[16]

Virkni hyperforins á tjáningu CYP og P-glýkópróteins hefur verið metin í klínískum rannsóknum. Hyperforin er öflugur örvi á CYP3A4 og P-glýkóprótein. Niðurstöður klínískra rannsókna benda til þess að hyperforin ákvarði hversu miklar milliverkanir jóhannesarjurt veldur þar sem útdráttur með litlu magni af hyperforini hafði væg eða engin áhrif á lyf sem bæði eru hvarfefni CYP ensíma og P-glýkópróteina. Klínískar rannsóknir hafa sýnt fram á að útdráttur af jóhannesarjurt sem innihélt lítið magn af hyperforini breytti ekki lyfjahvörfum alprazolams og midazolams (hvarefni CYP3), tolbútamíðs (hvarefni CYP2C), digoxins (hvarefni P-glýkópróteins), cyklósporíns (hvarefni CYP3A4 og P-glýkópróteins), etinýlestradíóls og desógestrels sem eru innihaldsefni getnaðarvarnapilla.[16]

Jóhannesajurt hefur sýnt klínískar milliverkanir við mörg lyf og má þar nefna ónæmisbælandi lyf, getnaðarvarnir, hjartalyf, HIV og krabbameinslyf, kvíðalyf, þunglyndislyf, krampaleysandilyf, svæfingalyf, lyf sem notuð eru við fíkn (t.d. methadón), vöðvaslakandi lyf, lyf sem virka á öndunarfærin, blóðsykurslækkandi lyf, örveruhemjandi lyf, lyf við mígreni og lyf sem virka á meltingarveginn. Einnig getur jóhannesarjurt haft áhrif á blóðþynningarlyf, þá sérstaklega warfarin, ýmis blóðfitulækkandi lyf, eins og statín og ýmsa kalsíumganga- og beta adrenergablokka.[16]

Frábendingar[breyta | breyta frumkóða]

Þekktar frábendingar eru:

  • Ofnæmi fyrir virka efninu
  • Meðganga
  • Brjóstagjöf
  • Taka lyfja sem valda milliverkun
  • Taka lyfja sem auka ljósnæmi (kínín, tetracyklín, tíasíð þvagræsilyf, metoxalen)
  • Sólarljós, ljósabekkir
  • Krómafíklaæxli (pheochromocytoma)[6]

Einstaklingur sem er á blóðþynningarlyfjum ætti ekki að nota jóhannesarjurt nema fylgst sé vel með blóðmælingum hjá honum. Hætta ætti notkun jóhannesarjurtar 10 dögum fyrir svæfingu vegna þess að það getur milliverkað við lyf sem notuð eru við svæfingu. Einnig ættu þeir sem eru með Alzheimer og ADHD ekki að nota jóhannesarjurt en einkenni ADHD gætu versnað. Geðhvarfarsýki og geðklofi getur einnig versnað við notkun. Jóhannesartjurt getur hamlað því að eggfruma frjóvgist, haft áhrif á DNA sæðis og aukið niðurbrot á ethinyl estradiol, því ættu einstaklingar sem huga að barneignum ekki að nota jóhannesarjurt. Þeir sem nota eftirfarandi lyf ættu ekki að nota jóhannesarjurt: próteasa hemla, non-núkleósíð bakrita hemla við HIV, cyclosporin, tacrolimus, irinotecan, imatinib mesylate, digoxin. Sérstaklega skal forðast notkun jóhannesarjurtar þegar alprazolam, amitryptilín, fexofenadín, benzodiazepín, methadón, simvastatin, theophyllín, mitazolam, triptans og warfarin eru notuð vegna þess að jurtin getur minnkað virkni þessara lyfja. Þungaðar konur og konur með barn á brjósti ættu ekki að nota jóhannesarjurt. Svo virðist sem notkun jóhannesarjurtar í börnum á aldrinum 6-17 ára í allt að 8 vikur sé mögulega örugg. [6]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Tips for growing St. John's Wort“. Sótt september 2014.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 K. Linde (2009). „St. John's wort - an overview“. Forsch Komplementmed. 16 (3): 146–155.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Treatments & conditions“. Sótt september 2014.
  4. 4,0 4,1 Hatanaka, J. (2011). „In vitro and in vivo characterization of new formulations of St. John's Wort extract with improved pharmacokinetics and anti-nociceptive effect“. Drug Metab Pharmacokinet. 26 (6): 551–558.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 Wolters Kluwer Health (mars 2010). „St. John's Wort“. The Review of Natural Products: 1–7.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 „ST. JOHN'S WORT Monograph: Natural Medicines Comprehensive Database“. Sótt september 2014.
  7. „Lyfja - Jóhannesarjurt“. Sótt september 2014.
  8. Morgunblaðið. „Sagt létta á depurð og vægu þunglyndi“. Sótt september 2014.
  9. 9,0 9,1 Gupta, R.K. (2003). „St. John's Wort An option for the primary care treatment of depressive patients?“. European Archives of Psychiatry and Clinical Neuroscience. 253 (3): 140–148.
  10. 10,0 10,1 Veitch, N.C., Smith, M., Baxter, I.A. (2013). Herbal medicines. Pharmaceutical Press. ISBN 0857110357.
  11. 11,0 11,1 Barnes, J. (2001). „St John's wort ( Hypericum perforatum L.): a review of its chemistry, pharmacology and clinical properties“. Journal of Pharmacy and Pharmacology: 583–600.
  12. Trompetter, I. (2013). „Herbal triplet in treatment of nervous agitation in children“. Wiener Medizinische Wochenschrift. 163 (3–4): 52–57.
  13. Butterweck, V. (2007). „St. John's wort: role of active compounds for its mechanism of action and efficacy“. Wien Med Wochenschr. 157 (13–14): 356–361.
  14. Wagner, H. (2009). „Synergy research: Approaching a new generation of phytopharmaceuticals“. Phytomedicine. 16 (2–3): 97–110.
  15. Brattström, A. (2009). „Long-term effects of St. John's wort (Hypericum perforatum) treatment: a 1-year safety study in mild to moderate depression“. Phytomedicine. 16 (4): 277–283.
  16. 16,0 16,1 16,2 16,3 16,4 16,5 Borelli, F. (2009). „Herb-drug interactions with St John's wort (Hypericum perforatum): an update on clinical observations“. AAPS J. 11 (4): 710–727.
  17. Izzo, A.A (2012). „Interactions between Herbs and Conventional Drugs: Overview of the Clinical Data“. Medical Principles and Practice. 21 (5): 404–428.