Gísli Þórðarson (lögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gísli Þórðarson (f. 1545, d. fyrir 28. mars 1619) var íslenskur lögmaður á 16. og 17. öld. Hann bjó á Innra-Hólmi á Akranesi og síðar á Arnarstapa.

Foreldrar Gísla voru Þórður Guðmundsson lögmaður og kona hans, Jórunn Þórðardóttir. Þegar faðir hans lét af lögmannsembætti á Alþingi 1606 kom hann því til leiðar að Gísli var kjörinn lögmaður sunnan og austan í hans stað, og var hann þá kominn um sextugt. Gísli var mikill fjáraflamaður og varð stórauðugur, keypti margar jarðir og rak stórbú á Innra-Hólmi, hafði þar tólf vinnumenn. Hann fékk líka Stapaumboð og bjó á Arnarstapa síðustu árin.

Gísli lenti í deilum við Herluf Daa höfuðsmann, sem sakaði hann meðal annars um að hafa leyft enskum manni að stunda fálkaveiðar, og var hann dæmdur í sektir. Hann sagði þá af sér lögmannsembættinu og kom ekki til Alþingis 1614, en Gísli Hákonarson varð lögmaður í hans stað. Sagt var að hann hefði haft áhrif á Herluf Daa í þessu máli.

Kona Gísla var Ingibjörg, dóttir Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda og konu hans Guðrúnar Sæmundsdóttir. Þau áttu fjölda barna. Á meðal þeirra voru Hinrik sýslumaður á Innra-Hólmi, Steindór sýslumaður á Innra-Hólmi og Knerri, Ástríður kona Jóns eldri Magnússonar í Haga og Guðrún kona Magnúsar Björnssonar lögmanns.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Þórður Guðmundsson
Lögmaður sunnan og austan
(16061613)
Eftirmaður:
Gísli Hákonarson