Jóhanna af Bourbon, Frakklandsdrottning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krýning Jóhönnu drottningar.

Jóhanna af Bourbon (3. febrúar 13386. febrúar 1378) var drottning Frakklands frá 1364 til dauðadags, eiginkona Karls 5. Frakkakonungs. Hún var af Valois-ætt eins og hann.

Jóhanna var fædd í Vincennes, dóttir Péturs 1., hertoga af Bourbon, og konu hans Ísabellu af Valois, sem var yngri hálfsystir Filippusar 6. Frakkakonungs. Bróðir hennar var Loðvík 2., hertogi af Bourbon, en einnig átti hún fimm yngri systur, þar á meðal Blönku, drottningu af Kastilíu, sem var myrt af eiginmanni sínum, Pétri grimma Kastilíukonungi.

Jóhanna giftist krónprinsi Frakklands, síðar Karli 5., árið 1350, þegar þau voru bæði tólf ára. Þau voru skyld í annan og þriðja lið þar sem móðir Jóhönnu var afasystir Karls. Í orrustunni við Poitiers 1356 féll faðir Jóhönnu en Jóhann konungur, faðir Karls, var tekinn höndum og eftir það tók Karl í raun við stjórn ríkisins þótt faðir hans sneri aftur um skeið. Hann dó svo 1364 og þá urðu Karl og Jóhanna konungur og drottning.

Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott en Jóhanna átti við geðræna erfiðleika að stríða eins og faðir hennar, afi og bróðir. Hún brotnaði alveg niður eftir fæðingu sjöunda barns síns. Þegar hún var að því komin að fæða níunda barnin snemma árs 1378 vildi hún fara í bað en læknar hennar réðu henni frá því. Hún lét það þó sem vind um eyru þjóta og tók sér bað en fékk hríðir og dó af barnsförum. Karl konungur syrgði hana ákaft og dó sjálfur tveimur árum síðar.

Aðeins tveir synir þeirra komust til fullorðinsára, Karl 6., sem sjálfur var geðveikur, og Loðvík hertogi af Orléans. Yngsta dóttirin, Katrín, lifði foreldra sína en dó tíu ára gömul og hafði þá verið gift í tvö ár.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]