Hnúfubakur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hnúfubakur

Stærð borin saman við meðalmann
Stærð borin saman við meðalmann
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Ætt: Reyðarhvalir (Balaenopteridae)
Ættkvísl: Hnúfubakar (Megaptera)
Gray, 1846
Tegund:
Hnúfubakur (M. novaeangliae)

Tvínefni
Megaptera novaeangliae
Borowski (1781)
Útbreiðsla hnúfubaks
Útbreiðsla hnúfubaks

Hnúfubakur (fræðiheiti: Megaptera novaeangliae, enska: humpback whale), einnig kallaður hnúðurbakur og skeljungur, er skíðishvalur af ætt reyðarhvala.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Hnúfubakur er frekar kubbslega vaxinn, sverastur um miðjuna en mjókkar til beggja enda. Fullorðinn er hann 13 til 17 metra langur og 25 til 40 tonn á þyngd. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir eins og er um alla skíðishvali. Hausinn er um þriðjungur af heildarlengd hvalsins. Skíðin eru svört á lit og öllu styttri en skíði annarra skíðishvala af svipaðri stærð. Hnúfubakurinn hefur 330 pör af skíðum og eru þau um 60 cm á lengd og 30 cm á breidd þar sem þau eru breiðust, sú hlið skíðanna sem snýr inn að munnholi er alsett hárum.

Eitt helsta sérkenni hnúfubaks eru gríðarlöng bægsli. Þau geta orðið fimm til sex metra löng eða um einn þriðji af skrokklengd. Fremri brún bægslanna er alsett misstórum hnúðum. Sveifla hvalirnir bægslunum stundum upp úr sjónum og lemja þeim í yfirborðið, að því er virðist í leik. Þeir velta sér einnig iðulega í yfirborðinu og stökkva upp úr sjónum með miklum bægslagangi. Bægsli hnúfubaksins eru lengstu útlimir sem þekkjast í dýraríkinu í dag.

Hnúfubakur hefur lítið horn aftarlega á bakinu og er það mjög breytilegt að stærð og lögun. Hornið er á eins konar upphækkun á bakinu og er sérlega áberandi þegar hvalurinn setur á sig kryppu fyrir djúpköfun. Nafn hans á íslensku (og mörgum öðrum málum) er dregið af því. Hvalirnir eru yfirleitt fimm til sjö mínútur í kafi en stundum mun lengur. Dæmi er um köfun í allt að hálftíma. Áður en þeir kafa koma þeir upp til að anda þrisvar til fjórum sinnum. Þegar hnúfubakar fara í djúpköfun lyfta þeir nánast alltaf sporðinum upp úr sjónum. Þá kemur í ljós sérstakt hvítt litamynstur neðan á sporðblöðkunni sem nota má til þess að greina að einstaklinga. Sporðurinn er breiður með djúpri skoru í miðju og er aftari brún hans óreglulega tennt.[3]

Fæða og félagskerfi[breyta | breyta frumkóða]

Fæða hnúfubaka er fjölbreytt og mismunandi eftir árstíma en er fyrst og fremst svif, áta og smáfiskur, s.s. sandsíli og loðna.

Félagskerfi húfubaka er betur þekkt en flestra annarra hvala og er hann eina tegundin sem hefur þekkt, afmörkuð og aðgengileg æxlunarsvæði. Tegundin í Norður-Atlandshafi hefur æxlunarsvæði í Karíbahafi.

Talið er að minnst tveir aðskildir stofnar hnúfubaks séu í Norður-Atlantshafi, fimm á suðurhveli jarðar og þrír í Kyrrahafi. Hvalirnir fara ár eftir ár á sömu fæðusvæðin og stofnarnir virðast ekki blandast mikið.

Á fartíma á haustin og fengitíma að vetri gefa tarfarnir frá sér fjölbreytileg hljóð sem líkja mætti við fuglasöng. Ekki er ljóst hvort þeir eru með þessa að laða til sín kýrnar eða hræða burtu aðra tarfa. Söngurinn er breytilegur eftir hafssvæðum en tarfar á sama svæði syngja sömu stefin. Nýlegar rannsóknir sýna að söngurinn getur gjörbreyst á skömmum tíma þegar nýtt stef verður vinsælt.[4]

Veiðar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir daga sprengiskutulsins voru hnúfubakar miklu meira veiddir en aðrar tegundir reyðarhvala. Bæði var að þeir héldu sig oft nálægt ströndum og einnig synda þeir hægar en frændur þeirra. Hnúfubakur var án efa meðal þeirra tegunda sem voru skutlaðar við Ísland fyrr á öldum. Með nýrri tækni í lok 19. aldar, gufuknúnum skipum og sprengiskutlum, gekk hratt á hnúfubaksstofna heimsins. Talið er að 2800 hnúfubakar hafi verið veiddir við Vestfirði og Austfirði á árunum 1889 til 1915 en fyrir þann tíma var hvalurinn mjög algengur við strendur landsins.[5] Eftir þessar miklu veiðar urðu hnúfubakar mjög sjaldgæfir við Ísland. Veiddust einungis 6 hvalir af þessari tegund frá því að hvalstöðin í Hvalfirði tók til starfa 1948 þar til hnúfubakar voru friðaðir 1955. Veiðar annars staðar á Norður-Atlantshafi voru öllu minni en við Ísland eða mill 2 og 3 þúsund dýr samanlagt en Alþjóðahvalveiðiráðið alfriðaði hnúfubak þar 1956.

Í Norður-Kyrrahafi voru um 28 þúsund hnúfubakar veiddir frá 1905 til 1965 þegar tegundin var friðuð þar. Á suðurhveli jarðar voru veiddir meira en 150 þúsund hnúfubakar frá aldamótum 1900 fram til 1963 þegar þeir voru friðaðir.[6]

Á síðustu áratugum hefur hnúfubak fjölgað mjög, og er Norður-Atlantshafsstofninn talinn vera á bilinu 12.000 til 14.000 dýr árið 2003[7] en nálægt 10.000 samkvæmt talningu 2015.[8] Fjöldi hnúfubaka í Norður-Kyrrahafi er talinn 6000 til 8000 dýr og á suðurhveli jarðar um 17.000[9]

Myndagallerí[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Cetacean Specialist Group (1996). „Megaptera novaeangliae“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 1996. Sótt 11 May 2006. Database entry includes a lengthy justification of why this species is vulnerable
  2. IUCN quoted as downgrading the Humpback to Least Concern [1]
  3. Humpback Whale, Winn & Reichley, í Handbook of Marine Mammals, vol. 3, Academic Press, 1985
  4. Cultural revolution in whale songs, M. J. Noad og fleiri, tímaritið Nature, 2000
  5. Hvalir og hvalveiðar á Austfjörðum, Jóhann Sigurjónsson, Sjómannadagsblað Neskaupstaðar, 1991
  6. The Great Whales: History and status of six species listed as endangered, S.A. Perry og fleir, tímaritið Marine Fishery Review, 1999
  7. Report of the NAMMCO Scienticic Committee Working Group on the Abundance Estimate, NAMMCO Annual Report 2003
  8. Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).
  9. Guide to marine mammals of the world, R. R. Reeves og fleiri, Chanticleer Press, 2002, ISBN 0-375-41141-0

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]