Hadríanus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hadríanus
Rómverskur keisari
Valdatími 117 – 138

Fæddur:

24. janúar 76
Fæðingarstaður Róm eða Italica, Hispaniu

Dáinn:

10. júlí 138
Dánarstaður Baiae, Campaniu
Forveri Trajanus
Eftirmaður Antonínus Píus
Maki/makar Vibia Sabina
Faðir Publius Aelius Hadrianus Afer
Móðir Domitia Paulina
Fæðingarnafn Publius Aelius Hadrianus
Keisaranafn Caesar Publius Aelius Traianus Hadrianus Augustus
Ætt Nervu-Antonínska ættin
Tímabil Góðu keisararnir fimm

Publius Aelius Traianus Hadrianus (24. janúar 7610. júlí 138) var keisari Rómaveldis frá 117 til 138 af aelísku ættinni. Hann var sá þriðji af góðu keisurunum fimm. Hann var ættingi Trajanusar sem ættleiddi hann sem erfingja sinn á dánarbeðinu. Hann barði niður aðra gyðingauppreisnina 135 sem leiddi til herferðar gegn gyðingdómi; gyðingum var bannað að fara inn í Jerúsalem og Júdea var endurskírð Syria Palaestina. Í valdatíð hans ríkti þó friður að mestu leyti og hann einbeitti sér að því að styrkja innviði ríkisins með opinberum framkvæmdum og varnarvirkjum eins og Hadríanusarmúrnum í norðurhluta Bretlands.

Leiðin til valda[breyta | breyta frumkóða]

Hadríanus var fæddur árið 76, í Róm eða í Italicu á Spáni. Fjölskylda hans var frá Italicu, og hann var skyldur Trajanusi keisara, sem einnig var frá Italicu. Eftir að faðir hans lést, árið 86, var Hadríanus að hluta til í umsjá Trajanusar, sem þá var orðinn háttsettur í rómverska hernum. Trajanus útvegaði Hadríanusi stöðu í hernum og síðar stöðu dómara í Róm. Þegar Nerva valdi Trajanus sem eftirmann sinn, árið 97, var Hadríanus orðinn yfirmaður í hernum og var valinn til þess að færa Trajanusi hamingjuóskir frá hernum.[1] Þegar Nerva lést svo árið eftir var Hadríanus staðráðinn í að færa Trajanusi, sem þá var í herferð við Rín, fréttirnar. Þrátt fyrir að ýmsir keppinautar hafi reynt að hindra Hadríanus tókst honum að komast fyrstur til Trajanusar og lét hann vita að hann væri orðinn keisari. Í kjölfarið urðu Hadríanus og Trajanus nánir vinir og árið 100 kvæntist Hadríanus frænku Trajanusar, Vibiu Sabinu. Hjónabandið styrkti enn tengsl Hadríanusar við keisarann en samband hans við eiginkonuna virðist alla tíð hafa verið slæmt, þó þau hafi engu að síður verið í hjónabandi allt þangað til Sabina lést árið 136 eða 137.[2][3]

Í keisaratíð Trajanusar hlaut Hadríanus fjölmörg mikilvæg embætti; hann var herforingi í öðru stríðinu í Daciu (105 – 106), hann var praetor árið 106 og landstjóri í Pannoniu árið 107. Árið eftir varð hann ræðsimaður (consul) aðeins 32 ára gamall, en það var lágmarksaldur til að gegna því embætti. Árið 114 hélt Trajanus í herferð til Parþíu og lét hann þá Hadríanus stjórna hinu hernaðarlega mikilvæga skattlandi Syriu. Um sumarið 117 var Trajanus orðinn dauðvona og á leið til Rómar. Hann lést áður en þangað var komið og í kjölfarið var tilkynnt að hann hefði ættleitt Hadríanus á dánarbeðinu og gert hann að eftirmanni sínum. Sögusagnir voru þó á kreiki um að Trajanus hafi látist án þess að kjósa sér eftirmann en að eiginkona hans, Plotina, hafi leynt dauða hans í nokkra daga og sent öldungaráðinu í Róm bréf þar sem hún leitaðist eftir að tryggja stuðning þess við Hadríanus. Þegar sá stuðningur var tryggður hafi hún loks tilkynnt um dauða Trajanusar.[4]

