Fyrsta stríð Englands og Hollands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orrustan við Scheveningen, 10. ágúst 1653 eftir Jan Abrahamsz Beerstraaten frá um 1654.

Fyrsta stríð Englands og Hollands var röð sjóorrusta háð milli flota Hollenska lýðveldisins og Enska samveldisins 1652 til 1654. Stríðið var það fyrsta í röð fjögurra styrjalda milli landanna á 17. og 18. öld. Átökin hófust vegna deilna um verslun Hollendinga í enskum nýlendum og stuðning þeirra við útlæga enska konungssinna. Enskir sjóræningjar herjuðu á hollensk kaupskip og fiskiskip og enski flotinn hertók 27 kaupskip sem rofið höfðu hafnbann gegn ensku nýlendunni Barbados snemma árs 1652. 1651 samþykkti enska þingið siglingalög sem meinuðu öðrum en enskum skipum vöruflutninga til enskra hafna. Lögunum var stefnt gegn hinni öflugu milliríkjaverslun Hollendinga.

Upphaflega gekk Hollendingum betur og þeir náðu yfirráðum yfir Ermarsundi og Norðursjó fyrir árslok 1652, en í mars 1653 tókst enska flotanum að hrekja skip Hollendinga úr Ermarsundi. Enski flotinn var betur búinn herskipum en sá hollenski þar sem Hollendingar höfðu lagt meiri áherslu á uppbyggingu landhers árin á undan. Eftir orrustuna við Scheveningen 10. ágúst 1653 þar sem Hollendingar biðu ósigur hófust langar friðarviðræður. Oliver Cromwell reyndi fyrst að fá Holland til að gerast aðili að Enska samveldinu, síðan að fá þá til að hætta stuðningi við Dani gegn Svíum og loks að reka enska konungssinna úr landi, en Hollendingar neituðu þessu öllu. Að lokum var samið um frið 8. maí 1654 með Westminster-sáttmálanum þar sem Hollendingar féllust á að einungis ensk skip eða skip frá upprunalandi varningsins hefðu leyfi til vöruflutninga til enskra hafna.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.