Gísli Vigfússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gísli Vigfússon (16376. janúar 1673) var skólameistari í Hólaskóla, meistari í heimspeki og síðar bóndi á Hofi á Höfðaströnd.

Gísli var sonur Vigfúsar Gíslasonar sýslumanns, sem einnig hafði verið skólameistari á Hólum, og konu hans Katrínar Erlendsdóttur. Bróðir hans var Bauka-Jón Vigfússon Hólabiskup. Gísli fór utan til háskólanáms um 1658 og ferðaðist síðan um Þýskaland, Belgíu og England og var fjögur ár í þeirri ferð. Hann kom svo heim 1663 og varð skólameistari á Hólum. Því embætti gegndi hann í fjögur ár. Árið 1667 fór hann svo aftur til Kaupmannahafnar til náms og vísindaiðkana, var þar í tvö ár og varð meistari í heimspeki.

Hann kom aftur til Íslands árið 1669. Árið eftir giftist hann Guðríði, dóttur Gunnars Björnssonar prests á Hofi á Höfðaströnd, sem hann hafði trúlofast áður en hann sigldi, og bjuggu þau þar, en Gísli dó árið 1673. Þau áttu einn son, Vigfús Gíslason bónda á Hofi.

Þegar Gísli var erlendis í seinna skiptið orti hann þrjár vísur til unnustu sinnar. Fyrsta vísan er talin ein elsta heimild um flekaveiðar við Drangey.

Langt er síðan ég langvíu sá
liggjandi í böndum.
Eg er kominn oflangt frá
öllum mínum löndum.
Norðurfjöllin nú eru blá,
neyð er að slíku banni.
Eg er kominn oflangt frá
ástar- festu ranni.
Ýtar sigla í önnur lönd
auðs að fylla sekki.
Eigðu Hof á Höfðaströnd
hvort þú vilt eða ekki.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Skólameistaratal í Hólaskóla". Norðanfari, 51.-52. tölublað, 1883“.
  • „„Saga latínuskóla á Íslandi til 1846". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14.árgangur 1893“.
  • „Lausavísnasafn. Á vef Skjalasafns Skagfirðinga. Sótt 27. júní 2011“.