Hróarskeldufjörður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hróarskeldufjörður

Hróarskeldufjörður er langur og mjór fjörður sem liggur í suður úr mynni Ísafjarðar á norðausturhluta Sjálands í Danmörku. Við suðurenda fjarðarins er nesið Bognæs og innan við það bærinn Hróarskelda. Fjörðurinn skilur á milli Hornsherred, sem er nesið milli fjarðarins og Ísafjarðar, og Norður-Sjálands. Tvær eyjar eru í firðinum; Elleore og Eskilsø.

Fjörðurinn er þekktur fyrir fjölda af minjum frá Víkingaöld sem hefur fundist þar, meðal annars Skuldelevskipin sem sökkt var í firðinum 1070 til að verjast innrásarher, og eru nú til sýnis í Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu.