Frankfurt (Oder)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Frankfurts Lega Frankfurts í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Brandenborg
Flatarmál: 147,85 km²
Mannfjöldi: 58.018 (31. des 2013)
Þéttleiki byggðar: 392/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 28 m
Vefsíða: www.frankfurt-oder.de

Frankfurt an der Oder er fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Brandenborg með 58 þúsund íbúa (2013). Hún er meðal austustu borga Þýskalands og liggur við pólsku landamærin. Sem slík er hún mikilvægasta landamærastöð milli Þýskalands og Póllands.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Frankfurt liggur við ána Odru við pólsku landamærin austast í Brandenborg. Næstu borgir eru Berlín til vesturs (40 km), Szczecin (Stettin) í Póllandi til norðurs (80 km) og Poznan í Póllandi til austurs (120 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Frankfurt sýnir gamalt borgarvirki með rauðum hana við hliðið. Efst trónir rauði örninn. Ekki er nákvæmlega vitað hvernig haninn komst í þetta merki, en það hafði myndast þegar árið 1294. Ein skýringin er sú að frankar, sem stofnuðu borgina, voru kallaðir gallar (fornir íbúar Frakklands en frankar bjuggu þar einnig) en latneska orðið gallus merkir hani. Rauði örninn stendur fyrir markgreifadæmið Brandenborg.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Frankfurt hét áður Frankenforde og Franckvurde. Þjóðverjar voru áður almennt kallaðir frankar. Furt merkir árvað. Bærinn var reistur af þýskum mönnum (ekki slövum) á hentugum stað þar sem auðveldara var að komast yfir ána Odru.[1]

Saga Frankfurts[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Elsta myndin af Frankfurt er frá 1548

Bærinn myndaðist snemma á 13. öld við stað þar sem tiltölulega auðvelt var að komast yfir ána Odru. Það voru þýskir kaupmenn frá frankalandi sem settust þar að, en eigandi landsins (og þar með borgarinnar) var Hinrik hinn skeggjaði frá Slésíu. 1253 fékk Frankfurt borgarréttindi og 1294 var fyrsta innsigli borgarinnar gert. Það er enn í dag notað sem skjaldarmerki borgarinnar. Upprunalega innsiglið var vandlega geymt í gegnum aldirnar, en týndist í heimstyrjöldinni síðari. 1326 réðist Stefán II biskup í Lebus við Odru á borgina Frankfurt ásamt pólsku og litháískum her. Þeir gerðu svo í nafni páfa (Jóhannesar XXIII), þar sem borgarbúar neituðu að greiða tíund. Þeir náðu ekki að vinna borgina, en páfi bannfærði borgina í heild og þar með alla borgarbúa. Stefán tók þá til við að eyða nærsveitum. Aðstæður skánuðu ekki fyrr en Lúðvík IV mætti á staðinn og hrakti Pólverja burt. Bannfæringin var hins vegar ekki tekinn til baka fyrr en 1334, þar sem keisari og páfi voru miklir fjandmenn.

Stríðstímar[breyta | breyta frumkóða]

Frankfurt 1850. Áin Odra í forgrunni.

Á 15. öld gekk borgin í Hansasambandið. Óvíst er hvenær nákvæmlega það gerðist, en hún var meðlimur í sambandinu allt til 1518. Það var kjörfurstinn Jóakim I sem sleit samskiptum borgarinnar við Hansasambandið. 1432 réðust hússítar frá Bæheimi inn í héraðið og eyddu nærsveitum Frankfurt. Þeir réðust einnig á borgina sjálfa, en fengu ekki unnið hana. 1506 var háskóli stofnaður í borginni. Strax á fyrsta ári voru nemendur 950 og voru því fleiri en í nokkrum öðrum þýskum háskóla á þessum tíma. Aðeins nokkrum árum seinna hóf Marteinn Lúther að mótmæla gegn kaþólsku kirkjunni. Ýmsir valdamiklir menn, eins og biskupar og aflátspredikarinn Johannes Tetzel, andmæltu hugmyndum Lúthers af þvílíku offorsi í Frankfurt að allar hugmyndir Lúthers voru stranglega bannaðar í háskólanum. Því yfirgáfu rúmlega helmingur allra stúdenta háskólann, sem við það varð að meðalskóla. Siðaskiptin fóru því aldrei fram í borginni á 16. öldinni. Borgin var kaþólsk langt fram eftir 30 ára stríðinu. 1626 ákváðu borgarbúar að mynda eigin her til varnar borginni í 30 ára stríðinu. Þessi atburður er reyndar upphafið að herveldi Brandenborgar og seinna Prússlands. Á tímabili bjó Wallenstein herforingi um sig í borginni á milli stríða. 1631 flúði Tilly einnig inn í borgina er Svíar nálguðust. Tilly flúði með her sinn, en Gústaf Adolf II, Svíakonungur, hertók borgina, rændi hana og ruplaði. Þeir yfirgáfu hana ekki fyrr en skæð pest gaus upp. Í henni létust þúsundir borgarbúa. Þeir voru 12 þúsund í upphafi stríðs en voru aðeins rétt rúmlega 2.000 við lok þess. 1668 fóru fyrstu blóðskipti Þýskalands fram í Frankfurt. Læknirinn Mattheus Purmann reyndi að meðhöndla holdsveikan mann með því að skipta hægt og rólega á blóði hans með blóði sauðkindar. Aðgerðin heppnaðist vel. Sjúklingurinn bæði lifði af og læknaðist af meini sínu. Þetta var um 200 árum áður en læknirinn Karl Landsteiner uppgötvaði ABO blóðflokkakerfið.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Maríukirkjan nær gjöreyðilagðist í heimstyrjöldinni síðari

