Ion Geolgau

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ion Geolgau

Ion Geolgău (fæddur 20. febrúar 1961) er rúmenskur knattspyrnuþjálfari og fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Geolgău var meðal bestu leikmanna Rúmeníu á níunda áratugnum, lék 24 landsleiki á árunum 1980-88 og skoraði í þeim þrjú mörk.

Frá 1976-89 lék Geolgău undir merkjum uppeldisfélags síns Universitatea Craiova. Liðið var eitt hið sterkasta í Rúmeníu og vann meistaratitilinn árin 1980 og 1981. Árið 1983 komst Universitatea í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða, fyrst rúmenskra liða. Á leiðinni þangað skoraði Geolgau mikilvæg mörk í leikjum við Bordeaux frá Frakklandi og Kaiserslautern frá Vestur-Þýskalandi.

Að keppnisferlinum loknum sneri Geolgau sér að þjálfun. Frá 1997-2003 starfaði hann í Færeyjum, þar sem hann stýrði Þórshafnarliðunum HB og B36. Í kjölfarið var hann ráðinn til starfa hjá Knattspyrnufélaginu Fram sem aðalþjálfari meistaraflokks karla sumarið 2004.

Geolgău var fyrsti útlendingurinn til að stýra Framliðinu frá árinu 1983 og voru miklar vonir bundnar við ráðninguna. Þær brugðust hins vegar illilega og var Geolgău leystur undan störfum á miðju sumri og Ólafur H. Kristjánsson ráðinn í staðinn.

Árið 2009 var Geolgău ráðinn til starfa hjá sínu gamla félagið Universitatea Craiova sem yfirmaður íþróttamála.