Heiðveig af Slésvík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Heiðveig af Slésvík (d. 1374) eða Helvig var hertogadóttir frá Slésvík og drottning Danmerkur frá 1340 til dauðadags.

Hún var dóttir Eiríks 2. hertoga af Slésvík og Aðalheiðar Hinriksdóttur af Holtsetalandi-Rendsborg. Bróðir hennar var Valdimar 3., sem var konungur Danmerkur 1326-1329, þegar hann var unglingur, en var síðar lengi hertogi af Slésvík og hjálpaði Valdimar atterdag að endurreisa konungdæmið í Danmörku og verða konungur árið 1340. Sama ár giftist Valdimar konungur Heiðveigu, systur Valdimars hertoga, og fékk með henni fjórðung af Norður-Jótlandi í heimanmund.

Þau eignuðust saman sex börn og lifðu þrjú til fullorðinsára. Konungshjónin sökuðu þó hvort annað um ótryggð og Heiðveig flutti frá Valdimar í sinn eigin kastala og hafði þar sína eigin hirð. Valdimar hóf svo sambúð með frillu sinni, Tófu, og var drottningunni þá nóg boðið, svo að hún tók sér aðsetur í Esrum-klaustri 1355 og dvaldist þar til dauðadags. Hún er grafin í klausturkirkjunni.

Kristófer, sonur þeirra, dó 1363 af sárum sem hann hlaut í stríði Valdimars við Hansasambandið. Ingibjörg, dóttir þeirra, giftist Hinrik hertoga af Mecklenburg og átti með honum soninn Albrecht en dó 1370. Þá var yngsta dóttirin, Margrét, ein eftir. Hún giftist Hákoni 6. Noregskonungi og átti með honum soninn Ólaf, sem erfði dönsku krúnuna eftir afa sinn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]