Frumbyggjar Ameríku

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Amerískir indíánar árið 1916.

Frumbyggjar Ameríku (oft kallaðir Indíánar) eru hópar fólks af ýmsu þjóðum og afkomendur þeirra, sem bjuggu í Ameríku áður en Evrópubúar komu þangað fyrst. Indíánar skiptast í mikinn fjölda kynþátta og ættflokka, en gerður er greinarmunur á þeim og Inúítum og Aljútum.

Norrænir menn voru fyrstir Evrópumanna til að líta frumbyggja Ameríku augum og áttu við þá nokkur samskipti í upphafi 11. aldar, flest miður friðsamleg. Þegar Kristófer Kólumbus kom síðan til Ameríku, nærri 500 árum seinna, hitti hann þar fyrir frumbyggjana. Hann sagði drottningu sinni og konungi frá því að hann hafi séð frumbyggja, talaði vel um þá og var sannfærður um að geta kennt villimönnunum í Ameríku hætti Evrópumanna. Næstu fjórar aldir, frá 1492–1890 fluttu milljónir Evrópubúar til nýja heimsins en tóku með sér lifnaðarhætti sínu og venjur. Eftir að Kólumbus hafði dvalið um stund hjá nokkrum þjóðflokkum rændi hann höfðingjum þeirra og flutti þá með sér til Spánar til að sýna konungi sínum og drottningu.

Það tímabil sem mest skipti sköpum fyrir frumbyggja í Ameríku voru árin 1860–1890 og frá þessum árum er stærstur hluti skráðra heimilda og athugana. Þetta tímabil einkenndist af græðgi, ofbeldi og hörku og á þessum árum gerðu innflytjendur næstum út af við hina fornu menningu amerískra frumbyggja. Flestar þær heimildir sem til eru um menningu þeirra eru í skáldsögum, bókum og bíómyndum. Evrópumenn byrjuðu fljótt að ræna og drepa villimennina sem Spánarkonungur vildi láta skíra til kristni. Varnir Indíána máttu sín lítils gegn byssum og sverðum Spánverja og heilum ættbálkum, sem samanlagt töldu hundruð þúsunda manna var útrýmt á tæpum áratug frá því að Kólumbus steig fæti á strönd San Salvadors þann 12. október 1492.

Hvíti maðurinn kom ekki bara með sjálfan sig og búfé sitt heldur einnig með fjölda sjúkdóma eins og til dæmis ýmsa barnasjúkdóma og mislinga. Voru þeir ekki lengi að stinga sér niður meðal heimamanna og þurrkuðu út heilu ættbálkana. Einnig urðu hvítir menn varir við nýja sjúkdóma sem þeir þekktu ekki áður og má þar sem dæmi nefna kynsjúkdóma eins og til dæmis lekanda og sárasótt.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi sagnfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.