Ingibjörg H. Bjarnason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Fröken Ingibjörg H. Bjarnason
Málverk af fröken Ingibjörgu H. Bjarnason.
Ljósmynd tekin af málverki í eigu bæðranna Halldórs Jónssonar [Bjarnason] verkfræðings og Ólafs J. Bjarnason viðskiptafræðings, sem þeir gáfu Alþingi til eignar í júlí 2012

. Málverkið er gert af Gunnlaugi Blöndal f. 1893, d. 1962.

Fröken Ingibjörg H. Bjarnason á vegg Alþingis. Eins og fram kemur í texta, þá var fröken Ingibjörg um hríð varaforseti Efri deildar Alþingis.
Þetta er mynd sem tekin var á heimili fröken Ingibjargar í júní 2014. Þarna mun allt vera eins og þegar fröken Ingibjörg bjó þarna. Þetta er nú hluti skrifstofu rektors/skólameistara Kvennakólans í Reykjavík eins og var á tíð fröken Ingibjargar. Það má til gamans geta þess að núverandi rektor/skólameistari er frú Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, en hún hefur stjórnað Kvennaskólanum síðan 1998 ef frá er talið árs leyfi sem hún tók árið 2006. Þess má geta að frú Ingibjörg S. Guðmundsdóttir býr ekki í íbúðinni.


Ingibjörg H. Bjarnason (f. á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867, d. 30. október 1941) var um langan aldur skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík og var fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi. Hún sat á Alþingi 1922-1930 fyrir sérstakan kvennalista (Kvennalistann eldri).

  • [1] Fröken Ingibjörg á enskri síðu á Wikipedíu.

Uppvöxtur og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Fröken Ingibjörg var dóttir Hákonar Bjarnasonar og Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur. Hákon Bjarnason var kaupmaður og útgerðarmaður á Bíldudal, V-Barð., f. 5. sept. 1828, d. 2. apríl 1877. For.: Bjarni Gíslason, bóndi í Ytri-Görðum og víðar í Staðarsveit, Snæf., síðar prestur á Söndum í Dýrafirði, V-Ís., f. 11. júní 1801, d. 30. sept. 1869, og k.h. Helga Árnadóttir, húsfreyja, f. 29. mars 1791, d. 15. jan. 1860. Eiginkona Hákonar, Jóhanna Kristín Þorleifsdóttir, húsfreyja á Bíldudal, f. 16. des. 1834, d. 11. jan. 1896. For.: Þorleifur Jónsson, prófastur í Hvammi í Hvammssveit, Saurbæjarhr., Dal., f. 8. nóv. 1794, d. 1. maí 1883, og fyrri k.h. Þorbjörg Hálfdanardóttir, húsfreyja, f. 21. maí 1800, d. 20. jan. 1863. Hákon og Jóhanna Kristín eignuðust 12 börn en aðeins 5 þeirra komust á legg. Það voru Ingibjörg og fjórir bræður hennar. Hákon Bjarnason faðir hennar rak verslun og þilskipaútgerð á Bíldudal.

Fyrri kona Hákonar Bjarnasonar var Þóra Gísladóttir, f. að Kaldaðanesi 1825. Hún var dóttir Gísla Sigurðssonar, f. að Kollabúðum á Reykjanesi 2. janúar 1783 - d. 20. júni 1862 og konu hans Sólveigu Jónsdóttur, f. að Kaldbaki Kaldrananesi 25. nóvember 1789 - d. 30. mai 1866.

Hákon og Þóra áttu dótturina Valgerði Sumarlínu, f. í Flatey á Breiðafirði 19. apríl 1855 og d. 1944 í Danmörku. Hún fluttist til Danmerkur og kvæntist .þar Jacobi Kiil. Þeim varð tveggja barna auðið, Jóhannes Kiil og Ingeborg Johanne Kiil sem kvæntist Adolf Paludan Seedorff í Álaborg, f. 14. september 1893 - d. 1 september 1953 í Risskov. Frá Valgerði er kominn allstór fjölskylda mikilhæfs fólks sem von er. Fröken Ingibjörg ræktaði vel tengsl við systur sína og hennar fók allt á sinni tíð sem kemur ekki á óvart. Þá hafa margir úr fjölskyldunni haldið sambandi fram á þennan dag (2014) við danska legginn sem frá Valgerði er kominn.