Valdatími[breyta | breyta frumkóða]

Eitt af fyrstu embættisverkum Hadríanusar var að yfirgefa tvö stór skattlönd sem Trajanus hafði innlimað inn í Rómaveldi árið 116. Þetta voru Armenia og Mesopotamia, en Hadríanus taldi að ómögulegt yrði að verja þessi svæði gegn árásum Parþa. Hann lét herinn draga sig til baka vestur yfir Efrat fljót, sem myndaði eftir það eins konar náttúruleg landamæri ríkisins í austri.[5]

Staða Hadríanusar sem arftaki Trajanusar virðist ekki hafa verið fyllilega trygg í upphafi keisaratíðar hans, því ýmsir aðrir menn, sem gegnt höfðu mikilvægum embættum í stjórnartíð Trajanusar, komu einnig til greina. Á fyrsta embættisári Hadríanusar voru fjórir menn, sem allir höfðu verið ræðismenn í tíð Trajanusar, teknir af lífi. Þessar aftökur voru fyrirskipaðar af öldungaráðinu, hugsanlega fyrir tilstuðlan yfirmanns lífvarðaðasveitar Hadríanusar, Attianusar. Opinber ástæða aftakanna var sú að þessir menn áttu að hafa lagt á ráðin um samsæri gegn Hadríanusi. Ýmsir öldungaráðsmenn töldu þó að raunveruleg ástæða aftakanna væri sú að Hadríanus vildi losa sig við þessa valdamiklu keppinauta og leggja hald á auðæfi þeirra. Margir aðalsmenn snerust því gegn Hadríanusi. Hadríanus sjálfur hélt því fram að hann hefði ekki vitað af aftökunum fyrr en eftirá og sór þess opinberan eið að hann bæri ekki ábyrgð. Auk þess lofaði hann öldungaráðinu að engir fleiri úr þeirra röðum yrðu teknir af lífi án réttarhalds í hans keisartíð. Engu að síður hafði þessi atburður varanleg áhrif á samskipti Hadríanusar við öldungaráðið og var hann alla tíð óvinsæll á meðal meðlima þess.[6][7]

Brjóstmynd af Hadríanusi. Hann var fyrstur rómverskra keisara til að láta gera myndir af sér með alskegg.

Ferðalög og innanríkismál[breyta | breyta frumkóða]

Hadríanus ferðaðist meira og víðar um Rómaveldi en flestir aðrir keisarar. Hann ferðaðist meðal annars um landamærahéruð heimsveldisins og lagði áherslu á að styrkja herinn og landamæri ríkisins. Hadríanus lét af útþennslustefnu forvera síns og lagði meiri áherslu á varnir. Þekktasta dæmið um varnarstefnu hans er líklega Hadríanusarmúrinn á norðanverðu Bretlandi. Hadrianus lét hefja byggingu múrsins árið 121, þegar hann ferðaðist um svæðið, og átti hann að verja skattlandið Britanniu gegn árásum Picta, sem þá bjuggu í núverandi Skotlandi. Einnig lét hann styrkja varnarmannvirki í Germaniu þegar hann var á ferð á þeim slóðum.[8]

Annar tilgangur ferða Hadríanusar var að kanna innviði ríkisins og stjórn skattlandanna. Á þessum ferðalögum heimsótti hann nánast öll svæði ríkisins, frá Hispaniu í vestri til Judeu í austri og frá Egyptalandi í suðri til Bretlands í norðri. Hann var á ferðalögum á árunum 121 – 125, 128 – 132 og 134 – 136. Víða þar sem hann kom við lét hann halda mikilfenglegar skemmtanir og réðist í ýmis konar framkvæmdir. Hadríanus var mikill aðdáandi grískrar menningar og lista og hann heimsótti Aþenu þrisvar sinnum á ferðum sínum, en þar kom hann af stað ýmsum umfangsmiklum byggingaframkvæmdum.[9][10]

Hadríanus vann sér nokkra hylli meðal almennra borgara Rómar þegar hann ákvað að afskrifa skuldir sem hann taldi að ógerningur væri að innheimta. Heildarupphæðin var gríðarleg summa, talin vera í kring um 900 milljón silfurmyntir. Einnig styrkti hann sjóð sem Trajanus hafði komið á fót, alimenta, sem var notaður til þess að aðstoða fátæk börn. Reglulegur korninnflutningur til Rómar var gríðarlega mikilvægur fyrir almenna hylli keisaranna og því stóð Hadríanus fyrir miklum hafnarframkvæmdum í nágrenni Rómar, til þess að tryggja að nægt kornframboð væri í höfuðborginni.[11]

Innviðir Pantheon hofsins.

Á meðal frægustu mannvirkja sem Hadríanus lét byggja í Rómaborg eru Pantheon hofið og Grafhýsi Hadríanusar. Pantheon var endurbygging á hofi sem var byggt á tíma Ágústusar, en eyðilagðist í eldsvoða. Hvolfþakið á Pantheon er eitt þekktasta dæmið um mikilfenglegan rómverskan arkitektúr og bygging þess er gjarnan álitin hafa verið verkfræðilegt afrek þess tíma. Grafhýsi Hadríanusar var byggt skömmu fyrir dauða hans og þar var hann grafinn. Margir af eftirmönnum Hadríanusar voru einnig grafnir í grafhýsinu sem í dag er einnig þekkt sem Castel Sant'Angelo.

Einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Þó að Hadríanus hafi verið kvæntur Vibiu Sabinu í yfir 35 ár telja flestir nú að Hadríanus hafi verið samkynhneigður eða tvíkynhneigður. Hjónabandið var ekki hamingjusamt og sagt var að Sabina hafi á einum tímapunkti framkallað eigið fósturlát því hún vildi ekki ala upp skrímsli sem líktist Hadríanusi. Sabina átti í samböndum við aðra menn og þeirra á meðal var sagnaritarinn Suetonius, sem fyrir vikið var rekinn úr starfsliði keisarans. Fornar heimildir herma að Hadríanus hafi átt náin sambönd, bæði við karlmenn og við giftar konur. Frægast er þó samband hans við ungan mann að nafni Antinous. Antinous var aðeins táningur þegar Hadríanus og hann urðu mjög nánir og talið er að þeir hafi átt í ástarsambandi. Antinous var í fylgdarliði keisarans á ferðum hans um Rómaveldi en árið 130, þegar Hadríanus var á ferð um Egyptaland, drukknaði Antinous í Níl. Hadríanus syrgði Antinous mjög og stofnaði meðal annars nýja borg, Antinopolis, nálægt staðnum sem hann drukknaði, honum til heiðurs.[12][13]

Hadríanus lét byggja glæsilegt setur fyrir sjálfan sig í Tibur, um 30 km frá höfuðborginni. setrið var á meðal stærstu byggingaverkefna sem Hadríanus lét ráðast í og samanstóð það af um 30 byggingum á um 280 hektara svæði. Byggingar og svæði á landareigninni fengu svo nöfn ýmissa frægra staða sem Hadríanus hafði heimsótt á ferðum sínum. Bygging setursins tók tíu ár, frá 125 til 135 og síðustu ár valdatíma síns stjórnaði Hadríanus heimsveldinu að mestu frá setrinu. Hadríanus var mikill aðdáandi bókmennta og skrifaði sjálfur nokkur verk. Mest af því sem hann skrifaði hefur glatast, þar á meðal endurminningar hans, en nokkur ljóð hafa þó varðveist.[14][15]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Scarre (1995): 98–99.
  2. Scarre (1995): 99.
  3. Benario (2008).
  4. Benario (2008).
  5. Scarre (1995): 100.
  6. Scarre (1995): 100.
  7. Benario (2008).
  8. Scarre (1995): 101.
  9. Scarre (1995): 101–102.
  10. Benario (2008).
  11. Benario (2008).
  12. Scarre (1995): 100–104.
  13. Benario (2008).
  14. Scarre (1995): 102.
  15. Benario (2008).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Benario, Herbert W., „Hadrian (A.D. 117-138) Geymt 8 apríl 2011 í Wayback Machine.“ De Imperatoribus Romanis (2008).
  • Everitt, Anthony, Hadrian and the Triumph of Rome (New York: Randon House, 2009).
  • Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).


Fyrirrennari:
Trajanus
Keisari Rómaveldis
(117 – 138)
Eftirmaður:
Antonínus Píus