Garðar (Grænlandi)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Garðar voru aðalkirkjustaður og biskupssetur Grænlendinga hinna fornu. Þar er nú byggðakjarninn Igaliku sem þýðir „yfirgefna eldstæðið”. Garðar eru innst í Einarsfirði sem er næsti fjörður austan Eiríksfjarðar í Eystribyggð miðri.

Miklar rústir frá tímum norrænna manna er að finna á Görðum. Þar á meðal rústir krosskirkju sem byggð var úr sandsteini á 12. öld og mælist 27x16 metrar. Einnig rústir veislusalar sem var um 130 m² á stærð og fjós fyrir 60 kýr.

Í Grænlendinga þætti er sagt frá því að Sokki Þórisson, höfðingi í Brattahlíð, hafi lagt fram þá tillögu í byrjun 12. aldar að stofnað yrði biskupsdæmi á Grænlandi. Tillaga þessi fékk mikinn stuðning landsmanna og var lögð fyrir Sigurð Jórsalafara Noregskonung. Hann samþykkti hugmyndina og skipaði munkinn Arnald í embættið. Hann var vígður biskup yfir Grænlandi í dómkirkjunni í Lundi 1124 og komst til Grænlands eftir mikla svaðilför árið 1126.

Bygging dómkirkju hófst um 1126 og var hún helguð heilögum Nikulási, verndara sæfara. Í norðurkapellu dómkirkjunnar er biskupsgröf. Sá sem í henni lá bar biskupshring á baugfingri hægri handar og hvíldi höndin á biskupsstafnum, 143 cm löngum staf úr aski, með höfði sem var skorið út í rostungstönn. Mögulega er þar grafinn Jón biskup sem lést árið 1209.

Biskupar á Görðum[breyta | breyta frumkóða]

Ýmis skjöl eru til um biskupa Grænlendinga hinna fornu og hefur þeim verið safnað í Grønlands Historiske Mindesmærker.

Í upphafi kristni heyrðu kirkjurnar á Grænlandi eins og aðrar kirkjur á Norðurlöndum undir erkibiskupinn í Hamborg-Bremen en árið 1103 voru þær lagðar undir erkibiskupinn í Lundi. En frá árinu 1152 heyrðu kirkjur i Noregi, Mön, Orkneyjum, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi undir erkibiskupinn í Niðarósi (nú Þrándheimi).

Arnaldur biskup þjónaði á Görðum allt fram til 1150 þegar hann snéri aftur til Noregs. Þar var hann vígður biskup á Hamar árið1152. Jón Knútur tók við sem biskup og þjónaði í Görðum frá 1150 til 1186. Þriðji biskupinn á Görðum var Jón Árnason sem hafði viðurnefnið smyrill. Hann tók við embætti 1189. Á árunum 1202-1203 tók hann sér ferð á hendur alla leið til Rómarborgar að hitta páfann. Hann þjónaði sem biskup í Görðum til dauðadags 1209 og var grafinn þar. Sennilega er það hann sem er grafinn í norðurkapellu dómkirkjunnar.

Eftirmaður Jóns smyrils var Þór Helgi, hann kom þó ekki til Grænlands frá Noregi fyrr en 1212. Hann var biskup til dauðadags 1230. Nikulás, eftirmaður hans var vígður 1234. Nikulás kom þó ekki til Grænlands fyrr en 1239 og hann lést 3 árum síðar. Ólafur biskup var vígður 1242 en tók ekki við embætti fyrr en 1247. Hann var á ferðum erlendis 1264-1280. Næsti biskup var Þór Bokki sem kom til Garða 1289 og snéri aftur til Noregs 1309.

Árni biskup þjónaði í Görðum frá 1315 fram til 1347. Fréttir voru þá hættar að berast greiðlega milli Grænlands og Noregs og varð það meðal annars til þess að Jón skalli var vígður nýr biskup til Garða árið 1343 en frétti síðar að Árni biskup væri enn á lífi og gegndi sínu starfi. Jón skalli fór því aldrei til Grænlands. Eftir að Árni biskup dó var ekki vígður nýr Grænlandsbiskup fyrr en 1368 þegar Álfur biskup fékk embættið. Hann var biskup á Görðum fram til 1378 og þjónaði þar síðastur biskupa.

Heimildir:[breyta | breyta frumkóða]

Grønlands Forhistorie, Gyldendal København, 2005. ISBN 87-02-01724-5

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]