Brennuöld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Galdramál á Íslandi)

Brennuöldin kallast tímabilið 1625-1690, frá því fyrsti staðfesti brennudómurinn var kveðinn upp yfir Jóni Rögnvaldssyni á Meleyrum í Svarfaðardal og þar til síðasti brennudómurinn féll yfir Klemusi Bjarnasyni á alþingi árið 1690 (þeim dómi var þó aldrei framfylgt). Fyrsta galdramálið kom upp á Íslandi 1554 en það síðasta kom fyrir dómstól árið 1720.[1] Áður en brennuöldin gekk formlega í garð höfðu þó þrjár konur verið brenndar á báli á Íslandi. Fyrsta brennan átti sér stað á Kirkjubæ á Síðu árið 1343 þegar nunna ýmist nefnd Katrín eða Kristín var brennd á báli því að hún "gefist hafði púkanum með bréfi" og einnig hafði hún "misfarið með guðs líkama og ... lagst með mörgum leikmönnum".[2] Heimildir eru um að "tilberamóðir" hafi verið brennd á báli árið 1580 eins og fram kemur í Íslandslýsingu Resens (Resen 1991: Íslandslýsing. Safn Sögufélagsins 3. Reykjavík). Árið 1608 herma dómabækur að Guðrún Þorsteinsdóttir í Þingeyjarþingi hafi verið brennd á báli en hún hafði "brennt til dauðs barn Ólafs Jónssonar, var hún dæmd dræp og síðan brennd eptir dómi 1608".[3] Af þessu má ráða að a.m.k. fjórar konur hafa verið brenndar á báli á Íslandi þó að einungis ein þeirra hafi verið líflátin á umræddu tímabili sem nefnt er brennuöldin.

Í doktorsritgerð Ólínu Þorvarðardóttur árið 2001 kemur fram að 103 galdramál voru tekin fyrir í að minnsta kosti 152 málafærslum á alþingi á tímabilinu 1593-1720. Auk þess komu fjórum sinnum upp galdramál í Skálholtsskóla sem vörðuðu 22 skólapilta. Utan alþingis spruttu því upp 31 mál og heildarfjöldi galdramála á Íslandi er þannig a.m.k. 134 mál. Í dómabókum er að finna 25 staðfesta brennudóma. Ellefu líflátsdómar voru kveðnir upp fyrir galdur á alþingi á umræddu tímabili en tveimur þeirra var aldrei framfylgt. Fjórtán einstaklingar voru brenndir í héraði á sjálfri brennuöldinni, einn var hugsanlega líflátinn með öðru móti árið 1580, annar einstaklingur fyrir villutrú 1343 eins og fyrr segir og þriðja manneskjan var brennd fyrir barnsmorð. [4]


Síðasta héraðsbrennan á Íslandi fór fram í Arngerðareyrarskógi árið 1683 þegar Sveinn Árnason var brenndur þar á báli. Síðasta brennan á alþingi fór fram tveim árum síðar þegar Halldór Finnbogason úr Þverárþingi vestan Hvítár var líflátinn þann 4. júlí 1685.[5]

Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Galdramál á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Galdramál á Íslandi voru angi af galdrafárinu í Evrópu á 17. öld.

Árið 1654 voru þrír menn brenndir fyrir galdur í Trékyllisvík á Ströndum. Þær brennur mörkuðu upphaf galdrafársins á Íslandi sem nefnt hefur verið „brennuöld“. Árið 1625 eða 29 árum áður var fyrsti maðurinn brenndur fyrir galdur, Jón Rögnvaldsson á Melaeyrum í Svarfaðardal.

Í kjölfar brennanna í Trékyllisvík voru sextán menn og ein kona brennd til viðbótar. Síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram í Arngerðareyrarskógi við Djúp árið 1683. Tveimur árum seinna var maður brenndur á alþingi fyrir guðlast og hefur það mál stundum verið talið með galdramálum, vegna refsingarinnar.

Síðasti brennudómurinn á Íslandi var kveðinn upp árið 1690. Þá var Klemus Bjarnason úr Steingrímsfirði á Ströndum dæmdur á Öxárþingi til að brennast á báli fyrir að hafa valdið veikindum húsfreyjunnar á Hrófbergi. Dómnum var svo breytt með konungsbréfi og Klemus dæmdur í útlegð. Klemus dó úr sótt í fangelsi í Kaupmannahöfn tveimur árum síðar.

