Fróðá

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fróðá er eyðibýli í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi, í mynni Fróðárdals við þjóðveginn upp að Bugsvötnum. Fróðá hefur verið í eyði síðan árið 1929. Þar var kirkja fram til 1892, að hún var flutt til Ólafsvíkur. Hjá Fróðá eru vegamót, þar sem má komast á veginn norður með Snæfellsnesströnd og á annan veg suður yfir Fróðárheiði til Breiðuvíkur. Frá Fróðá liggja einnig leiðir vestur til Ólafsvíkur og austur til Búlandshöfða.

Fróðárundur[breyta | breyta frumkóða]

Fróðá er þekkt fyrir Fróðárundur, dularfulla atburði sem segir frá í Eyrbyggju. Sumarið fyrir undrin hafði rignt yfir staðinn blóði að því er segir í sögunni, en sjálf undrin hófust vegna vofveiflegs dauða heimamanna. Þeim atburði fylgdi síðan urðarmáni er sveif um veggi og hús Fróðárbæjar. Eftir að það gekk yfir, sáust sjódauðir menn ganga til langelda og aðrir menn dauðir rísa úr gröfum sínum. Svo fór að gerð var gangskör að því að kveða þennan ófögnuð niður og var það gert með því að settur var dyradómur svokallaður yfir draugunum öllum, sextán að tölu, og farið þar í öllu að þingadómum. Að dóminum gengnum risu hinir dauðu upp úr sætum sínum og hurfu við svo búið á braut. Að svo komnu máli var vígt vatn borið á hús og helgir dómar bornir um og hefur ekki borið þar á draugum síðan.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.