Forvarsla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Forvarsla er þverfagleg starfsgrein sem hefur það að markmiði að stuðla að langtímavarðveislu hvers konar menningarsögulegra gripa, til dæmis listaverka, forngripa, bóka og handrita. Þar sem þessir gripir geta verið af ólíku tagi, sérhæfa forverðir sig innan ákveðinna greina forvörslu, svo sem málverkaforvörslu, forngripaforvörslu, textílforvörslu og pappírsforvörslu. [1] Í forvörslu mætast ólíkar fræðigreinar, svo sem efnafræði, eðlisfræði, líffræði, listasaga, fornleifafræði, sagnfræði, þjóðfræði og siðfræði. Forvarsla gripa byggist á skilningi á vísindalegum eiginleikum þeirra efna sem gripirnir eru skapaðir úr, hvernig þessi efni eldast og bregðast við áhrifum umhverfisins. Þessi vitneskja gerir forvörðum kleift að koma í veg fyrir skemmdir á gripum með því að hefta eyðileggjandi áhrif umhverfisins. Einnig er sögulegt (menningarsögulegt og listsögulegt) samhengi gripanna mikilvægt og getur því haft mikil áhrif á meðferð þeirra. Öll efni sem notuð eru í viðgerðir eru vandlega valin með tilliti til þess að þau skaði ekki gripina og að unnt sé að fjarlægja þau síðar.

Sem dæmi um verkefni forvarðar mætti nefna:

  • Meðferð til að gera gripi stöðuga eða hamla gegn hrörnun þeirra.
  • Viðgerðir með það að leiðarljósi að koma skemmdum eða hrörnuðum gripum í upprunalegt ástand án þess að glata fagurfræðilegu eða sögulegu samhengi þeirra.
  • Rannsóknir á gripum, til að ákvarða hvaða efni voru notuð við framleiðslu þeirra eða eldri viðgerðir.
  • Rannsóknir á gripum, til að ákvarða orsök og umfang skemmda eða breytingu frá upprunalegu horfi.
  • Gerð skýrslna í máli og myndum um ástand gripa, fyrir og eftir meðferð.
  • Fyrirbyggjandi aðgerðir til að hamla gegn hrörnun með því að gefa ráðleggingar og hafa eftirlit varðandi umhverfi gripanna, hvort sem þeir eru á sýningu eða í geymslu, þetta á við ljósmagn, hitastig og rakastig.
  • Veita ráðgjöf varðandi pökkun, geymslu og flutning viðkvæmra gripa.
  • Fylgjast með nýjustu rannsóknum, tækni og framförum á sviði forvörslu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. febrúar 2015. Sótt 27. mars 2015.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.