1806 hertóku Frakkar borgina og héldu henni til 1813. Frakkar settu upp herstöð í Frankfurt og notuðu hana sem bækistöð fyrir Rússlandsleiðangur Napoleons. 1811 var háskólanum lokað í borginni. Ástæðan fyrir því var sú að Humboldt-háskólinn í Berlín var stofnaður og fóru nemendur því þangað. Því var háskólinn í Frankfurt færður til Breslau, sem þá var enn hluti af Prússlandi. Breslau er í Póllandi í dag. Eftir ósigur Napoleons í Rússlandi veturinn 1812/13, streymdu franskir hermenn í gegnum Frankfurt frá janúar til mars 1813. Síðustu hermennirnir brenndu brúna yfir ána Odru af ótta við Rússa. Síðustu Frakkar yfirgáfu borgina 17. mars. Borgin sjálf kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. En heimstyrjöldin síðari reyndist borginni hörmungartími. Fyrstu loftárásir hófust 1944. Frá og með janúar 1945 tók borgin við þúsundum flóttamanna úr austurhéruðum Þýskalands, enda voru Rússar að hrekja þýska herinn í vesturátt. Talið er að um 300 þúsund flóttamenn hafi á vormánuðum 1945 haft viðdvöl í Frankfurt. Þegar Rússar nálguðust var borginni breytt í stórt hervígi, enda var þetta helsta leiðin til Berlínar. Borgarbúum var meinað að yfirgefa borgina og næstu vikur fylltust borgarbúar ótta. Sjálfsmorð og gripdeildir voru daglegt brauð. Menn voru skotnir fyrir litlar sakir. Í febrúar kom Joseph Goebbels til Frankfurt til að stappa stálinu í hermenn og almenna borgara. Tveimur mánuðum seinna, 16. apríl, hófst stórsókn Rússa, bæði með stórskotaliðinu og með loftárásum rússneska flughersins. Skemmdir urðu gífurlegar og mannfallið mikið. Mikið æði greip um sig. Nasistar sprengdu brúna yfir Odru en allt kom fyrir ekki. Rússar hertóku borgina en Þjóðverjar flúðu hver sem betur gat. 93% miðborgarinnar hafði þá brunnið til kaldra kola. Frankfurt varð hluti af sovéska hernámssvæðinu. Með tilfærslu Póllands í stríðlok varð áin Odra landamæraá milli Þýskalands og Póllands. Frankfurt varð þá að landamæraborg. 1952 fór fram undirritun þess efnis í Frankfurt að árnar Odra (á þýsku: Oder) og Neisse skyldu framvegis vera landamæri ríkjanna. Oder-Neisse-línan hefur síðar verið staðfest (t.d. með Varsjár-samningnum 1970) og mynda þau landamæri ríkjanna enn í dag. Síðustu rússnesku hermennirnir yfirgáfu ekki Frankfurt fyrr en 1994.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Í Oderturmlauf er hlaupið upp 150 metra háa skrifstofubyggingu

Oderturmlauf er svokallað hlaup upp 150 metra háa skrifstofubyggingu í borginni. Þrepin eru 511 og metið á Markus Rebert, en hann hljóp á 2:26 mínútum árið 2009. Hlaupið hefur farið fram síðan 2002.

Frankfurter Festtage der Musik er tónlistarhátíð sem helguð er Carl Philipp Emanuel Bach, syni Johanns Sebastians.

Kleist-hátíðin er haldin síðan 1992, en hún er helguð rithöfundinum Heinrich von Kleist sem fæddist í borginni. Þá fara fram leiksýningar, upplestrar, gjörningar, tónlist og margt annað.

Bunter Hering (litskrúðug síld) er Hansahátíð í borginni, en það er nokkurs konar miðaldahátíð.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Frankfurt viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

(1777) Heinrich von Kleist skáld

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Ráðhúsið í Frankfurt
  • Maríukirkjan er mikilvægasta kirkjan í Frankfurt. Hún var reist á 14. öld, en smíðinni lauk ekki fyrr en á 16. öld. Turnarnir voru tveir, en 1826 hrundi annar turninn. Upp frá því var kirkjan með aðeins einn turn. Kirkjan nær gjöreyðilagðist í seinna stríðinu 1945. Turninn sjálfur hrundi þó ekki fyrr en ári síðar. Hann var ekki endurreistur nema að hluta og er aðeins með örlitla spíru. Í kirkjunni er fornbókasafn.
  • Ráðhúsið í Frankfurt var reist 1253 og umbreytt 1607-1609. Húsið stórskemmdist í seinna stríðinu og var endurriest 1953.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls 102.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Beevor, Anthony. Fall Berlínar 1945. Bókaútgáfan Hólar. 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Frankfurt (Oder)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.