Gunnar Huseby

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gunnar Alexander Huseby (4. nóvember 192328. maí 1995) var íslenskur frjálsíþróttamaður sem varð tvívegis Evrópumeistari í kúluvarpi, setti fjölda Íslandsmeta í kúluvarpi og kringlukasti og Evrópumet í kúluvarpi og var með mestu afreksmönnum landsins í íþróttum. Gunnar var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ árið 2015.

Unglingsár[breyta | breyta frumkóða]

Gunnar var kjörsönur hjónanna Matthildar og Kristians M. Huseby en móðir hans hét Helga Bogadóttir. Hann hóf ungur að æfa bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir og var mjög fjölhæfur. Á drengjamóti ÍSÍ sumarið 1940, þegar hann var 16 ára, tók hann til dæmis þátt í 9 greinum af 12 sem keppt var í. Hann sigraði í kringlukasti og 400 metra hlaupi og setti drengjamet í báðum greinum, en bar einnig sigur úr býtum í langstökki, hástökki og kúluvarpi, varð annar í spjótkasti og þriðji í 80 metra hlaupi og þrístökki.[1] Hann var líka orðinn varamaður í meistaraflokki KR þegar hann hætti knattspyrnuiðkun.

Fyrsti Evrópumeistarinn[breyta | breyta frumkóða]

Gunnar varð stór og sterkur og einbeitti sér því að kastgreinum, einkum kúluvarpi og kringlukasti, og setti á næstu árum fjölda Íslandsmeta. Sumarið 1944 kastaði hann kúlu 15,50 m, sem var fjórða lengsta kast í heiminum það árið, en raunar fór lítið fyrir íþróttaiðkunum vegna heimsstyrjaldarinnar. Gunnari gáfust því engin færi á að etja kappi við erlendia íþróttamenn á þessum árum.

Það gerðist ekki fyrr en á Evrópumeistaramótinu í Osló 1946. Þar keppti hann í kúluvarpi og sigraði með yfirburðum, kastaði kúlunni 15,56 metra, 30 cm lengra en næsti maður.[2] Fyrr um sumarið hafði hann sett Íslandsmet í bæði kúluvarpi, 15,69 m, og kringlukasti, 45,40 m.

Gunnar átti við áfengisvandamál að stríða og varð það til þess að hann fór ekki á Ólympíuleikana í London 1948. Hann hélt þó áfram að vinna afrek á íþróttavellinum - ef hann mætti á annað borð til keppni - og sumarið eftir náði hann sér vel á strik, keppti á fjölda móta í Noregi, náði frábærum árangri og fjórbætti Íslandsmet sitt í kúluvarpi. Á móti í Haugasundi í Noregi 18. júlí setti hann Norðurlandamet, kastaði kúlunni 16,41 metra.[3]

Evrópumeistari öðru sinni[breyta | breyta frumkóða]

Á Evrópumeistaramótinu í Brüssel varði Gunnar titil sinn með glæsibrag, varpaði kúlunni 16,74 metra, sem var nýtt Íslands-, Norðurlanda- og Evrópumet og lengsta kast hans á ferlinum. Sigurkast Gunnars var nær hálfum öðrum metra lengra en kast silfurverðlaunahafans og sagði Gunnar sjálfur eftir á að hann hefði getað staðið fyrir aftan kasthringinn og unnið samt. [4] Kast Gunnars var þriðji besti árangur mótsins samkvæmt þeirri stigatöflu sem þá var notuð og Íslansmetið stóð í 17 ár. Öll köst hans í keppninni nema eitt voru yfir 16 metra. Sama ár setti hann Íslandsmet í kringlukasti, 50,13 m, sem stóð í mörg ár.

Gunnar var afar vinsæll, dáður og eftirsóttur íþróttamaður þrátt fyrir bresti sína, ekki bara á Íslandi, heldur einnig á Norðurlöndum og í Evrópu og var víða boðið að keppa á þessum árum, meðal annars á breska meistaramótinu.

