Grelutóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Grelutóttir eru tóftir við Hrafnseyri í Arnarfirði á Vestfjörðum. Nafn sitt draga þær líklegast af Grelöðu Bjartmarsdóttur sem kemur fram í Landnámabók en nafngiftin er að öllum líkindum ný. Samkvæmt Landnámabók var Grelöð kona Áns Rauðfelds sem numu saman land í Arnarfirði eftir að hafa keypt af Erni nokkrum.

Jörðin sem Grelöð og Ánn keyptu hefur nefnst Eyri og staðið á eyrinni við núverandi Hrafnseyrará en síðar verið flutt upp fyrir sjávarbakka í hvamminn þar sem hann stendur nú. Þar hefur síðar búið Hrafn Sveinbjarnarson úr samnefndri íslendingasögu en í dag er bærinn kallaður Hrafnseyri. Þess má geta að Jón Sigurðsson, sjálfsstæðishetja, fæddist á Hrafnseyri þann 17. júní 1811.

Forkannanir[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1882 hélt Sigurður Vigfússon fornfræðingur til Hrafnseyris í leit að söguminjum. Hann áleit að þáverandi bæjarhús í Hvamminum væri upphafleg staðsetning bæjarins og minnist ekki á rústir á eyrinni. Þjóðminjavörður lét árið 1973 grafa skurð eftir stærstu rústinni endilangri og þegar mannvistarleifar komu í ljós lét hann friðlýsa það sem eftir stóð af svæðinu, en á árunum 1950-1960 hafði stórt svæði austan við Grelutóttir verið lagt undir nýrækt og líkur eru á að einhverjar rústir hafi skemmst við rótið.

Fornleifauppgreftir[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifauppgreftir á Grelutóttum tóku sér stað á árunum 1977 og 1978. Á þessum árum höfðu mjög fáir uppgreftir verið gerðir á Vestfjörðum en landnámsbær fannst við uppgröftinn. Hvort þetta sé raunverulegur landnámsbær Grelaðar og Áns má setja spurningamerki við en Landnáma er skrifuð mun síðar en meint Landnámstímabil var á Íslandi.

Landnám á Eyri hefur verið tímasett með mismunandi aðferðum í kringum árið 900 e. Kr. en búseta þar hefur ekki verið lengi og hann hefur verið yfirgefinn um eða fyrir árið 1000 e. Kr. Mögulegt er að bæjarlækurinn hafi átt þar hlut að máli en niðurstöður sýna að hann hefur átt það til að flæða yfir bakka sína með tilheyrandi eyðileggingu. Hefur þótt hagkvæmt að flytja bæinn ofar og í hvamminn.

Á Íslandi er mikil hefð fyrir aldursgreiningum með gjóskulagafræði og þykja þær mjög áreiðanlegar. Á Vestfjörðum er hinsvegar lítið um gjóskulög svo bærinn var tímasettur út frá C-14 aldursgreiningu, gerðfræði hluta (e. typology(en)), jarðlagafræði og rituðum heimildum. Eyri í Arnarfirði hefur verið miðlungsbær en fundist hafa bæði stærri bæir og minni.


1977[breyta | breyta frumkóða]

Frá 21. júní – 12. ágúst árið 1977 hrinti Þjóðminjasafnið af stað uppgrefti undir stjórn Mjallar Snæsdóttur, Guðmundar Ólafssonar og Kristínar Sigurðardóttur í tilefni yfirvofandi dánarafmælis Jóns Sigurðssonar. Grafnar voru upp 4 rústir, Víkingaaldarskáli, bakhús/viðbygging, jarðhús og smiðja.

Skáli (Rúst I): Veggir skálans eru mjög eyddir enda hlaðnir að mestu úr mold og að einhverjum hluta úr torfi. Innanmál hans eru 13.4 m x 5.4 m þar sem hann er breiðastur. Að utanmáli spannar hann 16 m á langhliðina. Inngangurinn hefur líklegast verið þiljaður með minni hurð í þilinu. Hlað er fyrir utan inngang úr stórum hellum. Í skálanum fannst mögulegt búr í vesturenda þar sem voru leifar af brenndum beinum og sáför þar sem ílát til geymslu hafa líklegast staðið. Eldstæði er í skálanum miðjum og í skálanum fundust alls 2 sörvistölur, 1 krít, 1 tinna, 1 jaspis, 3 járnhlutir, 1 grýtubrot, 5 naglar og 3 brýni. MYND

Bakhús (Rúst II): Bakhús hefur verið reist síðar úr skálanum til norðurs. Skálinn hefur annaðhvort verið nýtt búr eða svefnklefi. Bakhúsið er 4 m x 3 m að innanmáli. Ekkert fannst sem benti til ákveðinnar notkunar en þar fundust 5 grýtubrot úr erlendu klébergi, 2 naglar, 3 jaspisar 1 tinnumoli auk 4 járnhluta undir vesturvegg þess.