Fröken Ingibjörg ólst upp hjá foreldrum sínum á Bíldudal. Faðir hennar, Hákon Bjarnason, rak þar þróttmikla verslun og þilskipaútgerð. Þótti hann dugnaðar- og atorkumaður hinn mesti, en þessi þilskipaútgerð hið vestra var komin á legg hjá Hákoni áður en hún var komin til svo nokkru næmi hið syðra, á höfuðborgarsvæðinu sem nú er kallað. Hákoni hafði þar að auki tekist að koma framleiðsluvöru sinni í það álit erlendis að besti saltfiskurinn frá Íslandi var kallaður „Bíldudalsfiskur“ og hélst það lengi síðan. Hákon stórumsvifamaður féll frá á besta aldri, aðeins 49 ára gamall. Vöruskip sem hann kom með frá Kaupmannahöfn, strandaði á Mýrdalssandi í „páskaveðrinu mikla“ 1877 og fórst hann þar ásamt flestum þeim sem á skipinu voru. Ekkja Hákonar, móðir fröken Ingibjargar, rak útgerðina og verslunina nokkur ár eftir þetta. Fröken Ingibjörg var einungis 8 ára þegar faðir hennar fórst.

Hún flutti að lokinni fermingu til Reykjavíkur og hóf nám í Kvennaskólanum í Reykjavík.

Fröken Ingibjörg lauk kvennaskólaprófi í Reykjavík árið 1882 og stundaði nám hjá Þóru Pétursdóttur (einnig þekkt sem Þóra biskups) árin 1882—1884. Hjá Þóru stundaði hún nám í teikningu, dönsku og ensku. Árin 1884—1885 og aftur 188693 stundaði hún framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Hún stundaði nám í ýmsum greinum sem tengdust uppeldis- og menntamálum og kynntist m.a. Lingsleikfimi og lauk leikfimikennaraprófi fyrst Íslendinga vorið 1892 frá Poul Petersens Institut. Hún lagði ríka áherslu á mikilvægi íþróttakennslu. Hún dvaldist einnig erlendis 19013 og kynnti sér skólahald, aðallega í Þýskalandi og Sviss.

Störf að skólamálum og kennslu[breyta | breyta frumkóða]

Hún starfaði við kennslu í Reykjavík 1893—1901. Hún var kennari við Kvennaskólann í Reykjavík 19036. Þar var hún nánasti samstarfsmaður Þóru Melsted sem þá stýrði skólanum. Þegar Þóra lét af störfum þá tók fröken Ingibjörg við starfi hennar og var forstöðumaður, eða skólameistari/rektor skólans frá 1906 til æviloka, eða 1941. Hún arfleiddi Kvennaskólann að flest öllum eigum sínum og eru skrifstofuhúsgögn hennar enn á skrifstofu skólastjóra ásamt rúmi hennar og borðstofuhúsgögnum. Þess má geta að heimili fröken Ingibjargar var í húsi Kvennaskólans, en skrifstofa skólameistara Kvennaskólans er enn þann dag á heimili hennar í Kvennaskólanum í Reykjavík og notast því við húsbúnað þann sem fröken Ingibjörg arfleiddi skólann að.

Fröken Ingibjörg kenndi fyrstu árin meðal annars leikfimi, teikningu og handavinnu. Hún kenndi dans í einkatímum utan skólatíma. Síðar kenndi hún eingöngu teikningu, dönsku og heilsufræði fram til 1922. Eitt fyrsta verk hennar eftir að hún tók við stjórn skólans var að útvega húsnæði fyrir skólann en skólinn fluttist þá í leiguhúsnæði við Fríkirkjuveg. Í ræðu þeirri sem hún flutti við fyrstu skólasetningu Kvennaskólans í hinu nýja húsnæði við Fríkirkjuveg, sést hve mikilvægt var í huga hennar að læra fyrir lífið en ekki eingöngu til þess að ná prófum. Sömuleiðis ræddi hún mikilvægi þess að nemendur skólans sýndu ábyrgð og að menntun snúist um að auðga sálina. Útdrátt úr ræðu fröken Ingibjargar geta menn nágast í bókinni „Kvennaskólinn í Reykjavík 1874-1974“. Ljóslega má sjá í umræddri ræðu hennar að umhyggja fröken Ingibjargar fyrir starfi sínu sem og nemendum skín þar í gegn. Þess sama ætlaðist hún til af samkennurum og starfsmönnum Kvennaskólans í Reykjavík.

Hún fylgdist vel með menntaumræðunni í samfélaginu og fór oft til útlanda til að kynna sér nýjar hugmyndir. Sem dæmi má nefna að Kvennaskólinn í Reykjavík var fyrsti skólinn sem kenndi umönnun ungabarna, skyndihjálp og heimahjúkrun.[1].

Stjórnmálaþátttaka og félagsmál[breyta | breyta frumkóða]

Fröken Ingibjörg var einn stofnenda Lestrarfélags kvenna í Reykjavík. Hún var í forystu tólf kvenna er samdi frumvarp er flutt var á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu Landspítala og var formaður Landspítalasjóðs Íslands. Landspítalasjóðurinn hittist enn þann dag í dag í hverjum mánuði til fundarhalda á heimili fröken Ingibjargar í Kvennaskólanum í Reykjavík í virðingarskyni við frumkvöðlastarf hennar við við stofnun sjóðsins og röggsamrar stjórnar hennar á honum til dauðadags. Hún sat í menntamálaráði 1928-1932.

Ingibjörg var landskjörinn alþingismaður 1922-30 og varaforseti efri deildar Alþingis um hríð. Hún var fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi og komst á þing fyrir sérstakan kvennalista (Kvennalistann eldri) sem spratt upp úr kvenréttindabaráttu þessa tíma. Hún gekk síðar til liðs við Íhaldsflokkinn sem síðar varð Sjálfstæðisflokkurinn. Þá sat hún á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn til ársins 1930. Hún var gagnrýnd fyrir að svíkja málstaðinn þegar hún gekk til liðs við karlaflokk. Hún barðist þó ávallt ötullega fyrir réttindum kvenna, allt fram til hins síðasta.

Frægt er hve Jónas frá Hriflu, meðal annars sem heilbrigðis-, dóms-, kirkju- og menntamálaráðherra, hamaðist með ósvífnum hætti á málstað kvenna og ekki hvað síst fröken Ingibjörgu. Ekki hvað síst sendi hann fröken Ingibjörgu einatt tóninn á Alþingi. Mörgum þótti undrum sæta hve fröken Ingibjörg stillti sig vegna hinna ósvífnu árása Jónasar, enda ósannar fullyrðingar hans í flestu, raunar öllu er fullyrt víðast.

„Helga Jóhannesdóttir hjúkrunarkona í Vestmannaeyjum sem nú er látin, var námsmey í Kvennaskólanum á árunum 1922- 1925. Hún sagði greinarhöfundi frá því að skólastúlkur hefðu oft farið á pallana til að hlusta á Ingibjörgu. Það sem henni var minnisstæðast var það hvað Jónas frá Hriflu gat verið dónalegur við hina virðulegu skólastýru, einu konuna sem sat á þingi. Ingibjörg svaraði honum yfirleitt litlu framan af, en hún getur þess í ræðum að hann ausi sig auri jafnt í þinginu sem í blöðum. Jónas hafði hina megnustu andúð á "íhaldinu" og djöflaðist á þingmönnum þess og þar var Ingibjörg engin undantekning. Í umræðunum um Kvennaskólana 1926 kallaði Jónas Ingibjörgu eitt "besta sverð íhaldsins" og sagði að það væri verið að launa henni stuðninginn með því að gera Kvennaskólann að ríkisskóla. Hún skaut því á Jónas að hann vildi ekki að konur fengju neina aðra menntun en þá sem lyti að húsmóðurstörfum. Sjálf ítrekaði hún margsinnis að konum bæri að eiga fleiri kosta völ. "Jeg hefi ekki enn látið sannfærast um, að konan geti aðeins rækt störf sín vel undir askloki því, sem kallað er að gæta bús og barna" sagði hún í ræðu 1927 og síðar í sömu umræðu: "þá held ég því fram, að ekki dugi að einblína á sjermenntunina eina [þ.e. húsmæðrafræðsluna - innsk. ká]. Nútíminn heimtar meira af konunum, og þær vilja fá tækifæri til þess að búa sig undir störf á sem flestum sviðum.“
MÁLSVARI ÍSLENSKRA KVENNA

„Þegar litið er yfir málflutning Ingibjargar á þingi verður ekki betur séð en að hún hafi notað hvert tækifæri sem gafst til að minna á réttindi kvenna og hún beitti sér sérstaklega fyrir því að hreinsa út úr lögum þær greinar þar sem konum var berlega mismunað.“

MÁLSVARI ÍSLENSKRA KVENNA

Innri tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Systkini fröken Ingibjargar sem komust á legg :

  • Valgerður Sumarlína H. Kiil
  • [2] Þorleifur H. Bjarnason
  • [3] Brynjólfur H. Bjarnason
  • [4] Lárus H. Bjarnason
  • [5] Ágúst H. Bjarnason

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sigríður Briem Thorsteinsson, 1974

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]