Hannibal Valdimarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hannibal Valdimarsson (13. janúar 19031. september 1991) var einn umdeildasti og um leið litríkasti stjórnmálaleiðtoginn á vinstri kantinum á Íslandi um og upp úr miðri 20. öld. Hann var mikill baráttumaður fyrir réttindum verkafólks og trúði á nauðsyn sterkrar verkalýðshreyfingar. Hannibal var formaður í tveimur stjórnmálaflokkum, Alþýðuflokknum og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna og kosningabandalaginu Alþýðubandalaginu. Hann var þó alla tíð eindreginn jafnaðarmaður. Hann barðist oft af kappi fyrir skoðunum sínum en þótti ekki alltaf auðveldur í samstarfi og var lítið gefinn fyrir málamiðlanir. Hannibal hóf þátttöku í pólitík á Ísafirði upp úr 1930 og varð fljótlega leiðtogi þeirra sem kallaðir voru "Ísafjarðarkratar" og þóttu mjög harðsnúnir og róttækir þó þeir ættu litla samstöðu með kommúnistum. Hannibal neitaði meðal annars að fylgja Héðni Valdimarssyni til liðs við kommúnista þegar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1938. Hann var fyrst kosinn á þing 1946 fyrir Alþýðuflokkinn. Seinna klauf hann þó Alþýðuflokkinn og gekk til samstarfs við Sósíalistaflokkinn í kosningabandalagi 1956 sem forsvarsmaður Málfundafélags jafnaðarmanna. Þegar Alþýðubandalaginu var breytt úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk árið 1968 og hann sá fyrir að sósíalistar mundu ráða lögum og lofum í honum sagði hann skilið við fyrri samstarfsmenn og stofnaði nýjan flokk, Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Hannibal var einnig forseti Alþýðusambands Íslands 1954 - 1971. Eftir að Hannibal hætti afskiptum af stjórnmálum gerðist hann bóndi í Selárdal í Arnarfirði og átti þar heima.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Hannibal var fæddur í Fremri-Arnardal í Eyrarhreppi 13. janúar 1903, dó 1. september 1991. Foreldrar hans voru Valdimar Jónsson bóndi og Elín Hannibalsdóttir. Hannibal var bróðir Finnboga Rúts Valdimarssonar alþingismanns. Hann er faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra, og Arnórs Hannibalssonar, fyrrum heimspekiprófessors við Háskóla Íslands.

Hannibal var kvæntur Sólveigu Sigríði Ólafsdóttur (fædd 24. febrúar 1904). Þau áttu saman börnin: Arnór Kjartan (1934-2012), Ólaf Kristján (1935-2015), Elínu (fædd 1936), Guðríði (fædd 1937) og Jón Baldvin (fæddur 1939). Hannibal átti einnig synina Ingjald (1951-2014) með Hólmfríði Ingjaldsdóttur og Isleif Weinem (Ísleifur Jóhann Gilbert Hannibalsson í Íb., fæddur 1934). Móðir hans: Gustel Weinem.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Hannibal tók gagnfræðapróf á Akureyri 1922 og kennarapróf frá Johnstrup Statsseminarium í Danmörku 1927.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Hannibal sat á alþingi frá 1946 til 1974 fyrir Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið og Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Hann var félags- og heilbrigðismálaráðherra 19561958, samgöngu- og félagsmálaráðherra 19711973. Hann var formaður Alþýðuflokksins 19521954, Alþýðubandalagsins (kosningabandalags Sósíalistaflokksins og Málfundafélags jafnaðarmanna) 19561968 og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna frá stofnun þeirra 19691974.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]