Jarðhús 1 (Rúst III): Stendur samsíða suðurvegg skálans og áfast honum en inngangur er líklegast utan frá. Inni í jarðhúsinu fannst ofn í suðvesturhorni, algjörlega hruninn, en húsið sjálft er 4.2 m x 2.5 m og hefur verið grafið um 1.2 m niður fyrir þáverandi yfirborð. Lítur út fyrir að bæjarlækurinn hafi flætt út fyrir bakka sína og yfir jarðhúsið, að skálanum austanverðum með þeim afleiðingum að jarðhúsið hefur hálffyllst af möl og grjóti. Í jarðhúsinu fundust 1 nagli, 1 brýnisbrot, 1 gref, 1 hnöttóttur fjörusteinn með gati, 1 járnkrókur og 1 járnnagli.

Smiðja 1 (Rúst IV): Fannst vegna þess að glytti á gjallmola og viðarkol í grasrótinni og þegar henni var flett af fannst gólflag. Smiðjan er 8 m x 4.4 m þar sem það er breiðast að innanmáli en veggjarmörk til vesturs eru vafasöm. Í smiðjunni fundust hlutir sem benda sterklega til þess að bræðsluofn hafi staðið í henni til að vinna járn úr mýrarrauða en einnig fundust þar brot úr bollasteinum og naglalöð með þremur götum til að slá nagla. Einnig hefur löðin virkað sem klaufjárn.


1978[breyta | breyta frumkóða]

Frá 26. júní – 10. ágúst ári síðar hélt Guðmundur Ólafsson áfram fornleifauppgrefti á Grelutóttum og fundust þá annað jarðhús og önnur smiðja.

Jarðhús II (Rúst V): Liggur um 30 m suðaustur af skálanum og 12 m austur frá Smiðju 1. Tvö byggingarskeið eru innan þessa jarðhúss, hið upprunalega jarðhús og svo síðara byggingarstig sem er grafið ofan í rúst þess löngu eftir að notkun hins fyrra var hætt. Jarðhúsið er 3.9 m x 2.4 m og er grafið niður um 1.2 m miðað við þáverandi yfirborð. Fyrra byggingarskeið: Í suðvesturhorni jarðhússins eru leifar af ofni sem er mun stærri en ofninn úr jarðhúsi 1. Í jarðhúsinu fundust 1 brýnisbrot, 1 hnífur, kljásteinar og rauður jaspis. Guðmundur hefur giskað á að Jarðhús 2 hafi verið kljásteinavefstaður auk baðhúss, en algengt hefur verið í öndverðu að baðhús hafi haft margvíslegt notagildi. Síðara byggingarskeið: Þar fannst helmingur steypts járnpotts og bendir til að einhverjir hafi hafist við í holunni og eldað mat. Mögulega stóð yfir létt yfirbygging eða eins konar byrgi.

Smiðja 2 (Rúst VI): Bæjarlæknum hefur einnig tekist að flæða yfir þessa byggingu og gera nær ósýnilega en byggingin fannst út frá loftmynd um 30 m suðvestur af skálanum. Smiðjunni virðist hafa veirð skipt upp í 5 ólík svæði en í honum hefur staðið skálofn. Engir munir fundust í smiðju 2.

Texti landnámu[breyta | breyta frumkóða]

Ǫrn hét maðr ágætr; hann var frændi Geirmundar heljarskinns; hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði svá vítt sem hann vildi; hann sat um vetrinn á Tjaldanesi, því at þar gekk eigi sól af um skammdegi. Ánn rauðfeldr, son Gríms loðinkinna ór Hrafnistu ok son Helgu dóttur Ánar bogsveigis, varð missáttr við Harald konung enn hárfagra ok fór hann því ór landi í vestrvíking; hann herjaði á Írland ok fekk þar Grélaðar dóttur Bjartmars jarls. Þau fóru til Íslands ok kómu í Arnarfjörð vetri síðar en Ǫrn. Ánn var enn fyrsta vetr í Dufansdal; þar þótti Grélǫðu illa ilmat ór jörðu. ǫrn spurði til Hámundar heljarskinns frænda síns norðr í Eyjafirði, ok fýstisk hann þangat; því seldi hann Áni rauðfeld lönd öll milli Langaness ok Stapa. Ánn gerði bú á Eyri; þar þótti Grélǫðu hunangsilmr ór grasi. Dufann var leysingi Ánar; hann bjó eptir í Dufansdal. Bjartmarr var son Ánar, faðir Végesta tveggja ok Helga, fǫður Þuríðar arnkǫtlu, er átti Hergils; þeira dóttir var Þuríðr arnkatla, er átti Helgi Eyþjólfsson. Þórhildr var dóttir Bjartmars, er átti Vésteinn Végeirsson. Vésteinn ok Auðr váru bǫrn þeira. Hjallkárr var leysingi Ánar, hans son var Björn þræll Bjartmars. Hann gaf Birni frelsi. Þá græddi hann fé, en Végestr vandaði um ok lagði hann spjóti gegnum, en Bjǫrn laust hann með grefi til bana.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Íslenzk fornrit I. Bls 176-178.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Guðmundur Ólafsson (1979). „Grelutóttir“. Í Kristján Eldjárn (ritstj.), Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1979. Reykjavík: Hið íslenzka fornleifafélag. Tengill í vefútgáfu
  • Sigurður Vigfússon (1882). „Rannsókn um Vestfirði, einkannlega í samanburði við Gísla sögu Súrssonar“. Í Sigurður Vigfússon (ritstj.), Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1883. Reykjavík: Hið íslenzka fornleifafélag.Tengill í vefútgáfu
  • Íslenzk fornrit I. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist