Hannes Stephensen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hannes Stephensen (12. október 179929. september 1856) var íslenskur prestur og alþingismaður. Hann bjó á Innra-Hólmi og síðar Ytra-Hólmi á Akranesi og var prestur í Görðum.

Hannes var fæddur á Hvanneyri í Andakíl, sonur Stefáns Ólafssonar Stephensen amtmanns og fyrri konu hans, Mörtu Maríu Diðriksdóttur Hölter. Hann varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1818, sigldi síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lauk guðfræðiprófi þaðan 1824. Hann varð prestur í Görðum á Akranesi 1825 og gegndi því embætti til æviloka. Prófastur í Borgarfjarðarprófastsdæmi var hann frá 1832.

Hannes var alþingismaður Borgfirðinga frá 1845-1856 og var forseti Alþingis 1855 og varaforseti 1849 og 1853. Hann var fulltrúi á Þjóðfundinum 1851 og lét þar mikið til sín taka; þær sögur gengu á eftir að dönsku hermönnunum sem Trampe greifi hafði til taks hefði verið sagt að ef fundinum yrði hleypt upp ætti að skjóta þrjá þingmenn fyrst: „Den hvide“ (þ. e. Jón Sigurðsson), „Den halte“ (Jón Guðmundsson) Og „Den tykke“ (séra Hannes Stephensen), og voru það mestu skörungar fundarins.[1]

Kona Hannesar var Þórunn, dóttir Magnúsar Stephensen, og voru þau bræðrabörn. Þau áttu þrjú börn.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1] Sunnanfari, 3. tbl. 1891.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Æviágrip á vef Alþingis, skoðað 27. maí 2011“.