Hnattvæðing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tækniframfarir eru drifkraftur hnattvæðingarinnar

Hnattvæðing eða alþjóðavæðing er hugtak yfir margbrotið og flókið ferli sem hefur áhrif á flest öll svið mannlífs. Þessar breytingar eru bæði huglægar og hlutlægar og, eins og nafnið gefur til kynna, eru þær ekki bundnar við ákveðin svæði heldur teygja sig um allan heim.

Í stuttu máli verður hnattvæðingin til þess að flæði upplýsinga, vara, fjármagns, fólks og hugmynda um landamæri eykst og fyrir vikið breytist skynjun fólks á tíma og rúmi. Heimurinn „minnkar“ og tengsl eflast. Mismunandi hagkerfi heimsins verða háðari hvoru öðru í gegnum efnahagslega hnattvæðingu.

Rétt er að taka fram að hnattvæðingin er ekki endilega jákvæð þróun og hefur misjafnlega mikil áhrif á fólk eftir því hvar það er statt í heiminum. Fólk í þróunarlöndum verður vart við áhrif hnattvæðingarinnar á allt annan hátt en íbúar vestrænna heimsborga. Í því samhengi er talað um bilið milli norðursins og suðursins.

Hnattsaga[breyta | breyta frumkóða]

Sögu hnattvæðingar hafa ekki verið gerð ítarleg skil af sagnfræðingum enda hugtakið sjálft nýtt af nálinni. Sú undirgrein sagnfræðinnar sem fæst við orsakir hnattvæðingar nefnist hnattsaga. Í víðum skilningi er hægt að líta á sem svo að hægt sé að rekja „upphaf“ hnattvæðingar aldir aftur í tíman og miða sumir við landnám Kristófers Kólumbusar í Ameríku árið 1492. Aðrir nota ártalið 1830, er Frakkar innlimuðu Alsír sem nýlendu, og enn aðrir miða við eftirstríðsárin.[1] Örasta þróun hennar hefur hins vegar orðið á síðasta aldarfjórðungi 20. aldarinnar.

Þetta ferli er hægt að bera saman við aðra byltingarkennda þróun í nútímanum s.s. iðnbyltinguna og prentvæðinguna. Flestir eru á því að hnattvæðingin sé einstaklega hröð, þótt ekki séu allir sammála um að hún feli í sér eðlisbreytingu á lifnaðarháttum.

Tækni, stjórnmál og menning[breyta | breyta frumkóða]

Miklar breytingarnar hafa orðið á sviði upplýsingatækninnar með útbreiðslu stafrænnar tækni. Þannig hefur tilkoma internetsins, öflugri tölvna og farsíma orðið til að bæta og auka samskipti fólks. Í dag getur almenningur átt í samskiptum heimshorna á milli í rauntíma með tiltölulega ódýrum hætti.

Einnig hafa orðið framfarir á sviði samgangna sem auðvelda langferðalög. Fjarlægð felur því í sér minni takmarkanir á getu fólks til þess að ferðast, og eiga í samskiptum. Það færist í aukana að ferðamenn ferðist milli landa sér til skemmtunar. Innan vestrænna landa er einnig töluvert um að fólk flytji búferlum landa á milli, t.a.m. geta íbúar Evrópusambandsins ferðast innan þess án takmarkanna. Meira er orðið um ásókn fólks frá fátækari löndum í störf í ríkari löndum og veldur þetta víða þjóðfélagsátökum, sér í lagi þar sem mikið ber á ólöglegum innflytjendum.

Efnahagslegar breytingar hafa einnig orðið miklar, flæði varnings milli landa hefur aukist mikið. Erlendar fjárfestingar eru töluverðar og aukast. Alþjóðleg stórfyrirtæki (t.d. Coca Cola, Nike, Microsoft o.fl.) hafa gífurleg völd vegna þess hversu stór þau eru orðin. Efnahagslíf landa eru því víxlháð og getur áhrifa þess gætt víða þegar breyting verður á í einu landi. Þessi þróun er að hluta til komin vegna ríkjandi hugmyndafræði frjálshyggju sem boðar m.a. sem minnstar hömlur á flæði fjármagns, vinnuafls og varnings milli landa. Alþjóðabankinn, Alþjóðaviðskiptastofnunin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráða hér miklu um.

Í stjórnmálum hefur borið á auknum völdum alþjóðasamtaka á borð við Sameinuðu þjóðirnar og ESB. Vilja sumir meina að þau grafi undan fullveldi ríkjanna sem eru meðlimir með því að skylda þau til þess að hlíta lögum og reglugerðum sem þau úthluta. Hægt er að færa rök fyrir því að ábyrgð lýðræðislega kosinna þingmanna gagnvart kjósendum rofni þegar alþjóðleg samtök og stofnanir taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf fólks.

Að sama skapi hafa alþjóðleg félagasamtök eins og Amnesty, Greenpeace og Rauði krossinn aukin áhrif í krafti þrýstings sem þau beita stjórnvöld til þess að móta stefnu þeirra.

Í vestrænum löndum ber meira á einstaklingshyggju sem ríkjandi hugmyndafræði og er í því sambandi talað um vestræna neyslumenningu. Fólk skilgreinir sig í auknum mæli út frá lifnaðarháttum sínum eða lífsstíl. Hnattvæðing hefur sumsstaðar orðið til þess að menning í ólíkum löndum verður einsleitari. T.a.m. þegar sjónvarpsefni er framleitt í einu landi og flutt út til annara landa og lagað að aðstæðum þar, t.d. Idol.

Efnahagsleg hnattvæðing[breyta | breyta frumkóða]

Aðalgrein: Efnahagsleg hnattvæðing

Efnahagsleg hnattvæðing er sú tegund hnattvæðingar sem snýr að efnahagslegum þáttum, svo sem aukna samþættingu markaða þar sem ólík hagkerfi verða háðari hvoru öðru, aukin verðsamleitni, aukin alþjóðaviðskipti og minnkun á efnahagslegum hindrunum milli landa.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Magnús Sveinn Helgason (25. mars 2007). "Endalok sögunnar" og yfirlitið á tímum hnattvæðingar“. Hugsandi. Sótt 3. maí 2007.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]