Fangelsisvist[breyta | breyta frumkóða]

Áfengisvandmál Gunnars var þó síður en svo úr sögunni og eftir uppákomu í keppnisferð til London 1951 skrifuðu fjórir aðrir frjálsíþróttamenn bréf til Frjálsíþróttasambands Íslands og neituðu að keppa oftar með Gunnari erlendis.[5] Hann keppti þó á ýmsum mótum erlendis um sumarið en svo seig á ógæfuhliðina og í nóvember var hann handtekinn fyrir að hafa slegið og rænt mann á götu í Reykjavík og eytt fengnum í áfengi. Fyrir það var hann dæmdur í tólf mánaða fangelsi.[6]

Gunnar keppti því að sjálfsögðu ekki á Ólympíuleikunum í Helsinki sumarið 1952. Hann stundaði æfingar af kappi á Litla-Hrauni og hóf keppni aftur eftir að afplánun lauk. Þá setti hann meðal annars Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss. Um sumarið svipti Frjálsíþróttasambandið hann þó keppnisleyfi eftir að meistaramót Reykjavíkur var hafið.[7]

Síðustu ár ferilsins[breyta | breyta frumkóða]

Gunnar hélt áfram að keppa öðru hverju næstu árin en náði ekki sama árangri og áður, enda æfði hann lítið. En árið 1958 var hann aftur kominn í gott form, varpaði kúlunni yfir 16 metra í fyrsta sinn í mörg ár og ávann sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í Stokkhólmi. Þar komst hann í aðalkeppnina en náði sér ekki á strik. Hann naut þó mikilla vinsælda meðal áhorfenda eins og jafnan áður.

Gunnar keppti síðast árið 1962 og varð þá Íslandsmeistari í kúluvarpi í tíunda sinn og kastaði 15,75 metra. Á ferli sínum varð hann líka sex sinnum Íslandsmeistari í kringlukasti og tvisvar í sleggjukasti. Hann var fyrstur Íslendinga til að kasta kúlu yfir bæði 15 og 16 metra og kringlu yfir 50 metra. Þegar hann lagði skóna á hilluna heiðruðu þeir Albert Guðmundsson og Jakob Hafstein hann með bikar fyrir 25 ára keppnisferil.[8]

Gunnari tókst um síðir að vinna bug á áfengisfíkn sinni og var eftir það ötull félagi og leiðbeinandi í AA-samtökunum. Hann vann lengst af hjá Reykjavíkurborg, aðallega hjá Vatnsveitunni. Sambýliskona Gunnars lengst af var Rósa Þórðardóttir.

Gunnar var að einhverju leyti fyrirmynd drykkfellda afreksmannsins Hreggviðs í Djöflaeyjunni eftir Einar Kárason en persónan átti sér þó fleiri fyrirmyndir.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1] Drengjamót Í.S.Í. Tíminn, 16. ágúst 1940.
  2. [2]Gunnar Huseby Evrópumeistari í kúluvarpi. Morgunblaðið, 24. ágúst 1946.
  3. [3] Gunnar Huseby varpaði kúlunni 16,41 m í Haugasundi. Tíminn, 20. júlí 1949.
  4. [4] Gunnar Huseby Evrópumeistari í kúluvarpi. Morgunblaðið, 26. ágúst 1950.
  5. [5] Keppir Gunnar í Austur-Berlín með aðvörunarbréf í vasanum? Alþýðublaðið, 28. júlí 1951.
  6. [6] Huseby dæmdur í 12 mánaða fangelsi. Vísir, 4. mars 1952.
  7. [7] Var Gunnari Huseby neitað um að keppa til að hefnast á KR? Alþýðublaðið, 30. júlí 1953.
  8. [8] Heiðraður fyrir 25 ára keppnistíma. Alþýðublaðið, 29. ágúst 1962.
  9. [9] Fangar Djöflaeyjunnar. Gagnasafn Morgunblaðsins, sótt 21. apríl 2011.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Gunnar Alexander Huseby. Morgunblaðið, 7. júní 1995“.
  • „Afrek Huseby fylltu unga þjóð stolti. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 21. apríl 2011“.