Um 170 manns voru ákærðir fyrir kukl eða annars konar galdrastarfsemi á Íslandi. Þrátt fyrir fordæmi frá meginlandi Evrópu voru konur aðeins um tíu prósent grunaðra. Ákærurnar snerust flestar um notkun forboðinna kúnsta til að valda fólki eða búfénaði skaða eða ólöglega notkun galdrabóka og galdrastafa. Ekki snerust þó öll galdramál um skaða á fólki eða eignum heldur var fólk einnig ákært fyrir að nýta galdra í eigin þágu, svo sem til að bæta veður eða heilsu sína eða annarra. 21 Íslendingur voru brenndir fyrir galdrastarfsemi og var aðeins einn af þeim kona. Að auki voru fjórir líflátnir fyrir brot sem á einhvern hátt tengdust göldrum.

Ekki var að fullu hægt að sanna sekt sumra galdramannanna en þó voru þeir samt brenndir. Réttarkerfi Íslands var þannig gert að mestu máli skipti framsögn háttsettra manna og eiðar sveitunga, en minna máli sannannir gegn sakborningum.

Galdrabrennur á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

  • 1625 - Jón Rögnvaldsson á Melaeyrum í Svarfaðardal.
  • 20. september 1654 - Þórður Guðbrandsson frá Trékyllisvík á Ströndum (Undrin í Trékyllisvík).
  • 20. september 1654 - Egill Bjarnason frá Trékyllisvík á Ströndum (Undrin í Trékyllisvík).
  • 25. september 1654 - Grímur Jónsson frá Trékyllisvík á Ströndum (Undrin í Trékyllisvík).
  • 1656 - Jón Jónsson eldri frá Kirkjubóli í Skutulsfirði (Kirkjubólsmálið).
  • 1656 - Jón Jónsson yngri frá Kirkjubóli í Skutulsfirði (Kirkjubólsmálið).
  • 1667 - Þórarinn Halldórsson frá Birnustöðum í Ögursveit við Ísafjarðardjúp.
  • 1669 - Jón Leifsson frá Selárdal í Arnarfirði (Selárdalsmálin).
  • 1669 - Erlendur Eyjólfsson frá Ströndum (Selárdalsmálin).
  • 1671 - Sigurður Jónsson úr Ögurhreppi við Ísafjarðardjúp.
  • 1674 - Páll Oddsson í Ánastaðakoti á Vatnsnesi.
  • 1674 - Böðvar Þorsteinsson frá Snæfellsnesi.
  • 1675 - Magnús Bjarnason úr Arnarfirði (Selárdalsmálin).
  • 1675 - Lassi Diðriksson úr Arnarfirði (Selárdalsmálin).
  • 4. júlí 1677 - Bjarni Bjarnason úr Breiðdal í Önundarfirði.
  • 1677 - Þorbjörn Sveinsson (Grenjadals-Tobbi) úr Mýrarsýslu.
  • 1678 - Stefán Grímsson brenndur í Húnavatnssýslu.
  • 1678 - Þuríður Ólafsdóttir úr Skagafirði, vinnukona í Selárdal (Selárdalsmálin).
  • 1678 - Jón Helgason sonur Þuríðar (Selárdalsmálin).
  • 1681 - Ari Pálsson hreppsstjóri úr Arnarfirði.
  • 1683 - Sveinn Árnason úr Ísafjarðarsýslu (Selárdalsmálin).
  • 1685 - Halldór Finnbogason, Borgarfirði.[6]


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.

Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1022-1998.

Bogi Benediktsson á Staðarfelli 1881-1932. Sýslumannaæfir, I-V. bindi. Reykjavík.

Ólína Þorvarðardóttir 2001. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík.

Resen, Peder Hansen 1991. Íslandslýsing. (Safn Sögufélagsins 3). Reykjavík.

Storm, Gustav 1888: Islandske annaler indtil 1578. (Det norske historiske Kildeskriftfonds skrifter - 21). Christiania.

Zarrillo, Dominick. (2018). The Icelandic Witch Craze of the Seventeenth Century (Unpublished master's thesis). The College of New Jersey. Retrieved 2018, from https://www.academia.edu/36665790/The_Icelandic_Witch_Craze_of_the_Seventeenth_Century

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
  2. Storm 1888: Islandske annaler indtil 1578, s. 402.
  3. Bogi Benediktsson á Staðarfelli 1881. Sýslumannaæfir I., s. 90; Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-98.
  4. Ólína Þorvarðardóttir 2001. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík. s. 372.
  5. Ólína Þorvarðardóttir 2001. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík. s. 372.
  6. Ólína Þorvarðardóttir 2001. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík.