IRC (siglingar)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

IRC er kerfi til að reikna út forgjöf í siglingakeppnum þar sem keppt er á bátum sem ekki eru allir sömu gerðar. IRC-forgjöf er reiknuð út samkvæmt reglum sem gefnar eru út ár hvert af Royal Ocean Racing Club í Bretlandi. Á hverju ári er reglunum aðeins breytt til að koma í veg fyrir að skútur séu sérstaklega hannaðar með tilliti til forgjafarinnar. Allar forgjafir renna því út við árslok og þarf að sækja um nýja til viðkomandi umboðsaðila.

Við útreikning á forgjöf er miðað við eiginleika skútunnar, skrokklag, djúpristu, lengd og rýmd, seglbúnað o.fl.

IRC-forgjöf er notuð til að „leiðrétta“ þann tíma sem tók skútuna að komast í mark. Fjöldi sekúndna er þá margfaldaður með forgjöfinni og niðurstaðan látin ráða sætaröð. Hjá skútu með forgjöfina 1 gildir þá raunverulegur tími. Fyrir skútu með forgjöf <1 minnkar tíminn en eykst ef forgjöfin er >1. Þannig að því minna sem gildið er, því meiri er forgjöfin.

IRC er sú tegund forgjafar sem notuð er af Siglingasambandi Íslands fyrir keppnir á kjölbátum.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]